Vítaverð óbilgirni

Benedikt flutti góða ræðu eins og allir framsögumenn fundarins.  Heildar skuldir heimilanna eru nú um 1750 milljarðar og hafa hækkað undanfarið ár um 200 milljarða.  Ef ekkert verður annað gert en að fresta afborgunum munu um 300 milljarðar væntanlega bætast við þessar skuldir 2009, sem er hrikaleg tala.  Nýlega kynnti ríkisstjórnin björgunarpakka heimilanna, sem var verðmetinn upp á 2,4 milljarða, en inni í honum er endurgreiðsla upp á 1,5-2 milljarða á innflutningstollum vegna útflutnings á bílum sem bílaumboðin, bankarnir og bílfjármögnunarfyrirtækin eru að selja úr landi.  Síðan eru ýmis úrræði til að fela gjaldþrot einstaklinga í ca ár, þannig að enginn taki nú eftir því þegar fjölskyldurnar eru teknar ein og ein og gerðar gjaldþrota.  Ef þetta kallast ekki óbilgirni og svívirða veit ég ekki hvað!!!

Fjármálaráðherra segir "ekki hægt" að afnema verðtrygginguna, því þá fáist ekki eins mikil lán erlendis.  Önnur rök eru að þá rýrni lífeyrissjóðirnir.  En gáið að því að þeir eru ekki að hugsa um lífeyrisþegana, sem þeir láta borga allt of mikinn skatt af lífeyrinum.  Við skulum hafa á hreinu að lánshæfismat ríkissjóðs er byggt á veðum í lífeyrissjóðunum og skuldum heimilanna og því betur sem lífeyrissjóðirnir standa og því meira sem heimilin skulda því meira getur ríkið fengið að láni og á betri kjörum.  Þessi ríksistjórn er einungis að hugsa um ríkissjóð og í því samhengi þjóna lífeyrissjóðirnir og skuldir heimilanna sem veðstólar!!

Í vikunni benti Vilhjálmur Bjarnason á að útlán bankanna til eignarhaldsfélaga sl 2 ár hafi numið um 1800 milljörðum, þar sem veð hafi verið að mestu í bréfunum sjálfum, ef einhver voru!  Þessir peningar voru "óþolinmótt fjármagn" sem var notað til að knýja fram verðhækkanir fyrirtækja og þar með ýta undir verðbólgu.  Varnarbarátta bankanna byrjaði líka 2006 þegar þeir stóðu á bak við gríðarlega uppbyggingu húsnæðis, mun meira en þörf var fyrir, til að koma upp stærri veðstól og halda uppi virði á markaði.  Nú þegar pappírarnir eru fuðraðir upp eru útlánatöp afskrifuð í stórum stíl á meðan að þessar aðgerðir hafa allar hækkað húsnæðisskuldir heimilanna, bæði beint í kaupverði og eins með hækkandi verðbólgu vegna þessara aðgerða.

Nú standa fjallháar húsnæðisskuldir landsmanna eftir, vegna skvikastarfsemi bankanna og fjárglæframanna sem fengu milljarða lánaða til hlutabréfakaupa.  Þeirra aðgerðir leiddu til bankahrunsins, sem leiddi til falls krónunnar.  Á þetta horfði ríkisstjórnin kampakát, enda skiluðu stimpilgjöld og veltuskattar ríkissjóði skuldlausum. 

Nú eftir fall krónunnar er neysla hverfandi og mæld verðbólga er gerfiverðbólga, sem eingöngu er til komin vegna falls krónunnar.  Enn eiga heimilin í landinu að taka við ábyrgðinni og taka á sig ómælda hækkun verðlags vegna gengishrunsins með glórulausum hækkunum á verðtryggðum skuldum heimilanna.  

Þetta er gersamlega óverjandi siðleysi og skammsýni.  Þessari óbilgirni verður ekki tekið þegjandi og fólk mun rísa upp.  Þetta varðar um 90.000 fjölskyldur!  Mesta hættan er á að fólk hreinlega hætti að greiða af lánunum og fari af landi brott.  Ef við miðum við reynslu Færeyinga sem misstu 15% af þjóðinni þá gætu þetta verið um 45.000 manns, um 16.000 fjölskyldur!!  Skammsýnin felst í því að þegar þessar byrðar verða komnar á fjölskyldurnar, mun uppbygging hagkerfisins taka mun lengri tíma eða leiða af sér gríðarlegar kauphækkunarkröfur vegna kjaraskerðingar og þungra skulda, sem vegna verðtryggingarinnar munu bara hækka allan afborgunartímann!!  Ef laun hækka til að mæta sligandi afborgunum eykst hættan á gengisfalli verulega, til að leiðrétta framleiðslukostnað útflutningsgreinanna í samkeppni á erlendum mörkuðum.   Verðtryggingin gengur hreinlega ekki upp og því verður að forða því tjóni strax sem hún mun annars valda.

Engin áform hafa verið gefin út um að láta forsvarsmenn bankanna, fjárglæfrafjárfesta eða útrásarvíkinga bera fjárhagslega ábyrgð.  Engin yfirlýsing hefur verið gefin um að deila þurfi byrðinni milli atvinnulífs og launþega.  Engin yfirlýsing hefur verið gefin um að breyta þurfi áherslum í skattkerfinu til að jafna byrðarnar.  En það er búið að ákveða að senda heimilunum í landinu reikninginn og svo verður skoðað hvort þurfi að breyta skattkerfinu.  Fjármálaráðherra efaðist á fundinum í kvöld að hátekjuskattur, eða frekari skattar á hátekjufólk myndi skila nokkru!! 

Það verður að setja þak á verðtrygginguna strax, td við 4% efri mörk Seðlabankans, þar til verðbólga er komin niður fyrir þau mörk og þá á að afnema þetta skrapatól.  Ef við hefðum ekki haft verðtrygginguna hefðum við líklega aldrei lent í þessum hremmingum því sá doðaslaki sem í henni felst felur "svo þægilega" brestina í hagstjórninni.

Ég hvet fólk til að láta í sér heyra, þetta þarf ekki að vera svona og þarf ekki að fara svona.  Það er ekki nóg að horfa á sjónvarpið senda frá fundum og mótmælum.  Við verðum að mæta og láta í okkur heyra.


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ólafsson

Heyr heyr. Því fleiri sem tjá sig um þessi mál því betra, en ég sakna enn almennilegra rökræðna á milli hagfræðinga um gagnsemi og skaðsemi verðtryggingar. Enn eru ótrúlega margir sem telja verðtrygginguna sanngjarnt kerfi sem tryggi þeim verðmæti lífeyris þeirra seinna meir. Ég er hræddur um að þeir eigi enn eftir að vakna upp af sínum Þyrnirósarsvefni þegar sú bóla springur eins og allar aðrar bólur gera.

Verðtryggingin er vissulega búin að skila því að ónýtir lífeyrissjóðir voru byggðir upp í það sem þeir eru í dag, en nú er líka mál að linni, því við getum ekki staðið undir bólunni lengur.

Við getum ekki elst við 4% verðbólgumarkmið SÍ vegna þess að bara vegna verðtryggingarinnar getur verðbólga aldrei, aldrei farið undir 4%!

Karl Ólafsson, 25.11.2008 kl. 08:46

2 Smámynd: Friðrik Óttar Friðriksson

Takk fyrir ábendinguna Karl.  Mér ofbýður þetta mikið og er nú að skoða mögulega skaðabótaskyldu sem ríkið og lánveitendur eru að kalla yfir sig vegna verðtryggðrar skuldfærslu yfir á heimilin, sem ég get ekki séð að byggi á neinu öðru en svikum!  Niðurstaða af því mun koma fram fljótlega.

Hitt er rétt að við þurfum að fá hagfræðingana til að tala um þetta og þá ekki bara út frá sjónarmiðum lánveitenda og ríkisins, sem þurfa á veðum að halda í stöðunni.  Það að lífeyrissjóðirnir séu auð aðgengilegur lausafjárforði ríkisins er hlutverk sem fæstir gera sér grein fyrir.  Þegar maður hlustar eftir málflutningi til varnar verðtryggingunni út frá sjónarmiðum lífeyrissjóða, þá er yfirleitt verið að tala um sjóðina sjálfa en ekki lífeyrisþegana.  Hlutverk þeirra er skírt í veðmati lánshæfis til ríkisins!  Það er bara að hafa beint samband við þessa menn og fá þá til að fjalla um þessi mál.

Friðrik Óttar Friðriksson, 25.11.2008 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband