Óskiljanlegur doði ráðamanna

Undanfarið hefur margoft verið bent á að hér á landi sé svokölluð "tvíburakreppa", þe alþjóðleg lausafjárkreppa og gjaldeyriskreppa.  Gjaldeyrishlutinn á að útskýra hvers vegna hér sé eðlilegt að halda stýrivöxtum í himnahæðum, á meðan flest öll önnur hagkerfi bregðast nú við með því að lækka stýrivextina, til að forða því að einkaneyslan dragist um of saman, því það mun leiða af sér umtalsvert atvinnuleysi.  Í flest öllum löndum er það meiri háttar áhyggjuefni, en hér eru menn uppteknir af einhverju allt öðru.

Hér tala stjórnvöld út og suður, segja eitt en gera svo allt annað.  Tala atvinnulausra er nú að nálgast 9.200 manns og telur alls ekki alla þá sem stunda einyrkjastarfsemi og lítil fyrirtæki, sem eru nú verklaus.  Rauntala atvinnulausra er án efa nær 11.000 og uppsagnir fleiri þúsunda munu taka gildi í lok janúar 2009. 

Hvað gera ráðamenn?  Þeir eru uppteknir við eitthvað, en við hvað, veit það einhver?!  Heildarskuldir heimilanna voru í lok 2007 um 1.550 milljaðar en stóðu í lok sep. sl. í um 1.890 milljarða, höfðu þá hækkað um heila 340 milljarða á tæpu ári.  Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru til að verja banka- og lífeyrissjóðakerfið, en atvinnulífið og heimilin í landinu fá enga athygli.  Einkaneyslan hefur dregist mjög hratt saman, hver atvinnugreinin á fætur annarri er farin að sýna rauð ljós, sem kemur fram í síhækkandi tölum atvinnulausra og mæld verðbólga er eingöngu til komin vegna falls krónunnar.  Ef ekkert verður við gert munu heildarskuldir heimilanna hækka um 720 milljarða árin 2008 og 9.  Á sama tíma og eignarhluti heimilanna í fasteignum, sparifé og lífeyri rýrnar hækka skuldirnar nú með ógnarhraða.  Er fólki alveg sama um þessa eignaupptöku?  Hverra hagsmuna eru ASÍ menn að gæta?

"Stöndum vörð um velferðarkerfið", "eflum mannauðinn", "eflum menntun", "hlúum að atvinnulífinu", "stöndum vörð um heimilin í landinu" eru allt innistæðulausar upphrópanir stjórnmálamanna til þess eins að slá ryki í augu almennings.  Aldrei hafa ráðamenn verið jafn einhuga um að ganga varanlega í skrokk á þjóð sinni, fyrir utan VG, sem hafa gefið út yfirlýsingu um að setja eigi þak á verðtryggð lán.  Verðtryggðar skuldir eiga að tryggja lánveitendum tekjur sama hvað, sama hvað bankar og fjármálastofnanir hafa með beinum aðgerðum kynnt undir verðbólgu síðustu ára, bæði í neyslu og gengisskráningu og þannig skammtað sér auknar tekjur til útrásarinnar (aukinnar skuldasöfnunar erlendis), sem hefur nú komið allri þjóðinni í stórkostlegar fjárhagsskuldbindingar.  Í böndum verðtryggingar og fallandi fasteignamarkaðar eru heimilin í landinu eins og kýr í fjósi, mjólkuð hart, þar til þau verða leidd til slátrunar!  Okkar kjörnu fulltrúum virðist nokkuð sama um gríðarlegar eignaupptökur heimilanna og skýla sér bak við verðtrygginguna og skuldastöðu heimilanna.  

Það er pólitískt mjög óvinsælt að hækka skatta, en á móti eru notuð jákvæð orð eins og "björgunarpakki heimilanna" yfir rýmkaðar heimildir til úrvinnslu þrotamála sem mun að öllu óbreyttu fjölga mjög hratt á næstunni.  Með þessum aðgerðum eru heimili gerð ábyrg fyrir falli krónunnar og vegna verðtryggingarinnar mun skuldastaðan rýra kaupmátt skuldugra heimila varanlega og í auknum mæli á komandi árum.  Það mun draga allan mátt úr atvinnulífinu til lengri tíma og þegar fer að rofa til á ný mun gríðarleg skuldastaða knýja fram gríðarlega launakröfur sem munu kalla fram raunverulega verðbólgu.  Sú þróun mun gera hafa mjög slæm áhrif á ferðamannageirann og útflutningsgreinarnar og þar með gjaldeyrisstofnana.  Klassíska leiðin til að laga þannig galla er að fella gengið, til að laga samkeppnisstöðu okkar gagnvart öðrum hagkerfum, en er það boðlegt?

Hygling lánsfjárveitenda á kostnað skuldara mun auka enn á ójafnræðið í samfélaginu og gera almenna enduruppbyggingu mun hægari en ella.   Fá hagkerfi bjóða borgurum verðtryggð húsnæðislán og því mun einkaneysla þeirra kerfa ekki dragast saman með jafn varanlegum hætti og hér.   Eru þau meðul sem hér eru notuð til að búa til reiknanlegar stærðir í þjóðarbúskapnum kannski til varanlegs tjóns þegar kemur að enduruppbyggingu atvinnulífsins?

Ráðamenn eru aðgerðarlausir gagnvart forsvarmönnum bankanna og þeirra eignarhaldsfélaga sem keyrðu hér allt á annan endann.  Það á að skoða málið og í þessu samhengi er bent á að fólk sé saklaust þar til sekt þeirra sé sönnuð.  Undanfarið hafa sífleiri aðilar komið fram sem sýna brotalamir í kerfinu, þar sem fært en siðlaust fjármálafólk hefur leikið sér að tölum, stimplað uppskrúfaða ársreikninga í bak og fyrir og knúið þannig fram hækkanir og verðbólgu, sem heimilin eru nú látin borga fyrir.  Á meðan þetta verður skoðað ætla ráðamenn að sitja í rólegheitum við endurmat á stefnu flokkanna og vonast til að fá skilnings fólksins í landinu fyrir því að þeir þurfi vinnufrið til þess!!  Hversu langan tíma í viðbót þolir atvinnulífið þessa stýrivexti og síaukinn samdrátt einkaneyslunnar? 

Í stað þess að taka strax ákvarðanir um að frysta eigur þeirra sem eiga stærstan hlut að máli er nú valið að gefa þeim svigrúm í rúmt ár amk, fella niður skuldir þeirra og gefa þeim kost á að komast yfir eigur eiginlegra fyrirtækja á brunaverði.  Í stað þess að setja þak á verðtrygginguna til að forða varanlegri kaupmáttarrýrnun heimilanna og hruns annarra atvinnugreina, lækka stýrivexti til að efla atvinnulífið og deila fjárhagsbyrðunum í gegnum skatta, sem taka mið af greiðslugetu, þar sem skattur tekur mið af launum, á að dreifa þessum byrðum út frá skuldastöðu heimila og fyrirtækja, loka á fjármögnunarleiðir fyrirtækjanna nema á óbærilegum kjörum og yfirtaka fyrirtækin og heimilin í landinu!!  Hagfræðingar hamast nú við að útfæra leiðir til að breyta skuldum í "eigið fé" lánadrottna, í stað þess að horfa á langtímaáhrif stefnunnar og aðgerðaleysisins.  Þeir bæta taka þátt í áróðrinum og segja að hér sé vaxtastig í raun mjög lágt, einungis 0,9% og miða þá við muninn á stýrivöxtum (18%) og verðbólgu (17,1%)!!!  Stærstur hluti skulda heimilanna eru fasteigna- og námsskuldir.  Eru það virkilega pólitísk skilaboð að fólk eigi hvorki að fjárfesta í fasteignum né menntun hér á landi í framtíðinni????  Hvers vegna eru þessir grunnþættir ekki betur varðir fyrir siðlausum fjárglæframönnum, til endalausrar sjálftöku tekna og skuldadreifingar??  

Skilur einhver þennan doða ráðamanna?  Það er ljóst að ef engar breytingar verða á aðgerðum og vinnubrögðum ráðamanna mun stefna í mikinn styr milli þings og þjóðar upp úr áramótum.  Tíminn er að renna út. 


mbl.is Yfir 9 þúsund á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband