Rúin trausti, með ónýt mælitæki á meingölluð kerfi

Það ástand sem upp er komið á sér margar forsendur og langan aðdraganda.  Því er erfitt að benda á einn sökudólg, eina stofnun, þingflokk osfrv. sem ber ábyrgð á því sem þjóðin stendur frammi fyrir nú.  Þó er ljóst að á vakt núverandi ríkisstjórnar fór allt til fjandans.  

Fjölmargir bentu á hætturnar, en svo var um hlutina búið að mælitækin ýmist greindu ekki hætturnar, eða vaktpóstar höfðu hreinlega verið lagðir niður svo að yfirsýn tapaðist.  Lögum var breytt til að styðja enn frekar við vöxt bankanna og fjárglæfrabrask.  Svarið við ýtrekuðum varnaðarorðum stjórnarandstöðu og málsmetandi aðila var yfirleitt að hér væri hagvöxtur mikill, tekjur ríkissjóðs góðar og vaxandi, atvinnuleysi vart mælanlegt, skuldir ríkissjóðs hverfandi og kaupmáttur almennings hefur aldrei verði meiri.  Þá var málið dautt, engar áhyggjur og ábendingar lærðra manna gerðar að léttvægu hjali.  Þessir aðilar voru keyrðir í kaf með samhentum áróðri stjórnarflokka og hagsmunaaðila í atvinnulífi og vegið að starfsheiðri þeirra.   Á meðan að staða ríkissjóðs batnaði stöðugt versnaði hins vegar hagur fyrirtækja, sveitarfélaga og heimila stöðugt, en engir mælar voru til að mæla það, amk fór ekki mikið fyrir áhyggjum ríkisstjórnarinnar af því.  Í stað þess að nýta mannauð landsins til að forðast mistök kaus ríkisstjórnin að valta yfir allar ábendingar sem samræmdust ekki pólitískum markmiðum.  Nú þegar í óefni er komið halda sömu aðilar áfram sömu aðferðafræði, þrátt fyrir að mannauði landsins sé hampað í orði, er upplýsingum um ástand og möguleg úrræði haldið frá fólkinu í landinu, þar til ákvarðanir hafa verið teknar.  Svo þétt er haldið um upplýsingar að þingmenn ríkisstjórnarflokka upplifa sig sem afgreiðslufólk í kjörbúð, ekki til umræðna um málin, heldur eru þau einungis notuð til samþykkta tillagna örfárra aðila innan ríkisstjórnarinnar.  Stjórnarandstaðan býr við sama kost.  Mótmæli og reglulegir málefnafundir almennings um stöðu mála telur þessi ríkisstjórn ekki heldur hafa neitt að segja, telja hvorki þörf á að hlusta á fólkið í landinu, mæta á fundina, né upplýsa þjóð sýna um þá sýn, sem þjóðin getur fylkt sér á bak við til að ná tökum á ástandinu og komast í gegnum hremmingarnar.  Það má ekki segja aðilum í verslun og þjónustu að hætta að selja gallabuxur, örbylgjuofna, bíla oþh. því það styggir stuðningsmenn Sjálfstæðismanna þó þessar greinar séu hreinn gjaldeyrisútflutningur, heldur á að senda heimilunum reikninginn í formi verðbólguskots á íbúðarlán!

Það vakti athygli mína að Ingibjörg Sólrún tók það sérstaklega fram á fundi flokksins um helgina að þyrfti að setja hagsmuni almennings fram fyrir hagsmuni flokksins.  Það var mikið að hún áttaði sig á þessu og sorglegt að Sjálfstæðismenn virðast enn langt frá því að hafa áttað sig á þessu.  Enn sorglegra er þó að stjórnmálaflokkar þurfi að taka slíkt sérstaklega fram, því ef þeir eru ekki að sinna hagsmunagæslu fólksins og atvinnulífsins í landinu eru þeir hreinlega á kolröngum stað. 

Fjármálakerfi landsins er hrunið og fólk ber hverfandi traust til bankanna, peningamálastefnan er ónýt, þenslupólitík ríkisstjórnarinnar er komin í strand, alþjóðasamfélagið gerir grín af stjórn Seðlabankans, stjórnmálamenn koma fram með misvísandi skilaboð og ljúga jafnvel að almenningi í gegnum fjölmiðla.  Á meðan að sífleiri upplýsingar koma fram um sviksamlega uppbyggingu í bankakerfinu, sem var nýtt til að kynda undir verðbólgu og þar með kostnað fyrirtækja og fasteignaverð, sem heimilin í landinu eru hvað mest uggandi yfir núna, neitar ríkisstjórnin að taka raunverulega á þeim vanda, sem þeir komu heimilunum í.  Yfirlýsingar eru um að standa eigi fast vörð um stofnanir og kerfi, meðan að heimilin í landinu eiga að taka á sig fjárhagslegar byrðar, langt umfram það sem eðlilegt er, í gegnum verðtryggð lán. 

Rök með verðtryggingunni eru aðallega að annars "tapi" lífeyrissjóðir, bankarnir og íbúðalánasjóður, sem er þvættingur og áróður.  Einnig er sagt að það sé "dempari" í verðtryggingunni sem dreifi hækkun vegna verðbólguskota á allan afborgunartímann og þannig verði hækkandi afborganir "þægilegri" viðureignar en ella.  Það er því ekki síst verðtryggingunni að kenna við erum í þessari stöðu, annars hefði þetta útlánasukk aldrei gengið upp og afleiðingarnar komið fram miklu fyrr.  Sú gerfiverðbólga sem hér mælist nú er eingöngu til komin vegna falls gengisins.  Samdráttur í neyslu er að drepa verslun og þjónustu í landinu og mun brátt valda enn meira atvinnuhruni.  Verðbólgan er eingöngu hér innanlands og hefur ekkert með lánakjör við erlenda aðila að gera og er þannig meira spurning um "minni tekjur" frekar en beint tap til þessara stofnana.  Fall gengisins getur ekki verið sent beint á verðtryggð lán heimilanna.  Sífellt fleiri eru á þeirri skoðun að hætta hreinlega að greiða af lánunum og hvernig standa lánadrottnar þá?

Pétur Blöndal hefur haldið fram að í 40 ár hafi þjóðinni verið kennt að eyða og sólunda, (sjá fyrri skrif) og þeim boðskap búi þjóðin að ennþá.   Hagstjórnaræfingar síðustu 20 ára dæma sig sjálfar og því er ljóst að þörf er á grundvallar breytingu allra kerfa og því er það fólk sem nú situr alls óhæft til að leiða þjóðina lengur, sérstaklega Sjálfstæðismenn, sem hafa lengur en nokkur annar flokkur setið í ríkisstjórn, komið að flestum þeim breytingum sem nú hafa boðið skipbrot og nýtt sér flokkastarf sitt ómælt til að hygla sínum stuðningsmönnum.   Því er ekki von að menn komi ekki auga á meinin, enda rétttrúnaður þeirra gagnrýnilítill.  Það dæmir þá hins vegar algerlega óhæfa til björgunar og endurreisnar.  Bara það, að það tók ríkisstjórnina rúm 2 ár að girða fyrir að innflutningur á 10 strokka 5 tonna bensínhákum væri hagkvæmari en venjulegur fjölskyldubíll segir sína sögu og er óskiljanlegt í sjálfu sér.  Þá eru ótal dæmi um tilslakanir á fjárhagslegu eftirlitskerfi, sem allar voru til að hygla fáum á kostnað margra.  Lagalega eru því án efa "rétt" formerki á mörgum ákvörðunum, þó án efa leynist margt sem flokka má lögbrot.  Maður getur hins vegar sett stór spurningarmerki um siðferðið í mjög mörgum ákvörðunum einkavæðingartímans og ekki síður því siðferði sem endurspeglast í því hvernig sitjandi ríkisstjórn tekur á og ætlar að deila ábyrgðinni af því skipbroti sem hún hefur komið þjóð sinni í. 

Mitt álit og greinilega margra annarra er að ríkisstjórnin verði að endurnýja umboð sitt og boða eigi til kosninga í vor.  Ég hvet alla sem eru sama sinnis að fara inn á www.kjosa.is og láta skoðun sína í ljós.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband