Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Haardera - er það einhver lausn?

Hin alþjóðlega lausafjárkreppa hófst haustið 2007 og ríkisstjórnin tók að "Haardera", þe. þagði og gerði ekki neitt.  Um síðustu jól ákváð aðilar í verslun og þjónustu samt sem áður að gefa út jákvæð skilaboð, kynda undir bjartsýni og yfirlýsingar voru gefnar út þess efnis að allt benti til að jólaverslun myndi slá öll fyrri met, aukast um 20% frá árinu 2006.  Ríkisstjórnin studdi þessar yfirlýsingar og gaf út hefðbundnar jákvkæðar yfirlýsingar, til að styggja ekki veltuna og jólaverslunin gekk eftir og sló fyrri met.  Lítið var gert úr þeim sem reyndu að vara við ástandinu.

Í janúar 2008 greindu dagblöðin frá að aldei höfðu jafn margir nýir bílar verið fluttir inn til landsins.  Visareikningar jólagleðinnar voru þó ekki komnir þegar bjartsýni bílasala hafði breyst í andhverfu sína.  Við 1.ársfjórðunguppgjör í mars féll gengið hraustlega og ríkisstjórnin brást ekki við því.  Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar voru allar á þá leið að hér væri allt í lagi.  Einnig við 2.ársfjórðungsuppgjör versnuðu horfur, en ríkisstjórnin gaf aftur út yfirlýsingar um að hér væri allt í stakasta, "tímabundnar þrengingar" en ekkert til að hafa stórar áhyggjur af.  Það mátti ekki styggja sumarveltuna og ráðamenn lögðu jafnvel land undir fót til að lýsa yfir góðu gengi innlendra fjármálastofnana á erlendum vettvangi.  Fall krónunnar við 1. og 2. ársfjórðungsuppgjör styrkti bókfærða stöðu bankanna vegna aukins gengismunar og aukin verðbólga jók einnig bókfærðar eignir bankanna í útistandandi veðskuldum í heimilum landsmanna.  Jafnvel þegar allt var komið í þrot reyndi Geir Haarde að dylja fyrir þjóðinni að hér væri allt komið í kalda kol og fjármálakerfi landsins hrunið.

Upplýsingar ríkisstjórnarinnar hafa verið beinlínis villandi og hvatt til neyslu frekar en sparnaðar í langan tíma, þvert á alla skynsemi.  Hverju sætir það?  Svo hækkar Seðlabankinn stýrivexti vegna aukinnar neyslu!  Hvers vegna tala þessir menn ekki skýrt?  Myndi það styggja um of hundtrygga styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins í verslun og þjónustu?   Hvers vegna þegja þingmenn Samfylkingarinnar? 

Skammtímasjónarmið hafa ráðið því að meiri áhersla hefur verið lögð á veltu í verslun er þróunarstarf til atvinnuuppbyggingar hér á landi, sem hefur vegið mjög að innlendri framleiðslu.  Það er ljóst að í stöðunni nú er mjög æskilegt að flytja meira út en inn til landsins og því þörf á að hvetja til samdráttar á innfluttum neysluvarningi, en jafnframt að auka á innlenda framleiðslu. 

Hér ríkir vægast sagt óvenjulegt ástand og því hafa verið sett neyðarlög á fjármálastofnanir.  Krónan hefur verið sett á flot í gríðarlegu haftaumhverfi og útflytjendum er gert skylt að færa söluandvirði seldra vara til landsins við innan ákv. tímamarka.  Greinilegt er að þörf er á ýmsum aðgerðum á næstunni til að koma atvinnulífinu til bjargar.  Með því að "Haardera" verðtrygginguna rýrnar nú kaupmáttur heimilanna hröðum skrefum, sem dregur allt blóð úr atvinnulífinu. 

Ljóst er að með óhefta verðtryggingu mun draga mjög úr einkaneyslu til langs tíma, því verðtryggðar skuldir hækka stöðugt.  Með því að halda stýrivöxtum í þessum hæðum er ekki annað að sjá að ríkisstjórnin sé mjög einuga í að fella bæið atvinnulífið og heimilin í landinu.  Þó jólaverslunin sé líflegri en búist var við er athyglivert að víða er varningur nú á háannatíma auglýstur með 30-60% afslætti.  Í 12 vikur hefur ríkisstjórnin "Haarderað" heimilin og atvinnulífið í landinu og ætlar sér á þeirri aðferðafræði að komast yfir áramótin og láta þannig bókfæra til skatts uppskrúfaða skuldastöðu heimila og fyrirtækja.

Ef ríkisstjórnin kýs áfram að "Haardera" heimilin og atvinnulífið í landinu aukast líkurnar til muna á að mótmæli og aðgerðir taki aðra stefnu og form á nýju ári.  Er von að fólkið í landinu beri minna traust til ríkisstjórnarinnar, sem kýs að valta yfir alþingi með einhliða afgreiðslu mála frá stjórnarflokkunum og hefur í 12 vikur, þrátt fyrir stöðug mótmæli, ekki komið með neinar raunhæfar varnaraðgerðir til að forða stórkostlegu atvinnuleysi, gjaldþrotum fyrirtækja og eignaupptökum heimilanna, heldur aðeins skrifað verklagsreglur hvernig fjármagnseigendur eiga að leysa fyrirtæki til sín og geti yfirtekið heimilin í landinu.


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúum vörn í sókn - veljum innlent

Meðan flest kerfi hérlendis hafa hrunið undanfarið og traust til stjórnvalda, fjármálastofnana, löggjafa og fjölmiðla hefur beðið skipbrot eru nokkrir þættir sem standa bjargfastir eins og vitar á bjargbrúninni og varða leiðina úr ógöngunum.  Innlend menning, hönnun, bókmenntir, tónlist, handverk og iðnaður eru afsprengi þrautsegju, verkkunnáttu, mannauðs og framtakssemi landsmanna.  Þessa þætti ættum við að styrkja og hlúa að, nú þegar við veljum glaðninga til vina og vandamanna um hátíðarnar.

Í þrengingum sem gengu yfir norðurlandaþjóðirnar í kringum 1990 lá svar þeirra allra að miklu leiti í að fækka erlendum vöruflokkum, framleiða sjálfar það sem forsvaranlegt var að framleiða af matvælum og nauðsynjavöru.  Auk þess var lögð mikil áhersla á styrkja innlenda framleiðslu og menningu á öllum sviðum.  Matargerðarlistin, tónlist, kvikmyndir, bókmenntir, handverk og iðnaður eru allt mjög mikilvægir þættir í endurreisn norðurlandanna úr sínum þrengingum.  Norrænar kvikmyndir og sjónvarpsefni sem við höfum haft á dagsskrá undanfarin ár eru talandi dæmi um góðan árangur þeirra og fléttast inn í fleiri þætti, eins og uppbyggingu í ferðamálum.  Allar norðurlandaþjóðirnar lögðu áherslu á uppbyggingu innlendrar ferðaþjónustu og tölurnar þaðan tala skírt.  Þar er hlutfall útseldra gistinátta um 65-80% til eigin landsmanna, en hér er það hlutfall einungis í um 30%.  Á meðan við eyddum um 220 milljörðum á ferðalögum erlendis 2007 voru tekjur okkar af erlendum ferðamönnum um 40 milljarðar!

Við þurfum að hafa hugfast þegar við veljum hvort við aukum á gjaldeyrisútflutning eða styðjum innlenda framleiðslu og þar með atvinnustig landsins.

Ég hvet alla að taka afstöðu með atvinnunni og menningunni í landinu og velja innlendan glaðning í jólapakkana.  Úrvalið hefur alderi verið jafn fjölbreytt.  Okkar val skiptir öllu máli.  


Óskiljanlegur doði ráðamanna

Undanfarið hefur margoft verið bent á að hér á landi sé svokölluð "tvíburakreppa", þe alþjóðleg lausafjárkreppa og gjaldeyriskreppa.  Gjaldeyrishlutinn á að útskýra hvers vegna hér sé eðlilegt að halda stýrivöxtum í himnahæðum, á meðan flest öll önnur hagkerfi bregðast nú við með því að lækka stýrivextina, til að forða því að einkaneyslan dragist um of saman, því það mun leiða af sér umtalsvert atvinnuleysi.  Í flest öllum löndum er það meiri háttar áhyggjuefni, en hér eru menn uppteknir af einhverju allt öðru.

Hér tala stjórnvöld út og suður, segja eitt en gera svo allt annað.  Tala atvinnulausra er nú að nálgast 9.200 manns og telur alls ekki alla þá sem stunda einyrkjastarfsemi og lítil fyrirtæki, sem eru nú verklaus.  Rauntala atvinnulausra er án efa nær 11.000 og uppsagnir fleiri þúsunda munu taka gildi í lok janúar 2009. 

Hvað gera ráðamenn?  Þeir eru uppteknir við eitthvað, en við hvað, veit það einhver?!  Heildarskuldir heimilanna voru í lok 2007 um 1.550 milljaðar en stóðu í lok sep. sl. í um 1.890 milljarða, höfðu þá hækkað um heila 340 milljarða á tæpu ári.  Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru til að verja banka- og lífeyrissjóðakerfið, en atvinnulífið og heimilin í landinu fá enga athygli.  Einkaneyslan hefur dregist mjög hratt saman, hver atvinnugreinin á fætur annarri er farin að sýna rauð ljós, sem kemur fram í síhækkandi tölum atvinnulausra og mæld verðbólga er eingöngu til komin vegna falls krónunnar.  Ef ekkert verður við gert munu heildarskuldir heimilanna hækka um 720 milljarða árin 2008 og 9.  Á sama tíma og eignarhluti heimilanna í fasteignum, sparifé og lífeyri rýrnar hækka skuldirnar nú með ógnarhraða.  Er fólki alveg sama um þessa eignaupptöku?  Hverra hagsmuna eru ASÍ menn að gæta?

"Stöndum vörð um velferðarkerfið", "eflum mannauðinn", "eflum menntun", "hlúum að atvinnulífinu", "stöndum vörð um heimilin í landinu" eru allt innistæðulausar upphrópanir stjórnmálamanna til þess eins að slá ryki í augu almennings.  Aldrei hafa ráðamenn verið jafn einhuga um að ganga varanlega í skrokk á þjóð sinni, fyrir utan VG, sem hafa gefið út yfirlýsingu um að setja eigi þak á verðtryggð lán.  Verðtryggðar skuldir eiga að tryggja lánveitendum tekjur sama hvað, sama hvað bankar og fjármálastofnanir hafa með beinum aðgerðum kynnt undir verðbólgu síðustu ára, bæði í neyslu og gengisskráningu og þannig skammtað sér auknar tekjur til útrásarinnar (aukinnar skuldasöfnunar erlendis), sem hefur nú komið allri þjóðinni í stórkostlegar fjárhagsskuldbindingar.  Í böndum verðtryggingar og fallandi fasteignamarkaðar eru heimilin í landinu eins og kýr í fjósi, mjólkuð hart, þar til þau verða leidd til slátrunar!  Okkar kjörnu fulltrúum virðist nokkuð sama um gríðarlegar eignaupptökur heimilanna og skýla sér bak við verðtrygginguna og skuldastöðu heimilanna.  

Það er pólitískt mjög óvinsælt að hækka skatta, en á móti eru notuð jákvæð orð eins og "björgunarpakki heimilanna" yfir rýmkaðar heimildir til úrvinnslu þrotamála sem mun að öllu óbreyttu fjölga mjög hratt á næstunni.  Með þessum aðgerðum eru heimili gerð ábyrg fyrir falli krónunnar og vegna verðtryggingarinnar mun skuldastaðan rýra kaupmátt skuldugra heimila varanlega og í auknum mæli á komandi árum.  Það mun draga allan mátt úr atvinnulífinu til lengri tíma og þegar fer að rofa til á ný mun gríðarleg skuldastaða knýja fram gríðarlega launakröfur sem munu kalla fram raunverulega verðbólgu.  Sú þróun mun gera hafa mjög slæm áhrif á ferðamannageirann og útflutningsgreinarnar og þar með gjaldeyrisstofnana.  Klassíska leiðin til að laga þannig galla er að fella gengið, til að laga samkeppnisstöðu okkar gagnvart öðrum hagkerfum, en er það boðlegt?

Hygling lánsfjárveitenda á kostnað skuldara mun auka enn á ójafnræðið í samfélaginu og gera almenna enduruppbyggingu mun hægari en ella.   Fá hagkerfi bjóða borgurum verðtryggð húsnæðislán og því mun einkaneysla þeirra kerfa ekki dragast saman með jafn varanlegum hætti og hér.   Eru þau meðul sem hér eru notuð til að búa til reiknanlegar stærðir í þjóðarbúskapnum kannski til varanlegs tjóns þegar kemur að enduruppbyggingu atvinnulífsins?

Ráðamenn eru aðgerðarlausir gagnvart forsvarmönnum bankanna og þeirra eignarhaldsfélaga sem keyrðu hér allt á annan endann.  Það á að skoða málið og í þessu samhengi er bent á að fólk sé saklaust þar til sekt þeirra sé sönnuð.  Undanfarið hafa sífleiri aðilar komið fram sem sýna brotalamir í kerfinu, þar sem fært en siðlaust fjármálafólk hefur leikið sér að tölum, stimplað uppskrúfaða ársreikninga í bak og fyrir og knúið þannig fram hækkanir og verðbólgu, sem heimilin eru nú látin borga fyrir.  Á meðan þetta verður skoðað ætla ráðamenn að sitja í rólegheitum við endurmat á stefnu flokkanna og vonast til að fá skilnings fólksins í landinu fyrir því að þeir þurfi vinnufrið til þess!!  Hversu langan tíma í viðbót þolir atvinnulífið þessa stýrivexti og síaukinn samdrátt einkaneyslunnar? 

Í stað þess að taka strax ákvarðanir um að frysta eigur þeirra sem eiga stærstan hlut að máli er nú valið að gefa þeim svigrúm í rúmt ár amk, fella niður skuldir þeirra og gefa þeim kost á að komast yfir eigur eiginlegra fyrirtækja á brunaverði.  Í stað þess að setja þak á verðtrygginguna til að forða varanlegri kaupmáttarrýrnun heimilanna og hruns annarra atvinnugreina, lækka stýrivexti til að efla atvinnulífið og deila fjárhagsbyrðunum í gegnum skatta, sem taka mið af greiðslugetu, þar sem skattur tekur mið af launum, á að dreifa þessum byrðum út frá skuldastöðu heimila og fyrirtækja, loka á fjármögnunarleiðir fyrirtækjanna nema á óbærilegum kjörum og yfirtaka fyrirtækin og heimilin í landinu!!  Hagfræðingar hamast nú við að útfæra leiðir til að breyta skuldum í "eigið fé" lánadrottna, í stað þess að horfa á langtímaáhrif stefnunnar og aðgerðaleysisins.  Þeir bæta taka þátt í áróðrinum og segja að hér sé vaxtastig í raun mjög lágt, einungis 0,9% og miða þá við muninn á stýrivöxtum (18%) og verðbólgu (17,1%)!!!  Stærstur hluti skulda heimilanna eru fasteigna- og námsskuldir.  Eru það virkilega pólitísk skilaboð að fólk eigi hvorki að fjárfesta í fasteignum né menntun hér á landi í framtíðinni????  Hvers vegna eru þessir grunnþættir ekki betur varðir fyrir siðlausum fjárglæframönnum, til endalausrar sjálftöku tekna og skuldadreifingar??  

Skilur einhver þennan doða ráðamanna?  Það er ljóst að ef engar breytingar verða á aðgerðum og vinnubrögðum ráðamanna mun stefna í mikinn styr milli þings og þjóðar upp úr áramótum.  Tíminn er að renna út. 


mbl.is Yfir 9 þúsund á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífsnauðsyn fyrir atvinnulífið og heimilin

Það er ánægjulegt að sjá loks hagfræðinga eins og Gylfa Magnússon blanda sér í umræðuna um hag og horfur atvinnulífsins og heimilanna í landinu.  Umræðan af þeirra hálfu hefur verið sorglega mikið út frá sjónarhóli ríkisins og bankanna, rétt eins og þeir ætli sér allir stól seðlabankastjóra.  Það væri áhugavert að fá hagfræðingana til að fjalla meira um afleiðingar þess að gera ekki neitt varðandi verðtrygginguna.  Hvaða áhrif hefur það td á einkaneysluna, kaupmáttinn, verðmætamyndun í fasteignum, vöxt lífeyrissjóða og tekjur ríkisins ef verðtryggð lán heimilanna blása út um rúm 40% á árunum 2008-9?   Þegar almenningur finnur fyrir svo gríðarlegri óbilgirni og tillitsleysi stjórnvalda er ekki von að sitjandi ríkisstjórn hríðfellur í áliti og hættan á að fólk gefist upp gagnvart fjárhagsstöðu sinni verður veruleg.  Hvað mun það kosta að missa 10% þjóðarinnar úr landi og hvaða áhrif mun það hafa á fasteignamarkaðinn, atvinnulífið, lífeyrissjóðina, bankana og tekjur ríkisins?

Hitt er borðleggjandi að vegna verðtryggingarinnar verða þær skuldahækkanir sem nú bætast við skuldir heimilanna ekki skilgreindar til skamms tíma.  Þær draga nú skarpt úr kaupmættinum, en svo rólegar en þó örugglega út allan afborgunartímann.  Á árunum 2008-9 munu heildarskuldir heimilanna hækka um 500 milljarða ef ekkert verður frekar að gert!  Áætlaðar skattahækkanir 2009 eru metnar á 40 milljarða og björgunaraðgerðir bankanna 1063 milljarðar til samanburðar.  Kaupmáttur mun því fara mjög hratt minnkandi, sem mun draga allan mátt úr atvinnulífinu, nema fjármálageiranum, sem eiga að auka "eigur" sínar um 500 milljarða!!!  Er eitthvað eðlilegt við það? 

Atvinnulífið og heimilin hafa ekki efni á verðtrygginunni óbeislaðri.  Ef ráðamenn ætla ekki að kalla yfir þjóðina langtíma doða í atvinnulífinu verður að setja þak á verðtrygginguna strax.  Vegna beinna aðgerða bankanna í að "hagræða sinni stöðu" og til samræmis við boðaðar heimildir fyrirtækja til að færa bókhald sitt frá áramótum 2008 ætti að setja þak á verðtyggingð lán heimilanna við 4% frá áramótum 2008, þar til verðbólga er komin niður fyrir þau mörk.  Þá á að afnema verðtrygginguna.

Ef þetta dugar ekki til, á í verstu tilfellum að fella niður skuldir að hluta, að greiðslugetu lántakenda, sem miðist við greiðslumat launa síðustu 12 mánaða.

Ég mynni á að eigið fé í fasteignum er líka lífeyrir og sparnaður, sem á að standa vörð um rétt eins og inneignir í bönkum og lífeyrissjóðum.  Húsnæði er ein af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og því ber ráðamönnum að verja eignaupptökur með öllum tiltækum ráðum.   Það vekur furðu mína að ASI og SA skuli ekki ganga fram af meiri þunga til að verja hag sinna skjólstæðinga með beinum tilmælum um aðgerðir gegn verðtryggðum skuldum heimilanna.  Svo mikill munur á kaupmætti og skuldasöfnun getur ekki leitt til annars en gríðarlegra launakrafna að hagsveiflunni lokinni, sem mun aftur skrúfa upp launakostnað innlendra fyrirtækja og þannig gera samkeppnissöðu þeirra gagnvart samkeppnislöndunum mun lakari ef ekki ómögulega, sem mun leiða til enn frekari gengisfellinga.  Höfum við efni á slíkum aðgerðum ofan á allt annað?

Beint samhengi er á milli afkomu fyrirtækjanna og kaupmáttar heimilanna í mjög mörgum tilfellum og því aukast líkur á skemmri harðindum hjá þjóðinni ef brugðist er strax við eignatilfærslum í gegnum verðtrygginguna.  Hvað varðar mannvirkjageirann þá þorir fólk nú ekki að fara í neinar breytingar eða nauðsynlegt viðhald, bæði vegna þess botnleysis skuldastöðunnar sem felst í verðtryggingunni og einnig þess að fólk veit hreinlega ekki hvort það haldi húsnæðinu sínu!

Það eru gríðarlega slæm pólitísk skilaboð að gera þá sem velja að fjárfesta í húsnæði og menntun meira fjárhagslega ábyrga fyrir óförunum en efni standa til.  Afleiðngarnar munu einnig verða varanlegar út afborgunartíma lánanna.  Því verður að bregðast við strax.


mbl.is Frysting jafnvel óhjákvæmileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband