Aftökuskipun Seðlabanka og ríkisstjórnar

Með einstrengingslegum og svívirðilega háum stýrivöxtum Seðlabanka er fjármögnun fyrirtækja mjög þröngur stakkur sniðinn.  Nú bætast við tilmæli ríkisins um að dregið verði úr öllum opinberum framkvæmdum og hætt við allar framkvæmdir sem ekki hefur verið byrjað á, samtímis sem ekkert er gert til að hindra botnlausa eignatilfærslu (skuldatilfærslu), þar sem gerfiverðbólga er látin blása út verðtryggð lán heimilanna í landinu.  Með þessu eru yfirvöld að gefa út aftökuskipun á heimilin og fyrirtækin í landinu. 

Við þessi stýrivaxtakjör, lánsfjárþurrð og óbeislaða verðtryggingu eru fyrirtækjum og heimilum allar bjargir bannaðar.   Skilaboðin eru skýr, allir eiga að draga saman.  Helfrost hefur gagntekið mannvirkjageirann á öllum stigum.  Fólk þorir ekki einu sinni að skipta um bréfalúgu eða að endurnýja baðið hjá sér, hvað þá að fara í stærri endurnýjunar- og viðhaldsverkefni.  Enginn húsbyggjandi getur byggt við þetta gengi eða vaxtakjör, ekki heldur hið opinbera og því stefnir í að 6-8.000 manns tengt þessum greinum muni snúa kröftum sínum í aðrar áttir innan mjög skamms.  Það hefur áhrif á alla aðra veltu og þar sem tíminn er svo skammur munu áhrifin verða umtalsverð um allt samfélag, sem leiðir til mikilla þrenginga hjá sveitarfélögunum. 

Frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál á vegum félagsmálaráðuneytis gerir ekkert til að hindra það að fólk lendi í erfiðleikum.  Bráðamóttaka Jóhönnu Sigurðardóttir beinist að því að skýra verklagsreglur og úrræði til að lengja aðeins í snörunni.  Skuldirnar eru að verða óbærilegar en með þessum aðgerðum á að veita húsnæðiseigendum næringu í æð, svo þeir tóri, rétt til að standa undir skráðu eignarsafni lífeyrissjóðanna og annarra lánveitenda.  Rýrni eignarsafn banka og lífeyrissjóða, eða taki skuldir heimilanna að falla, rýrnar lánshæfismat ríkissjóðs til muna, þannig að bæði kjör og lánsupphæðir minnka.  Það er að verða óþolandi hvað hagsmunir heimilanna í landinu eru í raun lítils metnir í þessu samhengi.  Frysting lána í þessum tillögum þýðir ekkert annað en að stinga hausnum í sandinn, því á meðan að ekkert er greitt vex skuldasafnið hröðum skrefum, þó í frosti sé.  Hugmyndir hagfræðinga um skuldbreytingu lánadrottna í eignarhluta eru bara útfærsla á yfirtöku heimilanna.  Ég tel þessar aðgerðir ekki til björgunar heimilanna, heldur ríkisins og lánadrottna. 

Björgunarhugmyndir hafa þó verið af mismunandi toga:

  • Draga úr vexti skulda verðtryggðra húsnæðislána með því að setja vaxtaþak á verðbólgu, td við 4% efri mörk verðbólgumarkmiða Seðlabanka, frá ákveðnum tímapunkti, sbr. ma hugmyndir Ingólfs H. Ingólfssonar og Sigrúnar Elsu Smáradóttur.
  • Frysta lán og afborganir í ákveðinn tíma, án þess að höfuðstóll lána hækki.
  • Fella niður skuldir heimilanna að hluta út frá gegnsæmum jafnræðisreglum, einnig nefnt "greiðsluaðlögun", með svipuðum hætti og skuldir margra fyrirtækja eru nú afskrifaðar að hluta, þannig að lántaki geti greitt af lánum, sbr. ma. grein Páls Magnússonar.

Þrátt fyrir þessi tilmæli ríkisins eru margir í sóknarhug og neita að láta færa sig á bráðamóttöku Jóhönnu.  Fyrirtæki td í verslun og þjónustu hafa bent á að afar hagstætt sé fyrir erlenda aðila að koma hingað til að versla og "njóta lífsins".  Flott hjá þeim, þetta ætti að krækja í gjaldeyri sem við þurfum svo sárlega á að halda núna.  En hvaða glóra er í því að þessi jákvæðu áhrif á verslun og þjónustu stuðli að enn frekari hækkun húsnæðisskuldanna hjá heimilunum í landinu??

Á meðan ríkisstjórnin hefur boðað aftökur heimila og fyrirtækja vex sá hópur sem neitar að láta teyma sig í bráðamóttöku Jóhönnu, þó hún hafi gert allt sem í sínu valdi stendur til að taka vel á móti fólki.  Það er nokkuð ljóst að á meðan afstaða stjórnvalda er með þessum hætti mun spenna í þjóðlífinu fara hratt vaxandi.  Allt kapp á að leggja í að heimilin í landinu og fyrirtækin verði ekki gjaldþrota.  Ef svo fer munu allir tapa og samfélagið bíða gríðarlegt og jafnvel óbætanlegt tjón.

Það er ljóst að lykill að öllum lausnum er skýr afstaða í gengismálum, en ég vara stórlega við því að hlúa ekki að heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.  Ríkisstjórnin þarf að koma fram með heildstæð úrræði strax og gera fyrirtækjum og heimilum kleift að spyrna við fótum, sér til varnar og þar með sveitarfélögum og ríkinu. 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband