Haardera - er það einhver lausn?

Hin alþjóðlega lausafjárkreppa hófst haustið 2007 og ríkisstjórnin tók að "Haardera", þe. þagði og gerði ekki neitt.  Um síðustu jól ákváð aðilar í verslun og þjónustu samt sem áður að gefa út jákvæð skilaboð, kynda undir bjartsýni og yfirlýsingar voru gefnar út þess efnis að allt benti til að jólaverslun myndi slá öll fyrri met, aukast um 20% frá árinu 2006.  Ríkisstjórnin studdi þessar yfirlýsingar og gaf út hefðbundnar jákvkæðar yfirlýsingar, til að styggja ekki veltuna og jólaverslunin gekk eftir og sló fyrri met.  Lítið var gert úr þeim sem reyndu að vara við ástandinu.

Í janúar 2008 greindu dagblöðin frá að aldei höfðu jafn margir nýir bílar verið fluttir inn til landsins.  Visareikningar jólagleðinnar voru þó ekki komnir þegar bjartsýni bílasala hafði breyst í andhverfu sína.  Við 1.ársfjórðunguppgjör í mars féll gengið hraustlega og ríkisstjórnin brást ekki við því.  Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar voru allar á þá leið að hér væri allt í lagi.  Einnig við 2.ársfjórðungsuppgjör versnuðu horfur, en ríkisstjórnin gaf aftur út yfirlýsingar um að hér væri allt í stakasta, "tímabundnar þrengingar" en ekkert til að hafa stórar áhyggjur af.  Það mátti ekki styggja sumarveltuna og ráðamenn lögðu jafnvel land undir fót til að lýsa yfir góðu gengi innlendra fjármálastofnana á erlendum vettvangi.  Fall krónunnar við 1. og 2. ársfjórðungsuppgjör styrkti bókfærða stöðu bankanna vegna aukins gengismunar og aukin verðbólga jók einnig bókfærðar eignir bankanna í útistandandi veðskuldum í heimilum landsmanna.  Jafnvel þegar allt var komið í þrot reyndi Geir Haarde að dylja fyrir þjóðinni að hér væri allt komið í kalda kol og fjármálakerfi landsins hrunið.

Upplýsingar ríkisstjórnarinnar hafa verið beinlínis villandi og hvatt til neyslu frekar en sparnaðar í langan tíma, þvert á alla skynsemi.  Hverju sætir það?  Svo hækkar Seðlabankinn stýrivexti vegna aukinnar neyslu!  Hvers vegna tala þessir menn ekki skýrt?  Myndi það styggja um of hundtrygga styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins í verslun og þjónustu?   Hvers vegna þegja þingmenn Samfylkingarinnar? 

Skammtímasjónarmið hafa ráðið því að meiri áhersla hefur verið lögð á veltu í verslun er þróunarstarf til atvinnuuppbyggingar hér á landi, sem hefur vegið mjög að innlendri framleiðslu.  Það er ljóst að í stöðunni nú er mjög æskilegt að flytja meira út en inn til landsins og því þörf á að hvetja til samdráttar á innfluttum neysluvarningi, en jafnframt að auka á innlenda framleiðslu. 

Hér ríkir vægast sagt óvenjulegt ástand og því hafa verið sett neyðarlög á fjármálastofnanir.  Krónan hefur verið sett á flot í gríðarlegu haftaumhverfi og útflytjendum er gert skylt að færa söluandvirði seldra vara til landsins við innan ákv. tímamarka.  Greinilegt er að þörf er á ýmsum aðgerðum á næstunni til að koma atvinnulífinu til bjargar.  Með því að "Haardera" verðtrygginguna rýrnar nú kaupmáttur heimilanna hröðum skrefum, sem dregur allt blóð úr atvinnulífinu. 

Ljóst er að með óhefta verðtryggingu mun draga mjög úr einkaneyslu til langs tíma, því verðtryggðar skuldir hækka stöðugt.  Með því að halda stýrivöxtum í þessum hæðum er ekki annað að sjá að ríkisstjórnin sé mjög einuga í að fella bæið atvinnulífið og heimilin í landinu.  Þó jólaverslunin sé líflegri en búist var við er athyglivert að víða er varningur nú á háannatíma auglýstur með 30-60% afslætti.  Í 12 vikur hefur ríkisstjórnin "Haarderað" heimilin og atvinnulífið í landinu og ætlar sér á þeirri aðferðafræði að komast yfir áramótin og láta þannig bókfæra til skatts uppskrúfaða skuldastöðu heimila og fyrirtækja.

Ef ríkisstjórnin kýs áfram að "Haardera" heimilin og atvinnulífið í landinu aukast líkurnar til muna á að mótmæli og aðgerðir taki aðra stefnu og form á nýju ári.  Er von að fólkið í landinu beri minna traust til ríkisstjórnarinnar, sem kýs að valta yfir alþingi með einhliða afgreiðslu mála frá stjórnarflokkunum og hefur í 12 vikur, þrátt fyrir stöðug mótmæli, ekki komið með neinar raunhæfar varnaraðgerðir til að forða stórkostlegu atvinnuleysi, gjaldþrotum fyrirtækja og eignaupptökum heimilanna, heldur aðeins skrifað verklagsreglur hvernig fjármagnseigendur eiga að leysa fyrirtæki til sín og geti yfirtekið heimilin í landinu.


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Aðgerða er þörf;

Rökleysur ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans:

  1. 18% stýrvextir í snarpri dýfu og með gjaldeyrishöft er algerlega í mótsögn
  2. Verðtrygging með þensluvísitölumælingu á verðhækkunum - í gegn um kreppuleiðréttingu eignaverðs - færir tvöfaldan þunga af kreppunni yfir á ungar fjölskyldur - - setur fjölmenna hópa í þrot og grefur undan vilja til að taka þátt í pródúktívu atvinnulífi.  Með því skapast landflótti ofan á gjaldþrotin  - - sem dregur enn úr þjóðarframleiðslunni, seinkar hagvexti og leiðir til þess að fasteigna- og byggingastarfsemi verður ekki virk fyrr en eftir 8-10 ár.  Á meðan verða fjármagnseigendur ónæmir fyrir afleiðingum kreppunnar - - nema því aðeins að það takist að skapa ástand allsherjar hruns - með gjaldþrotum og greiðslufalli hjá Íbúðalánasjóði og bönkunum?

Benedikt Sigurðarson, 26.12.2008 kl. 23:06

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mér finnst ótrúlega lítið vera talað um hina gríðarlegu vexti sem haldið er hér uppi við aðstæður sem alls staðar annars staðar væru taldar þýða mjög lága vexti til að bjarga því sem möguleiki væri á í stöðunni. Það er eins og vextir á Íslandi og aðrar aðgerðir Seðlabankans sé einhverskonar nátttúrlögmál sem ekkert sé hægt að gera neitt við hvað sem á gengur. Fólk er svo upptekið af "glæpamönnum" í bankakerfinu að vextirnir gleymast hreinlega.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.12.2008 kl. 23:00

3 Smámynd: Friðrik Óttar Friðriksson

Takk fyrir góðar ábendingar Benedikt og Hólmfríður.  Ég sé að við erum mjög sammála.  Með aðgerðarleysi ráðamanna gagnvart verðtryggingu og háum stýrivöxtum er hreinlega verið að skapa hér mjög ógnvænlega stöðu til langrar framtíðar, ofan á allt annað sem á undan er gengið.  Í þeirri stöðu hljótum við að spyrja hvað vakir eiginlega fyrir ríkisstjórninni?  Þetta dæmi gengur alls ekki upp og kemur hvað verst niður á ungum fjölskyldum á aldrinum 25-45 ára, sem eru með ung börn og fjallháar skuldir vegna þess menntunar og þess vals að fjárfesta í húsnæði hér. 

Ef meiningin er að lækka raunverð húsnæðis er mjög einkennilegt að skuldahliðin sé blásin upp með verðtryggingunni.  Það gengur ekki og mun kalla á mjög skarpar hækkanir og verðbólgu um leið og hagvöxtur fer aftur að glæðast.

Ef meiningin er að gera bankana "söluvænlegri" þar sem eignastaða í formi skulda verður "ásættanlegri" er ríkisstjórnin að hygla fjármálamönnum og reka rýting í bak heimilanna.

Svo mætti lengi telja.  Með því að bregðast ekki við verðtryggingunni nú er ríkisstjórnin að auka enn á misskiptingu í samfélaginu þar sem fjármagnseigendur munu geta keypt upp eignir og fyrirtæki á brunaútsölu, en heimilin verða bundin skuldafjötrum til langrar framtíðar.  Þetta er óborganleg skammsýni og óskiljanlegt að Samfylkingarvængur ríkisstjórnarinnar skuli ekki sjá sóma sinn í skýrari afstöðu.  Langvarandi kaupmáttarrýrnun mun einnig lama alla enduruppbyggingu og þá er ekki raunhæfur kostur að auka enn á skuldsetningu með lengingu eða aukningu lána. 

Á 2 fyrstu vikum janúar munu atvinnuveitendur þurfa að taka ákvörðun, hvort þeir geti boðið einhverju af þeim sem voru á uppsagnarfresti áframhaldandi vinnu.  Tími ráðamanna er runninn út, nú verða þeir að leggja spilin á borðið, því annars er hættan gríðarleg að mikill styr verði milli þings og þjóðar.  Fólk mun ekki sætta sig við að aðgerðarleysi setji tugþúsundir fjölskyldna á vonarvöl og geri að skuldaþrælum örfárra dyggra stuðningsaðila ráðandi stjórnmálaflokka. 

Friðrik Óttar Friðriksson, 31.12.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband