Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hver dagur kostar heimilin 1 milljarð í auknar skuldir

Árið 2008 hækkuðu heildarskuldir heimilanna úr 1550 milljörðum í 2025 milljarða.  Ef fer sem horfir, án inngripa munu heildarskuldir heimilanna hafa hækkað um ca 740 milljarða frá 1.jan 2008 til ársloka 2009.  Verð- og gengistryggð veðlán eru langstærsti hluti skulda heimilanna og þar af eru skuldir vegna fasteignakaupa, náms- og bílalána stærstu flokkarnir. Nú hækka heildarskuldir heimilanna um 1 milljarð á hverjum degi og munu gera hvern dag þessi 2 ár, ef ekki verður gripið til almennra fyrirbyggjandi aðgerða strax.  Hversu lengi höfum við efni á að bíða með að taka á lánavanda heimilanna?  Hvernig eiga heimilin að ráða við slíka skuldsetningu, sem lánveitendur og stjórnvöld eiga stóran þátt í, bæði með beinum aðgerðum lánastofnana og aðgerðaleysi stjórnvalda? 

Er það ekki sorgleg staðreynd að auknar gjaldeyristekjur vegna fjölgunar og aukinnar verslunar erlendra ferðamanna leggst beint til hækkunar á veðskuldum heimilanna sökum verðtryggingarinnar?  Gjaldþrot og nauðasamningar einstaklinga gerir fólk vanhæft til að stofna eða stunda eigin atvinnurekstur í langan tíma og vegur þannig beint gegn sprota- og nýsköpunarstarfi.  Þegar námslánum, bílalánum og lífeyrissjóðslánum hefur verið bætt við greindar skuldir heimilanna er tala heimila með neikvæða eða mjög tæpa eiginfjárstöðu komin vel yfir 50%, sem þýðir að um 55.000 heimili eru í mjög þröngri stöðu.  Eðlilega er það aldurshópurinn 25-45 ára sem er stærstur þeirra sem eru í þröngri stöðu, en þetta er hópurinn sem er með börn á framfæri.Um 25% heimila eru með gengistryggð veðlán og 90% af þeim nýta sér frystingar eða önnur neyðarúrræði.  Umsóknum um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika hjá Íbúðarlánasjóði hefur fjölgað um uþb 900% á milli ára.  Þessi lán teljast þó öll í skilum.  Núverandi aðgerðir eru allar til þess fallnar að fela stærð vandans, en munu að lokum lama hagkerfið verði ekki bætt við fyrirbyggjandi aðgerðum til að forða því að sá hópur stækki, sem þarf á sértækum nauðarsamninga úrræðum. 

Það verður að stöðva siðlausar eignatilfærslur á sparnaði heimilanna í fasteignum, lífeyri og framtíðartekjum strax með fyrirbyggjandi aðgerðum.  Nú þegar er skuldastaða heimilanna um 270% af ráðstöfunartekjum.  Beita verður neyðaraðgerðum til að jafna ábyrgð lánveitenda og lántaka.  Samningsforsendur eru löngu brostnar.  Traust til fjármálastofnana er hverfandi og það sama á við um tiltrú almennings til stjórnvalda.  Þessu verður að snúa við með sáttarleið um lausn lánamála heimilanna. Hvernig á að örva atvinnulífið þegar atvinnutryggingasjóður verður tæmdur næsta haust, um 60% heimila verða með neikvæða eða tæpa eiginfjárstöðu með hratt minnkandi ráðstöfunartekjur, enn verða um 15-18.000 manns án atvinnu og ríkissjóður þarf að skera niður opinber umsvif um 150 milljarða næstu 3-4 árin?  Ef það er einhver meining í að ætlast til að fá ungt fólk til að fjárfesta í húsnæði í landinu í næstu framtíð og yfir höfuð sjá framtíð fyrir sér með búsetu á landinu verður að grípa til fyrirbyggjandi  og leiðréttandi almennra aðgerða strax.  Ef við ætlum ekki að missa stóran hluta fólks á aldrinum 25-45 ára úr landinu með börnin sín, verður að vekja von um að afleiðingum hrunsins verði ekki deilt niður af óvægnum þunga út frá skuldastöðu heimilanna fyrst og fremst.   Það fólk sem er mest hætta á að fari  verður líklega vel menntað skapandi og framtakssamt fólk úr mannvirkjageiranum, fólk úr viðskipta- og fjármálageira og fólk sem er að ljúka háskólanámi í öllum greinum. 

Að ræna eiginfé í fasteignum, sparnaði og framtíðartekjum heimilanna til að bæta lánasöfn bankanna til endursölu og bæta þannig stöðu ríkissjóðs til skamms tíma er stórkostlegur glæpur og mikil þjóðhagsleg yfirsjón.  Allar stoðir samfélagsins verða að komast í gegnum þessar hremmingar, þe. ríkissjóður, fjármálakerfi, atvinnulíf og heimilin.   Með yfirskuldsett kaupmáttarlítil heimili verður lagður grunnur að gríðarlegum raunverulegum verðbólguþrýstingi í nánustu framtíð, um leið og formerki fara að snúast við.  Á slíkum grunni verður vandséð hvernig enduruppbygging samfélagsins á að takast með skjótum hætti.   Hagsmunir heimilanna og atvinnulífsins fara að miklu leiti saman. Verði ekkert að gert til að forða eignaupptöku, óhóflegri skuldsetningu og umfangsmiklum eignabruna heimilanna nú, mun gríðarlegur samdráttur bíða atvinnulífsins á komandi árum, með langvarandi háu atvinnuleysi og gríðarlegum útgjöldum á ríkissjóð.  Setja verður þak á verðbætur strax svo auknar þjóðartekjur vegna erlendra ferðamanna í sumar og möguleg jákvæð aukin umsvif annarra atvinnugreina dýpki ekki enn skuldastöðu heimilanna. Heimilin þurfa almennar fyrirbyggjandi og leiðréttandi aðgerðir strax til að forða hér algeru hruni.

Ég hvet þig til að taka stöðu með heimilunum í landinu með því að skrá þig í Hagsmunasamtök heimilanna.  Hversu lengi hefur þú efni á að bíða með að taka afstöðu?

Sjá einnig sláandi umfjallanir Michael Hudson um Alheimsstríð lánadrottna og Stríð gegn Íslandi


Haardera - er það einhver lausn?

Hin alþjóðlega lausafjárkreppa hófst haustið 2007 og ríkisstjórnin tók að "Haardera", þe. þagði og gerði ekki neitt.  Um síðustu jól ákváð aðilar í verslun og þjónustu samt sem áður að gefa út jákvæð skilaboð, kynda undir bjartsýni og yfirlýsingar voru gefnar út þess efnis að allt benti til að jólaverslun myndi slá öll fyrri met, aukast um 20% frá árinu 2006.  Ríkisstjórnin studdi þessar yfirlýsingar og gaf út hefðbundnar jákvkæðar yfirlýsingar, til að styggja ekki veltuna og jólaverslunin gekk eftir og sló fyrri met.  Lítið var gert úr þeim sem reyndu að vara við ástandinu.

Í janúar 2008 greindu dagblöðin frá að aldei höfðu jafn margir nýir bílar verið fluttir inn til landsins.  Visareikningar jólagleðinnar voru þó ekki komnir þegar bjartsýni bílasala hafði breyst í andhverfu sína.  Við 1.ársfjórðunguppgjör í mars féll gengið hraustlega og ríkisstjórnin brást ekki við því.  Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar voru allar á þá leið að hér væri allt í lagi.  Einnig við 2.ársfjórðungsuppgjör versnuðu horfur, en ríkisstjórnin gaf aftur út yfirlýsingar um að hér væri allt í stakasta, "tímabundnar þrengingar" en ekkert til að hafa stórar áhyggjur af.  Það mátti ekki styggja sumarveltuna og ráðamenn lögðu jafnvel land undir fót til að lýsa yfir góðu gengi innlendra fjármálastofnana á erlendum vettvangi.  Fall krónunnar við 1. og 2. ársfjórðungsuppgjör styrkti bókfærða stöðu bankanna vegna aukins gengismunar og aukin verðbólga jók einnig bókfærðar eignir bankanna í útistandandi veðskuldum í heimilum landsmanna.  Jafnvel þegar allt var komið í þrot reyndi Geir Haarde að dylja fyrir þjóðinni að hér væri allt komið í kalda kol og fjármálakerfi landsins hrunið.

Upplýsingar ríkisstjórnarinnar hafa verið beinlínis villandi og hvatt til neyslu frekar en sparnaðar í langan tíma, þvert á alla skynsemi.  Hverju sætir það?  Svo hækkar Seðlabankinn stýrivexti vegna aukinnar neyslu!  Hvers vegna tala þessir menn ekki skýrt?  Myndi það styggja um of hundtrygga styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins í verslun og þjónustu?   Hvers vegna þegja þingmenn Samfylkingarinnar? 

Skammtímasjónarmið hafa ráðið því að meiri áhersla hefur verið lögð á veltu í verslun er þróunarstarf til atvinnuuppbyggingar hér á landi, sem hefur vegið mjög að innlendri framleiðslu.  Það er ljóst að í stöðunni nú er mjög æskilegt að flytja meira út en inn til landsins og því þörf á að hvetja til samdráttar á innfluttum neysluvarningi, en jafnframt að auka á innlenda framleiðslu. 

Hér ríkir vægast sagt óvenjulegt ástand og því hafa verið sett neyðarlög á fjármálastofnanir.  Krónan hefur verið sett á flot í gríðarlegu haftaumhverfi og útflytjendum er gert skylt að færa söluandvirði seldra vara til landsins við innan ákv. tímamarka.  Greinilegt er að þörf er á ýmsum aðgerðum á næstunni til að koma atvinnulífinu til bjargar.  Með því að "Haardera" verðtrygginguna rýrnar nú kaupmáttur heimilanna hröðum skrefum, sem dregur allt blóð úr atvinnulífinu. 

Ljóst er að með óhefta verðtryggingu mun draga mjög úr einkaneyslu til langs tíma, því verðtryggðar skuldir hækka stöðugt.  Með því að halda stýrivöxtum í þessum hæðum er ekki annað að sjá að ríkisstjórnin sé mjög einuga í að fella bæið atvinnulífið og heimilin í landinu.  Þó jólaverslunin sé líflegri en búist var við er athyglivert að víða er varningur nú á háannatíma auglýstur með 30-60% afslætti.  Í 12 vikur hefur ríkisstjórnin "Haarderað" heimilin og atvinnulífið í landinu og ætlar sér á þeirri aðferðafræði að komast yfir áramótin og láta þannig bókfæra til skatts uppskrúfaða skuldastöðu heimila og fyrirtækja.

Ef ríkisstjórnin kýs áfram að "Haardera" heimilin og atvinnulífið í landinu aukast líkurnar til muna á að mótmæli og aðgerðir taki aðra stefnu og form á nýju ári.  Er von að fólkið í landinu beri minna traust til ríkisstjórnarinnar, sem kýs að valta yfir alþingi með einhliða afgreiðslu mála frá stjórnarflokkunum og hefur í 12 vikur, þrátt fyrir stöðug mótmæli, ekki komið með neinar raunhæfar varnaraðgerðir til að forða stórkostlegu atvinnuleysi, gjaldþrotum fyrirtækja og eignaupptökum heimilanna, heldur aðeins skrifað verklagsreglur hvernig fjármagnseigendur eiga að leysa fyrirtæki til sín og geti yfirtekið heimilin í landinu.


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúum vörn í sókn - veljum innlent

Meðan flest kerfi hérlendis hafa hrunið undanfarið og traust til stjórnvalda, fjármálastofnana, löggjafa og fjölmiðla hefur beðið skipbrot eru nokkrir þættir sem standa bjargfastir eins og vitar á bjargbrúninni og varða leiðina úr ógöngunum.  Innlend menning, hönnun, bókmenntir, tónlist, handverk og iðnaður eru afsprengi þrautsegju, verkkunnáttu, mannauðs og framtakssemi landsmanna.  Þessa þætti ættum við að styrkja og hlúa að, nú þegar við veljum glaðninga til vina og vandamanna um hátíðarnar.

Í þrengingum sem gengu yfir norðurlandaþjóðirnar í kringum 1990 lá svar þeirra allra að miklu leiti í að fækka erlendum vöruflokkum, framleiða sjálfar það sem forsvaranlegt var að framleiða af matvælum og nauðsynjavöru.  Auk þess var lögð mikil áhersla á styrkja innlenda framleiðslu og menningu á öllum sviðum.  Matargerðarlistin, tónlist, kvikmyndir, bókmenntir, handverk og iðnaður eru allt mjög mikilvægir þættir í endurreisn norðurlandanna úr sínum þrengingum.  Norrænar kvikmyndir og sjónvarpsefni sem við höfum haft á dagsskrá undanfarin ár eru talandi dæmi um góðan árangur þeirra og fléttast inn í fleiri þætti, eins og uppbyggingu í ferðamálum.  Allar norðurlandaþjóðirnar lögðu áherslu á uppbyggingu innlendrar ferðaþjónustu og tölurnar þaðan tala skírt.  Þar er hlutfall útseldra gistinátta um 65-80% til eigin landsmanna, en hér er það hlutfall einungis í um 30%.  Á meðan við eyddum um 220 milljörðum á ferðalögum erlendis 2007 voru tekjur okkar af erlendum ferðamönnum um 40 milljarðar!

Við þurfum að hafa hugfast þegar við veljum hvort við aukum á gjaldeyrisútflutning eða styðjum innlenda framleiðslu og þar með atvinnustig landsins.

Ég hvet alla að taka afstöðu með atvinnunni og menningunni í landinu og velja innlendan glaðning í jólapakkana.  Úrvalið hefur alderi verið jafn fjölbreytt.  Okkar val skiptir öllu máli.  


Óskiljanlegur doði ráðamanna

Undanfarið hefur margoft verið bent á að hér á landi sé svokölluð "tvíburakreppa", þe alþjóðleg lausafjárkreppa og gjaldeyriskreppa.  Gjaldeyrishlutinn á að útskýra hvers vegna hér sé eðlilegt að halda stýrivöxtum í himnahæðum, á meðan flest öll önnur hagkerfi bregðast nú við með því að lækka stýrivextina, til að forða því að einkaneyslan dragist um of saman, því það mun leiða af sér umtalsvert atvinnuleysi.  Í flest öllum löndum er það meiri háttar áhyggjuefni, en hér eru menn uppteknir af einhverju allt öðru.

Hér tala stjórnvöld út og suður, segja eitt en gera svo allt annað.  Tala atvinnulausra er nú að nálgast 9.200 manns og telur alls ekki alla þá sem stunda einyrkjastarfsemi og lítil fyrirtæki, sem eru nú verklaus.  Rauntala atvinnulausra er án efa nær 11.000 og uppsagnir fleiri þúsunda munu taka gildi í lok janúar 2009. 

Hvað gera ráðamenn?  Þeir eru uppteknir við eitthvað, en við hvað, veit það einhver?!  Heildarskuldir heimilanna voru í lok 2007 um 1.550 milljaðar en stóðu í lok sep. sl. í um 1.890 milljarða, höfðu þá hækkað um heila 340 milljarða á tæpu ári.  Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru til að verja banka- og lífeyrissjóðakerfið, en atvinnulífið og heimilin í landinu fá enga athygli.  Einkaneyslan hefur dregist mjög hratt saman, hver atvinnugreinin á fætur annarri er farin að sýna rauð ljós, sem kemur fram í síhækkandi tölum atvinnulausra og mæld verðbólga er eingöngu til komin vegna falls krónunnar.  Ef ekkert verður við gert munu heildarskuldir heimilanna hækka um 720 milljarða árin 2008 og 9.  Á sama tíma og eignarhluti heimilanna í fasteignum, sparifé og lífeyri rýrnar hækka skuldirnar nú með ógnarhraða.  Er fólki alveg sama um þessa eignaupptöku?  Hverra hagsmuna eru ASÍ menn að gæta?

"Stöndum vörð um velferðarkerfið", "eflum mannauðinn", "eflum menntun", "hlúum að atvinnulífinu", "stöndum vörð um heimilin í landinu" eru allt innistæðulausar upphrópanir stjórnmálamanna til þess eins að slá ryki í augu almennings.  Aldrei hafa ráðamenn verið jafn einhuga um að ganga varanlega í skrokk á þjóð sinni, fyrir utan VG, sem hafa gefið út yfirlýsingu um að setja eigi þak á verðtryggð lán.  Verðtryggðar skuldir eiga að tryggja lánveitendum tekjur sama hvað, sama hvað bankar og fjármálastofnanir hafa með beinum aðgerðum kynnt undir verðbólgu síðustu ára, bæði í neyslu og gengisskráningu og þannig skammtað sér auknar tekjur til útrásarinnar (aukinnar skuldasöfnunar erlendis), sem hefur nú komið allri þjóðinni í stórkostlegar fjárhagsskuldbindingar.  Í böndum verðtryggingar og fallandi fasteignamarkaðar eru heimilin í landinu eins og kýr í fjósi, mjólkuð hart, þar til þau verða leidd til slátrunar!  Okkar kjörnu fulltrúum virðist nokkuð sama um gríðarlegar eignaupptökur heimilanna og skýla sér bak við verðtrygginguna og skuldastöðu heimilanna.  

Það er pólitískt mjög óvinsælt að hækka skatta, en á móti eru notuð jákvæð orð eins og "björgunarpakki heimilanna" yfir rýmkaðar heimildir til úrvinnslu þrotamála sem mun að öllu óbreyttu fjölga mjög hratt á næstunni.  Með þessum aðgerðum eru heimili gerð ábyrg fyrir falli krónunnar og vegna verðtryggingarinnar mun skuldastaðan rýra kaupmátt skuldugra heimila varanlega og í auknum mæli á komandi árum.  Það mun draga allan mátt úr atvinnulífinu til lengri tíma og þegar fer að rofa til á ný mun gríðarleg skuldastaða knýja fram gríðarlega launakröfur sem munu kalla fram raunverulega verðbólgu.  Sú þróun mun gera hafa mjög slæm áhrif á ferðamannageirann og útflutningsgreinarnar og þar með gjaldeyrisstofnana.  Klassíska leiðin til að laga þannig galla er að fella gengið, til að laga samkeppnisstöðu okkar gagnvart öðrum hagkerfum, en er það boðlegt?

Hygling lánsfjárveitenda á kostnað skuldara mun auka enn á ójafnræðið í samfélaginu og gera almenna enduruppbyggingu mun hægari en ella.   Fá hagkerfi bjóða borgurum verðtryggð húsnæðislán og því mun einkaneysla þeirra kerfa ekki dragast saman með jafn varanlegum hætti og hér.   Eru þau meðul sem hér eru notuð til að búa til reiknanlegar stærðir í þjóðarbúskapnum kannski til varanlegs tjóns þegar kemur að enduruppbyggingu atvinnulífsins?

Ráðamenn eru aðgerðarlausir gagnvart forsvarmönnum bankanna og þeirra eignarhaldsfélaga sem keyrðu hér allt á annan endann.  Það á að skoða málið og í þessu samhengi er bent á að fólk sé saklaust þar til sekt þeirra sé sönnuð.  Undanfarið hafa sífleiri aðilar komið fram sem sýna brotalamir í kerfinu, þar sem fært en siðlaust fjármálafólk hefur leikið sér að tölum, stimplað uppskrúfaða ársreikninga í bak og fyrir og knúið þannig fram hækkanir og verðbólgu, sem heimilin eru nú látin borga fyrir.  Á meðan þetta verður skoðað ætla ráðamenn að sitja í rólegheitum við endurmat á stefnu flokkanna og vonast til að fá skilnings fólksins í landinu fyrir því að þeir þurfi vinnufrið til þess!!  Hversu langan tíma í viðbót þolir atvinnulífið þessa stýrivexti og síaukinn samdrátt einkaneyslunnar? 

Í stað þess að taka strax ákvarðanir um að frysta eigur þeirra sem eiga stærstan hlut að máli er nú valið að gefa þeim svigrúm í rúmt ár amk, fella niður skuldir þeirra og gefa þeim kost á að komast yfir eigur eiginlegra fyrirtækja á brunaverði.  Í stað þess að setja þak á verðtrygginguna til að forða varanlegri kaupmáttarrýrnun heimilanna og hruns annarra atvinnugreina, lækka stýrivexti til að efla atvinnulífið og deila fjárhagsbyrðunum í gegnum skatta, sem taka mið af greiðslugetu, þar sem skattur tekur mið af launum, á að dreifa þessum byrðum út frá skuldastöðu heimila og fyrirtækja, loka á fjármögnunarleiðir fyrirtækjanna nema á óbærilegum kjörum og yfirtaka fyrirtækin og heimilin í landinu!!  Hagfræðingar hamast nú við að útfæra leiðir til að breyta skuldum í "eigið fé" lánadrottna, í stað þess að horfa á langtímaáhrif stefnunnar og aðgerðaleysisins.  Þeir bæta taka þátt í áróðrinum og segja að hér sé vaxtastig í raun mjög lágt, einungis 0,9% og miða þá við muninn á stýrivöxtum (18%) og verðbólgu (17,1%)!!!  Stærstur hluti skulda heimilanna eru fasteigna- og námsskuldir.  Eru það virkilega pólitísk skilaboð að fólk eigi hvorki að fjárfesta í fasteignum né menntun hér á landi í framtíðinni????  Hvers vegna eru þessir grunnþættir ekki betur varðir fyrir siðlausum fjárglæframönnum, til endalausrar sjálftöku tekna og skuldadreifingar??  

Skilur einhver þennan doða ráðamanna?  Það er ljóst að ef engar breytingar verða á aðgerðum og vinnubrögðum ráðamanna mun stefna í mikinn styr milli þings og þjóðar upp úr áramótum.  Tíminn er að renna út. 


mbl.is Yfir 9 þúsund á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífsnauðsyn fyrir atvinnulífið og heimilin

Það er ánægjulegt að sjá loks hagfræðinga eins og Gylfa Magnússon blanda sér í umræðuna um hag og horfur atvinnulífsins og heimilanna í landinu.  Umræðan af þeirra hálfu hefur verið sorglega mikið út frá sjónarhóli ríkisins og bankanna, rétt eins og þeir ætli sér allir stól seðlabankastjóra.  Það væri áhugavert að fá hagfræðingana til að fjalla meira um afleiðingar þess að gera ekki neitt varðandi verðtrygginguna.  Hvaða áhrif hefur það td á einkaneysluna, kaupmáttinn, verðmætamyndun í fasteignum, vöxt lífeyrissjóða og tekjur ríkisins ef verðtryggð lán heimilanna blása út um rúm 40% á árunum 2008-9?   Þegar almenningur finnur fyrir svo gríðarlegri óbilgirni og tillitsleysi stjórnvalda er ekki von að sitjandi ríkisstjórn hríðfellur í áliti og hættan á að fólk gefist upp gagnvart fjárhagsstöðu sinni verður veruleg.  Hvað mun það kosta að missa 10% þjóðarinnar úr landi og hvaða áhrif mun það hafa á fasteignamarkaðinn, atvinnulífið, lífeyrissjóðina, bankana og tekjur ríkisins?

Hitt er borðleggjandi að vegna verðtryggingarinnar verða þær skuldahækkanir sem nú bætast við skuldir heimilanna ekki skilgreindar til skamms tíma.  Þær draga nú skarpt úr kaupmættinum, en svo rólegar en þó örugglega út allan afborgunartímann.  Á árunum 2008-9 munu heildarskuldir heimilanna hækka um 500 milljarða ef ekkert verður frekar að gert!  Áætlaðar skattahækkanir 2009 eru metnar á 40 milljarða og björgunaraðgerðir bankanna 1063 milljarðar til samanburðar.  Kaupmáttur mun því fara mjög hratt minnkandi, sem mun draga allan mátt úr atvinnulífinu, nema fjármálageiranum, sem eiga að auka "eigur" sínar um 500 milljarða!!!  Er eitthvað eðlilegt við það? 

Atvinnulífið og heimilin hafa ekki efni á verðtrygginunni óbeislaðri.  Ef ráðamenn ætla ekki að kalla yfir þjóðina langtíma doða í atvinnulífinu verður að setja þak á verðtrygginguna strax.  Vegna beinna aðgerða bankanna í að "hagræða sinni stöðu" og til samræmis við boðaðar heimildir fyrirtækja til að færa bókhald sitt frá áramótum 2008 ætti að setja þak á verðtyggingð lán heimilanna við 4% frá áramótum 2008, þar til verðbólga er komin niður fyrir þau mörk.  Þá á að afnema verðtrygginguna.

Ef þetta dugar ekki til, á í verstu tilfellum að fella niður skuldir að hluta, að greiðslugetu lántakenda, sem miðist við greiðslumat launa síðustu 12 mánaða.

Ég mynni á að eigið fé í fasteignum er líka lífeyrir og sparnaður, sem á að standa vörð um rétt eins og inneignir í bönkum og lífeyrissjóðum.  Húsnæði er ein af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og því ber ráðamönnum að verja eignaupptökur með öllum tiltækum ráðum.   Það vekur furðu mína að ASI og SA skuli ekki ganga fram af meiri þunga til að verja hag sinna skjólstæðinga með beinum tilmælum um aðgerðir gegn verðtryggðum skuldum heimilanna.  Svo mikill munur á kaupmætti og skuldasöfnun getur ekki leitt til annars en gríðarlegra launakrafna að hagsveiflunni lokinni, sem mun aftur skrúfa upp launakostnað innlendra fyrirtækja og þannig gera samkeppnissöðu þeirra gagnvart samkeppnislöndunum mun lakari ef ekki ómögulega, sem mun leiða til enn frekari gengisfellinga.  Höfum við efni á slíkum aðgerðum ofan á allt annað?

Beint samhengi er á milli afkomu fyrirtækjanna og kaupmáttar heimilanna í mjög mörgum tilfellum og því aukast líkur á skemmri harðindum hjá þjóðinni ef brugðist er strax við eignatilfærslum í gegnum verðtrygginguna.  Hvað varðar mannvirkjageirann þá þorir fólk nú ekki að fara í neinar breytingar eða nauðsynlegt viðhald, bæði vegna þess botnleysis skuldastöðunnar sem felst í verðtryggingunni og einnig þess að fólk veit hreinlega ekki hvort það haldi húsnæðinu sínu!

Það eru gríðarlega slæm pólitísk skilaboð að gera þá sem velja að fjárfesta í húsnæði og menntun meira fjárhagslega ábyrga fyrir óförunum en efni standa til.  Afleiðngarnar munu einnig verða varanlegar út afborgunartíma lánanna.  Því verður að bregðast við strax.


mbl.is Frysting jafnvel óhjákvæmileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB aðild - lykilatriði fyrir atvinnulíf landsins

Það vekur eftirtekt að um 75% fyrirtækja í landinu hafi ekki um árabil haft efni á að fjármagna sig hjá innlendum fjármálastofnunum og hafi því leitað í erlendar lántökur.  Viðskipti milli landa eru gríðarstór grundvallarþáttur í allri atvinnustarfsemi hérhlendis meira og minna í öllum greinum og þegar gengisáhættan er svo stór, kallar gengið á miklar álögur og verðhækkanir til að mæta þeirri áhættu.  Það leiðir til að framleiðslugreinar innanlands eiga erfiðara með að keppa við erlenda framleiðslu, bæði á innanlands og erlendum mörkuðum.  Það leiðir einnig af sér gríðarlegt gjaldeyristap vegna samkeppni í smásölu, sem kemur ma fram í heimsmeti í ferðalögum landsmanna til útlanda, en bæði ferðirnar og sú verslun sem þar á sér stað er beinn gjaldeyrisútflutningur og vegur beint gegn innlendri framleiðslu og atvinnustarfsemi.  Þessu þarf að breyta með öllum ráðum og það sem allra fyrst.  Því miður hafa skammtímaveltusjónarmið ráðið allt of miklu í ákvarðanatöku gagnvart uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs hérlendis.

Lykilatriði til skemmri tíma er að vinna upp sem allra fyrst traust á gjaldmiðlinum til að opna á "eðlilegri" viðskipti milli landa.  Úr þessu verður það erfitt nema með skýrri framtíðarsýn stjórnvalda í gjaldeyrismálum, sem því miður bólar lítið á.  Sífellt færri telja mögulegt eða öllu heldur forsvaranlegt að byggja á eigin gjaldmiðli til lengri tíma og hafa þar helstu kostir verið nefndir upptaka evru eða dollars.

Fylgismenn dollars telja það til helstu kosta að það kalli á mun minni afleiðingar fyrir "sjálfstæði landsins" en við fengjum sterkan gjaldmiðil til milliríkjaviðskipta og upptaka hans geti gengið hraðar fyrir sig.  Þeim fer þó sífellt fjölgandi sem telja bæði hagsmunalega réttara, mikilvægara og framsýnna að horfa til samvinnu við aðildarríki ESB og þar með upptöku evru.

Það er athyglisvert að helstu fyrirmyndir sjálfstæðismanna í hagstjórn koma frá USA og einnig það kerfi sem er á bak við húsnæðisuppbyggingu landsins og er kallað "sjálfseignarhaldskerfi" á meðan að það velferðarkerfi sem við erum að byggja upp er að norrænni fyrirmynd, en þó aðlagað að bandarískum fyrirmyndum.  Fyrri 2 kerfin er nú bæði komin í þrot og kallað er eftir að velferðarkerfið verði nú styrkt enn frekar að norrænni fyrirmynd. 

Sjálfseignarhaldsstefnan er nú orðin svo rótgróin að almennt gerir fólk sér ekki grein fyrir áhrifum hennar.  Grunnstefið er að fólk eigi að eiga allt sjálft og deila sem minnstu með öðrum, sem rímar við pólitískan undirtón stefnunnar, að fólk ræði sem minnst saman um sameiginlega hagsmuni en einbeiti sér að eiginhagsmunum.  Þessi sjónarmið hafa á undanförnum árum framleitt mjög óborgaralegt, ógagnrýnt og skammsýnt neyslusamfélag, þar sem gjaldeyrir flæðir úr landinu í stað þess að byggja upp öflugt skapandi iðnaðar- og framleiðslusamfélag með fjölbreyttu atvinnulífi byggðu á góðum tengslum við menningar og menntastofnanir landsins.  Þá leið hafa öll norrænu löndin farið eftir nýlegar efnahagskreppur og meira og minna öll aðildarlönd ESB eftir bæði stríð og efnahagskerppur.  Hér er þörf á stefnubreytingu og nýjum áherslum.

Ég er sannfærður um að það sé mun umfangsmeiri hagsmunir í því fólgnir að auka samvinnu og samstarf við löndin í Evrópu og því ekki í nokkrum vafa um, að til lengri tíma sé hagsmunir íslensks atvinnulífsins og heimila betur varðir með aðild að ESB og upptöku evru, en með einhliða upptöku dollars.

Til að styrkja krónuna til skemmri tíma tel ég því gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld gefi út yfirlýsingu um jákvæða afstöðu til aðildarviðræðna sem allra fyrst.  Í næsta skrefi gætu stjórnvöld annað hvort samið við seðlabanka ESB um fastbindingu krónu við evru á ákveðnu gengi, sem myndi tryggja gjaldeyrisviðskipti við aðildarríki ESB á því gengi og þannig róa þá fjármagnseigendur sem vilja nú flytja sitt fé úr landi.  Hin leiðin væri samningur við seðlabanka ESB um upptöku evru áður en að formleg innganga á sér stað, sem byggðist á yfirlýsingu stjórnvalda um aðildarviðræður.

Verðtryggingin og hávaxtastefna vinna gegn uppbyggingu atvinnulífsins og hlaða nú skuldum bæði á atvinnulíf og heimilin.  Við upptöku evru yrðu bæði þessi atriði úr sögunni.  Þó er algert lykilatriði að verja hag bæði fyrirtækja og heimila með því að hemja skuldsetningu heimilanna með því að setja þak á verðtrygginguna, því annars mun það draga allan mátt úr atvinnulífinu til mjög langs tíma.

Við höfum engan tíma, þar sem að stórkostlegur landflótti er í loftinu og því þurfa kjarnyrtar umræður að eiga sér stað strax, sem leiða til skýrrar framtíðarstefnu varðandi gjaldmiðilinn, áherslur í uppbyggingu atvinnulífsins, velferðarkerfisins og samvinnu við löndin í kring um okkur.  Ef þessi stefna liggur ekki fyrir í janúar er gríðarleg hætta á að ungt og vel menntað fjölskyldufólk taki að streyma frá landinu í þúsunda tali. 


mbl.is Hætta á klofningi innan SA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítaverð óbilgirni

Benedikt flutti góða ræðu eins og allir framsögumenn fundarins.  Heildar skuldir heimilanna eru nú um 1750 milljarðar og hafa hækkað undanfarið ár um 200 milljarða.  Ef ekkert verður annað gert en að fresta afborgunum munu um 300 milljarðar væntanlega bætast við þessar skuldir 2009, sem er hrikaleg tala.  Nýlega kynnti ríkisstjórnin björgunarpakka heimilanna, sem var verðmetinn upp á 2,4 milljarða, en inni í honum er endurgreiðsla upp á 1,5-2 milljarða á innflutningstollum vegna útflutnings á bílum sem bílaumboðin, bankarnir og bílfjármögnunarfyrirtækin eru að selja úr landi.  Síðan eru ýmis úrræði til að fela gjaldþrot einstaklinga í ca ár, þannig að enginn taki nú eftir því þegar fjölskyldurnar eru teknar ein og ein og gerðar gjaldþrota.  Ef þetta kallast ekki óbilgirni og svívirða veit ég ekki hvað!!!

Fjármálaráðherra segir "ekki hægt" að afnema verðtrygginguna, því þá fáist ekki eins mikil lán erlendis.  Önnur rök eru að þá rýrni lífeyrissjóðirnir.  En gáið að því að þeir eru ekki að hugsa um lífeyrisþegana, sem þeir láta borga allt of mikinn skatt af lífeyrinum.  Við skulum hafa á hreinu að lánshæfismat ríkissjóðs er byggt á veðum í lífeyrissjóðunum og skuldum heimilanna og því betur sem lífeyrissjóðirnir standa og því meira sem heimilin skulda því meira getur ríkið fengið að láni og á betri kjörum.  Þessi ríksistjórn er einungis að hugsa um ríkissjóð og í því samhengi þjóna lífeyrissjóðirnir og skuldir heimilanna sem veðstólar!!

Í vikunni benti Vilhjálmur Bjarnason á að útlán bankanna til eignarhaldsfélaga sl 2 ár hafi numið um 1800 milljörðum, þar sem veð hafi verið að mestu í bréfunum sjálfum, ef einhver voru!  Þessir peningar voru "óþolinmótt fjármagn" sem var notað til að knýja fram verðhækkanir fyrirtækja og þar með ýta undir verðbólgu.  Varnarbarátta bankanna byrjaði líka 2006 þegar þeir stóðu á bak við gríðarlega uppbyggingu húsnæðis, mun meira en þörf var fyrir, til að koma upp stærri veðstól og halda uppi virði á markaði.  Nú þegar pappírarnir eru fuðraðir upp eru útlánatöp afskrifuð í stórum stíl á meðan að þessar aðgerðir hafa allar hækkað húsnæðisskuldir heimilanna, bæði beint í kaupverði og eins með hækkandi verðbólgu vegna þessara aðgerða.

Nú standa fjallháar húsnæðisskuldir landsmanna eftir, vegna skvikastarfsemi bankanna og fjárglæframanna sem fengu milljarða lánaða til hlutabréfakaupa.  Þeirra aðgerðir leiddu til bankahrunsins, sem leiddi til falls krónunnar.  Á þetta horfði ríkisstjórnin kampakát, enda skiluðu stimpilgjöld og veltuskattar ríkissjóði skuldlausum. 

Nú eftir fall krónunnar er neysla hverfandi og mæld verðbólga er gerfiverðbólga, sem eingöngu er til komin vegna falls krónunnar.  Enn eiga heimilin í landinu að taka við ábyrgðinni og taka á sig ómælda hækkun verðlags vegna gengishrunsins með glórulausum hækkunum á verðtryggðum skuldum heimilanna.  

Þetta er gersamlega óverjandi siðleysi og skammsýni.  Þessari óbilgirni verður ekki tekið þegjandi og fólk mun rísa upp.  Þetta varðar um 90.000 fjölskyldur!  Mesta hættan er á að fólk hreinlega hætti að greiða af lánunum og fari af landi brott.  Ef við miðum við reynslu Færeyinga sem misstu 15% af þjóðinni þá gætu þetta verið um 45.000 manns, um 16.000 fjölskyldur!!  Skammsýnin felst í því að þegar þessar byrðar verða komnar á fjölskyldurnar, mun uppbygging hagkerfisins taka mun lengri tíma eða leiða af sér gríðarlegar kauphækkunarkröfur vegna kjaraskerðingar og þungra skulda, sem vegna verðtryggingarinnar munu bara hækka allan afborgunartímann!!  Ef laun hækka til að mæta sligandi afborgunum eykst hættan á gengisfalli verulega, til að leiðrétta framleiðslukostnað útflutningsgreinanna í samkeppni á erlendum mörkuðum.   Verðtryggingin gengur hreinlega ekki upp og því verður að forða því tjóni strax sem hún mun annars valda.

Engin áform hafa verið gefin út um að láta forsvarsmenn bankanna, fjárglæfrafjárfesta eða útrásarvíkinga bera fjárhagslega ábyrgð.  Engin yfirlýsing hefur verið gefin um að deila þurfi byrðinni milli atvinnulífs og launþega.  Engin yfirlýsing hefur verið gefin um að breyta þurfi áherslum í skattkerfinu til að jafna byrðarnar.  En það er búið að ákveða að senda heimilunum í landinu reikninginn og svo verður skoðað hvort þurfi að breyta skattkerfinu.  Fjármálaráðherra efaðist á fundinum í kvöld að hátekjuskattur, eða frekari skattar á hátekjufólk myndi skila nokkru!! 

Það verður að setja þak á verðtrygginguna strax, td við 4% efri mörk Seðlabankans, þar til verðbólga er komin niður fyrir þau mörk og þá á að afnema þetta skrapatól.  Ef við hefðum ekki haft verðtrygginguna hefðum við líklega aldrei lent í þessum hremmingum því sá doðaslaki sem í henni felst felur "svo þægilega" brestina í hagstjórninni.

Ég hvet fólk til að láta í sér heyra, þetta þarf ekki að vera svona og þarf ekki að fara svona.  Það er ekki nóg að horfa á sjónvarpið senda frá fundum og mótmælum.  Við verðum að mæta og láta í okkur heyra.


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúin trausti, með ónýt mælitæki á meingölluð kerfi

Það ástand sem upp er komið á sér margar forsendur og langan aðdraganda.  Því er erfitt að benda á einn sökudólg, eina stofnun, þingflokk osfrv. sem ber ábyrgð á því sem þjóðin stendur frammi fyrir nú.  Þó er ljóst að á vakt núverandi ríkisstjórnar fór allt til fjandans.  

Fjölmargir bentu á hætturnar, en svo var um hlutina búið að mælitækin ýmist greindu ekki hætturnar, eða vaktpóstar höfðu hreinlega verið lagðir niður svo að yfirsýn tapaðist.  Lögum var breytt til að styðja enn frekar við vöxt bankanna og fjárglæfrabrask.  Svarið við ýtrekuðum varnaðarorðum stjórnarandstöðu og málsmetandi aðila var yfirleitt að hér væri hagvöxtur mikill, tekjur ríkissjóðs góðar og vaxandi, atvinnuleysi vart mælanlegt, skuldir ríkissjóðs hverfandi og kaupmáttur almennings hefur aldrei verði meiri.  Þá var málið dautt, engar áhyggjur og ábendingar lærðra manna gerðar að léttvægu hjali.  Þessir aðilar voru keyrðir í kaf með samhentum áróðri stjórnarflokka og hagsmunaaðila í atvinnulífi og vegið að starfsheiðri þeirra.   Á meðan að staða ríkissjóðs batnaði stöðugt versnaði hins vegar hagur fyrirtækja, sveitarfélaga og heimila stöðugt, en engir mælar voru til að mæla það, amk fór ekki mikið fyrir áhyggjum ríkisstjórnarinnar af því.  Í stað þess að nýta mannauð landsins til að forðast mistök kaus ríkisstjórnin að valta yfir allar ábendingar sem samræmdust ekki pólitískum markmiðum.  Nú þegar í óefni er komið halda sömu aðilar áfram sömu aðferðafræði, þrátt fyrir að mannauði landsins sé hampað í orði, er upplýsingum um ástand og möguleg úrræði haldið frá fólkinu í landinu, þar til ákvarðanir hafa verið teknar.  Svo þétt er haldið um upplýsingar að þingmenn ríkisstjórnarflokka upplifa sig sem afgreiðslufólk í kjörbúð, ekki til umræðna um málin, heldur eru þau einungis notuð til samþykkta tillagna örfárra aðila innan ríkisstjórnarinnar.  Stjórnarandstaðan býr við sama kost.  Mótmæli og reglulegir málefnafundir almennings um stöðu mála telur þessi ríkisstjórn ekki heldur hafa neitt að segja, telja hvorki þörf á að hlusta á fólkið í landinu, mæta á fundina, né upplýsa þjóð sýna um þá sýn, sem þjóðin getur fylkt sér á bak við til að ná tökum á ástandinu og komast í gegnum hremmingarnar.  Það má ekki segja aðilum í verslun og þjónustu að hætta að selja gallabuxur, örbylgjuofna, bíla oþh. því það styggir stuðningsmenn Sjálfstæðismanna þó þessar greinar séu hreinn gjaldeyrisútflutningur, heldur á að senda heimilunum reikninginn í formi verðbólguskots á íbúðarlán!

Það vakti athygli mína að Ingibjörg Sólrún tók það sérstaklega fram á fundi flokksins um helgina að þyrfti að setja hagsmuni almennings fram fyrir hagsmuni flokksins.  Það var mikið að hún áttaði sig á þessu og sorglegt að Sjálfstæðismenn virðast enn langt frá því að hafa áttað sig á þessu.  Enn sorglegra er þó að stjórnmálaflokkar þurfi að taka slíkt sérstaklega fram, því ef þeir eru ekki að sinna hagsmunagæslu fólksins og atvinnulífsins í landinu eru þeir hreinlega á kolröngum stað. 

Fjármálakerfi landsins er hrunið og fólk ber hverfandi traust til bankanna, peningamálastefnan er ónýt, þenslupólitík ríkisstjórnarinnar er komin í strand, alþjóðasamfélagið gerir grín af stjórn Seðlabankans, stjórnmálamenn koma fram með misvísandi skilaboð og ljúga jafnvel að almenningi í gegnum fjölmiðla.  Á meðan að sífleiri upplýsingar koma fram um sviksamlega uppbyggingu í bankakerfinu, sem var nýtt til að kynda undir verðbólgu og þar með kostnað fyrirtækja og fasteignaverð, sem heimilin í landinu eru hvað mest uggandi yfir núna, neitar ríkisstjórnin að taka raunverulega á þeim vanda, sem þeir komu heimilunum í.  Yfirlýsingar eru um að standa eigi fast vörð um stofnanir og kerfi, meðan að heimilin í landinu eiga að taka á sig fjárhagslegar byrðar, langt umfram það sem eðlilegt er, í gegnum verðtryggð lán. 

Rök með verðtryggingunni eru aðallega að annars "tapi" lífeyrissjóðir, bankarnir og íbúðalánasjóður, sem er þvættingur og áróður.  Einnig er sagt að það sé "dempari" í verðtryggingunni sem dreifi hækkun vegna verðbólguskota á allan afborgunartímann og þannig verði hækkandi afborganir "þægilegri" viðureignar en ella.  Það er því ekki síst verðtryggingunni að kenna við erum í þessari stöðu, annars hefði þetta útlánasukk aldrei gengið upp og afleiðingarnar komið fram miklu fyrr.  Sú gerfiverðbólga sem hér mælist nú er eingöngu til komin vegna falls gengisins.  Samdráttur í neyslu er að drepa verslun og þjónustu í landinu og mun brátt valda enn meira atvinnuhruni.  Verðbólgan er eingöngu hér innanlands og hefur ekkert með lánakjör við erlenda aðila að gera og er þannig meira spurning um "minni tekjur" frekar en beint tap til þessara stofnana.  Fall gengisins getur ekki verið sent beint á verðtryggð lán heimilanna.  Sífellt fleiri eru á þeirri skoðun að hætta hreinlega að greiða af lánunum og hvernig standa lánadrottnar þá?

Pétur Blöndal hefur haldið fram að í 40 ár hafi þjóðinni verið kennt að eyða og sólunda, (sjá fyrri skrif) og þeim boðskap búi þjóðin að ennþá.   Hagstjórnaræfingar síðustu 20 ára dæma sig sjálfar og því er ljóst að þörf er á grundvallar breytingu allra kerfa og því er það fólk sem nú situr alls óhæft til að leiða þjóðina lengur, sérstaklega Sjálfstæðismenn, sem hafa lengur en nokkur annar flokkur setið í ríkisstjórn, komið að flestum þeim breytingum sem nú hafa boðið skipbrot og nýtt sér flokkastarf sitt ómælt til að hygla sínum stuðningsmönnum.   Því er ekki von að menn komi ekki auga á meinin, enda rétttrúnaður þeirra gagnrýnilítill.  Það dæmir þá hins vegar algerlega óhæfa til björgunar og endurreisnar.  Bara það, að það tók ríkisstjórnina rúm 2 ár að girða fyrir að innflutningur á 10 strokka 5 tonna bensínhákum væri hagkvæmari en venjulegur fjölskyldubíll segir sína sögu og er óskiljanlegt í sjálfu sér.  Þá eru ótal dæmi um tilslakanir á fjárhagslegu eftirlitskerfi, sem allar voru til að hygla fáum á kostnað margra.  Lagalega eru því án efa "rétt" formerki á mörgum ákvörðunum, þó án efa leynist margt sem flokka má lögbrot.  Maður getur hins vegar sett stór spurningarmerki um siðferðið í mjög mörgum ákvörðunum einkavæðingartímans og ekki síður því siðferði sem endurspeglast í því hvernig sitjandi ríkisstjórn tekur á og ætlar að deila ábyrgðinni af því skipbroti sem hún hefur komið þjóð sinni í. 

Mitt álit og greinilega margra annarra er að ríkisstjórnin verði að endurnýja umboð sitt og boða eigi til kosninga í vor.  Ég hvet alla sem eru sama sinnis að fara inn á www.kjosa.is og láta skoðun sína í ljós.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging er tifandi tímasprengja

Komið hefur fram að gríðarmörg heimili eru með mjög spenntan fjárhagsboga, sem miðast við að geta greitt afborganir verðtryggðra lána núna.  Margir tóku 90-100% lán til 40 ára, en slík lán hækka stanslaust í rúm 25 ár áður enn þau taka að lækka.  Eignamyndun er afar hæg.  Í því árferði sem við göngum í gegnum núna hækkar höfuðstóll verðtryggðra lána með gríðarlegum hraða sem þrengir mjög það svigrúm sem lántakendur töldu sig hafa til hagræðingar og afborganir verða yfirþyrmandi mun fyrr en ella.

Þegar í þokkabót bætist við að atvinnuástand fer hríðversnandi og fasteignaverð er hratt fallandi breytast allar forsendur þannig að útlit til eignamyndunar verður vonlaust og við slík skilyrði er veruleg hætta á að fólk bregðist við með því að hætta að greiða af lánunum sínum og láti gera sig upp.

Því verður að setja þak á óbilgjarna skuldsetningu heimilanna með inngripi í verðtryggð lán og festa verðbótaþáttinn, td í efri mörkum seðlabankans, við 4% og þar til verðbólga fer undir þau mörk.

Ef ekki verður brugðist við nú, munu þúsundir heimila falla fyrir verðtryggingunni innan mjög skamms.  Verðtryggingin er því eins og tifandi tímasprengja inni á heimilum landsmanna.  Þá er spurningin sú hvort ráðamenn ætla að leyfa henni að sprengja upp fjölskyldur landsins í þúsunda tali, eða aftengja hana í tíma?  Því miður hafa ráðamenn ekki mikinn tíma til umhugsunar.  Þegar krónunni verður fleytt getur það þegar verið of seint!


mbl.is Hætti að greiða af lánum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í bílaútrás !

Fyrir stuttu voru kynnt úrræði til að bjarga heimilunum í landinu og síðar kom í ljós að breytingar á lögum til að heimila endurgreiðslu innflutningsgjalda bifreiða var metið inni í þeim úrræðum.  Stærðargráðan á endurgreiðslunni er 1,5-2 milljarðar en björgunarpakki heimilanna var metinn á 2,5 milljarða!!   Á meðan raunverulegar aðgerðir til varnar heimilunum vantar, hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað 2008 um  rúma 200 milljarða og munu hækka um 300 milljarða árið 2009, ef sama ríkisstjórn beitir sömu snilldar "björgunaraðgerðum" áfram.  Er þetta ekki bara að verða gott hjá þessu fólki?   Ég er amk orðinn hundþreyttur á pólitískum fyrirslætti. 

Hins vegar eru sölutekjur útrásarbílanna metnar um 10 milljarðar, gjaldeyrir inn í landið, sem er hið besta mál.  Ef við ætlum hins vegar að núlla auknar skuldir heimilanna með bílasölu úr landi þá þurfum við að selja um 250.000 bíla úr landinu!!  Er það ekki nokkuð ýkt?


mbl.is 5000 bílar úr landi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband