Verðtryggingin og lífeyrissjóðirnir

Nú virðist veturinn vera að skella á í efnahagslífinu.  Á meðan að tekjuhlið heimilanna í landinu fer almennt rýrnandi, sér verðtryggingin til að skuldahliðin þenst stanslaust út.  Nýlega kom fram að heimilin í landinu skulda 1750 milljarða í húsnæðislán og 75% þeirra eru verðtryggð.  Fá ráð virðast í boði meðan stjórnvöld boða ekkert annað en að taka vel á móti þeim sem lenda í hremmingum.  Miðað við árferðið stefnir þó því miður í að þeim sem þangað rata, muni fjölga mjög á næstunni, þökk sé verðtryggingunni.   Verðtryggðar skuldir heimilanna munu því aukast um ca 265 milljarða vegna vaxta og verðbóta á árinu.

Verðtryggingin er eitt af því sem mér er mikið í mun að fá aflétt.  Ráðamenn taka þeim hugmyndum fálega og bera fyrir sig að á henni hangi ávöxtunartrygging lífeyrissjóðanna.  Því sé það glapræði að afnema hana.  Engu að síður höfum við upplifað í þó nokkur skipti á undanförnum árum að lífeyrissjóðirnir hafa boðað niðurskurð á lífeyrisgreiðslum, nú síðast þegar bankarnir fóru í þrot.  Hvar er þá verðtryggingin fyrir lífeyrisþeganna?

Það er engin ný sannindi að bankarnir hafa notað verðtryggðar húsnæðisskuldir sem veðstól til útrásarinnar, því eigið fé áttu þeir svo til ekkert.  Í því sjónarmiði var þeim mikill akkur í að gera sem mest úr þeim veðstól og þegar þeir á annað borð voru búnir að taka sér stöðu á húsnæðismarkaði var næsta skref að blása út veðstólinn og það gerðu þeir með öllum tiltækum ráðum.  Bankarnir sóttu sér líka veðstóla í lífeyrissjóðna með því að fara inn á lífeyrismarkaðinn sem vörsluaðilar viðbótarlífeyrissparnaðar og þegar þeir fengu breytt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna þannig að þeim var heimilað að fjárfesta í meiri mæli í innlendri fjármálastarfsemi.  Við hlutafjárútboð komu lífeyrissjóðirnir inn sem kjölfestufjárfestar og þann veðstól nýttu bankarnir svo sannarlega í útrásinni.   Þegar í lausafjárkrísuna var komið fyrir um 14 mánuðum hættu þeir að lána út á innanlandsmarkað og sátu á sínu lausafé sjálfir.  Þegar að stöðutökum kom felldu þeir svo gengið til að fá hærri eignastöðu erlendis, sem einnig kynnti hraustlega undir verðbólgunni og þannig innlendum veðstól bankanna.  Við hækkandi stýrivexti hvöttu þeir svo til sparnaðar og fjárfestinga í sjóðum, sem frægt er orðið.  Tilgangurinn var að auka framvísanlegt lausafé í formi innlána.  Í þessu ástandi kom skýrt fram að bankarnir höfðu beinan hag af því að kynda undir verðbólguna og stærð þeirra gerði sífelldar stýrivaxtahækkanir seðlabankans bitlausar.  Bankarnir notuðu verðtrygginguna beint sér til framdráttar í stöðutökum erlendra matsfyrirtækja.  Því miður er ekki annað að sjá en hagsmunir bankanna og ríkissjóðs hafi farið að mestu mjög vel saman, því á þessum tíma þandist ríkissjóður út á meðan að heimilin, fyrirtækin og sveitarfélögin urðu sífellt skuldugri.

Það er þó alveg ljóst að stjórnvöld sköpuðu þetta umhverfi fyrir bankana, studdu þá til vaxtar og greiddu götu þeirra bæði hérlendis og erlendis.

Nú þegar ríkið er að reyna að sjá til lands í rústabjörguninni eftir fall bankanna hefur hlutverk lífeyrissjóðanna tekið á sig aðra mynd en flestir þekkja, sem varaskeifa ríkissjóðs.  Það vakti furðu mína að heyra tillögur IMF að einn af kostum ríkissjóðs væri að yfirtaka lífeyrissjóðina og undir það sjónarmið hafa sumir hagfræðingar einnig tekið.  Getur verið að verðtryggingin hangi á lánshæfismati ríkissjóðs og lánum seðlabankans?  Getur verið að lífeyrissjóðirnir séu virkilega varasjóður ríkisins?

Ég spyr hvers vegna getum við ekki afnumið þetta skelfilega fyrirbæri, verðtrygginguna, sem er að gera út af við heimilin í landinu?  Sjá menn virkilega ekki að nærri öll sveitarfélögin, flest stærri fyrirtækin og sífellt fleiri heimili hafna innlenda bankakerfinu, hafa hreinlega ekki efni á því og leita því í erlend lán, vegna verðtryggingarinnar?   

Með sama hætti og bankarnir áður notar nú ríkið heimilin í landinu sem veðstól og ljóst er að þörfin fyrir veð er mikil í þessu ástandi.  Því er ljóst að því stærri sem veðstóllinn er því hærri lán getur ríkið tekið.  Mér þykir þó alls ólíðandi að heimilunum í landinu skuli endalaust sendur reikningurinn í gegnum verðtryggð húsnæðislán og fyrir neðan allar hellur að lífeyrissjóðirnir séu skilgreindir sem varaskeifa ríkissjóðs.  Lífeyrissjóðirnir hafa rýrnað þó nokkuð við fall bankanna og af umræðunni að dæma um raunhlutverk sjóðanna má velta fyrir sér hvort þeir verði virkilega til staðar fyrir okkur þegar við hyggjumst nota þá til lífeyristöku.

Margt hefur boðið skipbrot í þessum efnahagsumhleypingum.  Trú almennings á stjórnmálamenn fer mjög ört dvínandi og trúin á hæfileika þeirra til að stýra efnahagsmálunum er svo til horfin.  Sí háværari krafa um upptöku evru er ekkert annað en rauða spjaldið á efnahagstjórnina, verðtrygginguna og endalaust hringl á skráningu gjaldmiðilsins.  Þó það sé dýrt, virðist þjóðinni það mikið misboðið að krafan á upptöku evru hækkar stöðugt. 

Ef verðtryggingin verður ekki afnumin strax bíður okkar ekkert annað en gengisfelling beint í þau sár sem nú skapast, því í verðtryggingunni er gríðarlegur verðbólguhvati.  Ef verðtryggingin verður ekki afnumin strax munu skuldir heimila og fyrirtækja hlaðast upp og hamla þeirri innspýtingu sem hagkerfið þarf á að halda til uppbyggingar.  Ef beðið er of lengi verða afleiðngarnar sennilega stjórnlaust hrun efnahagslífsins næstu árin.  Fordæmi Norðmanna, Svía og Finna hljóða upp á 5 ára hruntíma.

Hvað getum við almennir borgarar þá gert?  Ég kýs að láta skoðun mína í ljós og hef fylgt henni eftir með því að hætta að greiða í viðbótarlífeyrissjóð.  Féð ætla ég að nota frekar til að greiða inn á höfiðstólinn á verðtryggðu húsnæðislánunum mínum.  Með þeim hætti get ég greitt höfuðstólinn niður 6 sinnum hraðar enn ella.  

Ég tel þó afar brýnt að við tökum upp alvarlegar umræður um afnám verðtryggingarinnar sem allra fyrst, áður en hún helfrystir heimilin og fyrirtækin í landinu. 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tek undir með þér að afnema verðtrygginguna, því hún er að drepa bæði heimilin og fyrirtækin.

Annars er það magnað að lífeyrissjóðirnir skyldu fara út í hlutabréfabrask og lánveitingar á sínum tíma. Er það hlutverk þeirra?

Theódór Norðkvist, 1.11.2008 kl. 01:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband