Mannvirkjagerð í þjóðarbúskapnum

Árið 2004 störfuðu 11.500 manns mannvirkjagerð, eða 7,4% vinnuaflsins.  Framleiðnin 2004 var um 30% af fjármunamyndun ársins, um 38,6 Ma.kr.  Árið 2007 unnu um 15.700 manns í sama geira, eða 8,8% vinnuaflsins, með framleiðnihlutdeild fjármunamyndunar upp á 21% af fjármunamyndun allra atvinnuvega í landinu, um 45,7 Ma.kr.  Velta geirans hefur verið um 120-140 Ma.kr./ ári en 2006-7 hefur veltan aukist upp í um 200 Ma.kr / ári.

Um 10% starfa eru nú í mannvirkjahönnun eða um 1500 manns, sem skiptist til helminga á arkitekta- og verkfræðistofur.   Þessir starfsmenn eru allir háskólamenntaðir, flestir menntaðir erlendis og hafa margir einnig starfsreynslu erlendis frá, talandi á mörgum málum og með mikið alþjóðlegt tengslanet.   Í framleiðsluhluta geirans starfa bæði háskólamenntaðir, iðnmenntaðir, iðnmeistarar og verkamenn.  Erlendir starfsmenn í mannvirkjagerð hafa aðallega starfað í framleiðsluhlutanum.

Í mannvirkjahönnun starfa nú um 700 manns inni á arkitektastofum og annað eins á verkfræðistofum.  Áætluð velta á mann er um 1 milljón á starfsmann á mánuði, alls um 16,8 milljarðar á ári.  Vegna þrenginga í hagkerfinu er nú búist við um  50-70% uppsögnum í hönnunarsviði mannvirkjagerðar.  Verst mun samdrátturinn koma við arkitektastofurnar, þar sem búist er við 70-90% atvinnuleysi um næstu áramót ef ekkert verður að gert.  Við það munu svo til allar arkitektastofurnar liðast sundur og mikið uppbyggingar- og gæðastarf undanfarinna ára glatast.  Bæði arkitekta- og verkfræðistofur hafa verið að innleiða alþjóðleg gæðavottunarkerfi í langan tíma, til að geta tekist á við stór og alþjóðleg verkefni.  Á því sviði hefur mannauðsuppbyggingin verið lykilatriði.  Þetta mun allt glatast ef ekki verður brugðist við strax og mikil hætta er á stórkostlegum landflótta.  Langan tíma mun taka að byggja upp stofurnar á nýjan leik, ef þær liðast í sundur. 

Vegna "hreðjataks" Seðlabankans á almennum markaði í formi hárra stýrivaxta og ríkisstjórnarinnar með því að vera ekki búin að setja þak á áhrif verðbólgu á stórkostlega skuldayfirfærslu á heimilin í landinu, er almennur markaður gegnfrosinn.  Í því ljósi má búast við að innan mjög skamms muni um 6-10.000 manns innan þessa geira missa vinnuna, eða um 40-60%.

Fyrir utan beinar afleiðingar á þetta starfsfólk og þeirra fjölskyldur munu afleiðingarnar verða gríðarlegur samdráttur annarra greina í samfélaginu, með tilheyrandi hruni og enn neikvæðari áhrifum á fasteignaverð og þar með fjármálakerfið og afkomu hins opinbera.  Ónefnt er það menningarlega og samfélagslega tjón ef þessi hópur flosnar upp og yfirgefur landið.

Því verður að leggja allt kapp á að mannvirkjagerð í landinu stöðvist ekki og að þeir sem missa vinnu sína við mannvirkjahönnun verði strax fengin krefjandi verkefni til undirbúnings eflingar annarra atvinnuvega sem tengjast mannvirkjahönnun ss. ferðaþjónustunnar, til undirbúnings nýs uppbyggingartímabils með endurskoðun lagaumhverfis, aðgerðir til lækkunar byggingarkostnaðar, nýsköpunar og eflingar innlends iðnaðar á sviði mannvirkjagerðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband