Athyglisverðar hagtölur

Það tala allir um milljarða eins og þeir viti hvað sú tala í raun þýðir.  Þó flestir eigi erfitt að átta sig á stærðinni er samanburður mismunandi hluta kannski bestur til þess fallinn að varpa ljósi á stærðir.

Fyrir skömmu voru skuldir heimilanna metnar um 1750 milljarðar og þar af voru um 75% verðtryggð lán.  Þjóðarframleiðslan var árið 2007 um 1280 milljarðar, en mikið af hagstærðum í umræðunni eru miðaðar við þjóðarframleiðsluna, þá sem hlutfall eða margfeldi hennar.

Á fundi sl mánudag kom fram á fundi FSSA og AÍ að sveitarfélögin eru í miklum vanda vegna ástandsins og til að geta haldið uppi óbreyttri velferðarþjónustu, þó með verulegum samdrætti á ýmsum sviðum þyrftu öll sveitarfélögin í landinu 30 milljarða viðbótartekjur, eun útgjöld þeirra námu í heild 177,2 milljörðum árið 2007.

Seðlabankinn gaf nýlega út að vegna efnahagsþrenginga mætti búast við 82 milljarða minni tekjum 2009 en 2008 og að á árinu 2009 mætti búast við um 140-150 milljarða halla á ríkissjóði.

Ingibjörg Sólrún telur sig góða, tók upp sparnaðarhnífinn og skar utanríkisþjónustuna niður um 2,3milljarða, en öll utanríkisþjónustan 2009 mun kosta ríkissjóð um 9 milljarða.

Ef ekkert er gert til að stemma stigum við óheftri útþenslu skulda heimilanna í landinu vegna verðtryggðra lána og að vextir með verðbólgu verði að jafnaði 20% mun skuldastaða heimilanna í landinu þyngjast um 262 milljarða á einu ári!!  Þetta er um 1,5* rekstrarkostnaður allra sveitarfélaga á landinu, nærri 3* stærð samdráttar þjóðartekna og nærri 30* allur áætlaður kostnaður utanríkisþjónustunnar 2009.

Húsnæðiseigendur (þe. skuldarar) í landinu eiga EKKI að taka á sig öll hagstjórnar mistök sem gerð hafa verið síðustu ár bæði hérlendis og erlendis. 

Ráðamenn verða að taka á þessum þætti strax, áður enn í óefni er komið.  Það ætti að gera allt til að verja það að heimilin í landinu fari í þrot, annars styttist mjög hratt í algert hrun í samfélaginu.


Aftökuskipun Seðlabanka og ríkisstjórnar

Með einstrengingslegum og svívirðilega háum stýrivöxtum Seðlabanka er fjármögnun fyrirtækja mjög þröngur stakkur sniðinn.  Nú bætast við tilmæli ríkisins um að dregið verði úr öllum opinberum framkvæmdum og hætt við allar framkvæmdir sem ekki hefur verið byrjað á, samtímis sem ekkert er gert til að hindra botnlausa eignatilfærslu (skuldatilfærslu), þar sem gerfiverðbólga er látin blása út verðtryggð lán heimilanna í landinu.  Með þessu eru yfirvöld að gefa út aftökuskipun á heimilin og fyrirtækin í landinu. 

Við þessi stýrivaxtakjör, lánsfjárþurrð og óbeislaða verðtryggingu eru fyrirtækjum og heimilum allar bjargir bannaðar.   Skilaboðin eru skýr, allir eiga að draga saman.  Helfrost hefur gagntekið mannvirkjageirann á öllum stigum.  Fólk þorir ekki einu sinni að skipta um bréfalúgu eða að endurnýja baðið hjá sér, hvað þá að fara í stærri endurnýjunar- og viðhaldsverkefni.  Enginn húsbyggjandi getur byggt við þetta gengi eða vaxtakjör, ekki heldur hið opinbera og því stefnir í að 6-8.000 manns tengt þessum greinum muni snúa kröftum sínum í aðrar áttir innan mjög skamms.  Það hefur áhrif á alla aðra veltu og þar sem tíminn er svo skammur munu áhrifin verða umtalsverð um allt samfélag, sem leiðir til mikilla þrenginga hjá sveitarfélögunum. 

Frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál á vegum félagsmálaráðuneytis gerir ekkert til að hindra það að fólk lendi í erfiðleikum.  Bráðamóttaka Jóhönnu Sigurðardóttir beinist að því að skýra verklagsreglur og úrræði til að lengja aðeins í snörunni.  Skuldirnar eru að verða óbærilegar en með þessum aðgerðum á að veita húsnæðiseigendum næringu í æð, svo þeir tóri, rétt til að standa undir skráðu eignarsafni lífeyrissjóðanna og annarra lánveitenda.  Rýrni eignarsafn banka og lífeyrissjóða, eða taki skuldir heimilanna að falla, rýrnar lánshæfismat ríkissjóðs til muna, þannig að bæði kjör og lánsupphæðir minnka.  Það er að verða óþolandi hvað hagsmunir heimilanna í landinu eru í raun lítils metnir í þessu samhengi.  Frysting lána í þessum tillögum þýðir ekkert annað en að stinga hausnum í sandinn, því á meðan að ekkert er greitt vex skuldasafnið hröðum skrefum, þó í frosti sé.  Hugmyndir hagfræðinga um skuldbreytingu lánadrottna í eignarhluta eru bara útfærsla á yfirtöku heimilanna.  Ég tel þessar aðgerðir ekki til björgunar heimilanna, heldur ríkisins og lánadrottna. 

Björgunarhugmyndir hafa þó verið af mismunandi toga:

  • Draga úr vexti skulda verðtryggðra húsnæðislána með því að setja vaxtaþak á verðbólgu, td við 4% efri mörk verðbólgumarkmiða Seðlabanka, frá ákveðnum tímapunkti, sbr. ma hugmyndir Ingólfs H. Ingólfssonar og Sigrúnar Elsu Smáradóttur.
  • Frysta lán og afborganir í ákveðinn tíma, án þess að höfuðstóll lána hækki.
  • Fella niður skuldir heimilanna að hluta út frá gegnsæmum jafnræðisreglum, einnig nefnt "greiðsluaðlögun", með svipuðum hætti og skuldir margra fyrirtækja eru nú afskrifaðar að hluta, þannig að lántaki geti greitt af lánum, sbr. ma. grein Páls Magnússonar.

Þrátt fyrir þessi tilmæli ríkisins eru margir í sóknarhug og neita að láta færa sig á bráðamóttöku Jóhönnu.  Fyrirtæki td í verslun og þjónustu hafa bent á að afar hagstætt sé fyrir erlenda aðila að koma hingað til að versla og "njóta lífsins".  Flott hjá þeim, þetta ætti að krækja í gjaldeyri sem við þurfum svo sárlega á að halda núna.  En hvaða glóra er í því að þessi jákvæðu áhrif á verslun og þjónustu stuðli að enn frekari hækkun húsnæðisskuldanna hjá heimilunum í landinu??

Á meðan ríkisstjórnin hefur boðað aftökur heimila og fyrirtækja vex sá hópur sem neitar að láta teyma sig í bráðamóttöku Jóhönnu, þó hún hafi gert allt sem í sínu valdi stendur til að taka vel á móti fólki.  Það er nokkuð ljóst að á meðan afstaða stjórnvalda er með þessum hætti mun spenna í þjóðlífinu fara hratt vaxandi.  Allt kapp á að leggja í að heimilin í landinu og fyrirtækin verði ekki gjaldþrota.  Ef svo fer munu allir tapa og samfélagið bíða gríðarlegt og jafnvel óbætanlegt tjón.

Það er ljóst að lykill að öllum lausnum er skýr afstaða í gengismálum, en ég vara stórlega við því að hlúa ekki að heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.  Ríkisstjórnin þarf að koma fram með heildstæð úrræði strax og gera fyrirtækjum og heimilum kleift að spyrna við fótum, sér til varnar og þar með sveitarfélögum og ríkinu. 

  

 


Lykill að leiðréttingu gengisins

Það er ljóst að í uppkominni stöðu er alger forsenda nokkurra bóta að koma skikki á gjaldmiðil landsins.  Þeim fjölgar hins vegar stöðugt sem hafa algjörlega misst trúna á krónuna og hæfileika stjórnvalda til að halda henni stöðugri.   Stjórnvöld eru í pattstöðu vegna ágreinings við erlenda lánadrottna og innistæðueigendur, sem veldur því að ekki fást nauðsynleg erlend lán til styrkingar efnahagskerfisins.
Á meðan líða heimilin í landinu, fyrirtækin og sveitarfélögin, hjól atvinnulífsins eru öll að stöðvast, sem munu leiða til algers hruns á húsnæðismarkaði, gríðarlegs samdráttar í verslun og þjónustu og þar af leiðandi gjaldþrotahrinu heimila og fyrirtækja, sem þrengir enn að sveitarfélögum og ríkissjóði. 

Við höfum hingað til fengið fregnir af miklum þrýstingi frá Bretum og Hollendingum um að gengið verði frá "viðunandi" samkomulagi vegna Icesave reikninga þar í löndum.  Nú bætast fleiri ríki við sem eru að lenda í vanda vegna lána til innlendra banka.  Ein hlið þrýstingsins á krónuna er einnig það fjármagn sem vill út úr landinu sama hvað sem seðlabankinn reynir að sparsla í sárin.

Sóknarfærið í þessu eru þeir hagsmunir erlendra aðila, flestra innan Evrópusambandsins, sem eru í húfi fyrir þá.  Þeir hafa hingað til sett okkur stólinn fyrir dyrnar og sagt forsendu þess að við fáum aðstoð vera að við förum að þeirra kröfum.  Þessu eigum við að snúa við og segja að forsendur þess að við getum samið um þessi mál séu að hér sé viðunandi gjaldmiðill.  Vaxandi þrýstingur í þessum löndum mun auka á samningsstöðu okkar. 

Þetta á ríkisstjórnin tafarlaust að nýta sér.  Hér þarf að vinna mjög hratt og fyrir opnum tjöldum.  Hvort sem samningur yrði gerður um fastbindingu krónu tímabundið við evru á ásættanlegu gengi við seðlabanka ESB, og / eða gefin út yfirlýsing um að ríkisstjórnin hefji strax aðildarviðræður við ESB, þá eru hér klár sóknarfæri til skjótrar leiðréttingar á skráningu gengisins.  Þetta verður því að nýta vel og strax.  Það ætti einnig að minnka á þrýsting gjaldeyrisútflæðis.

Hin leiðin er einhliða upptaka evru, sem virðist vel færi leið, þrátt fyrir áróður um annað.

Á meðan aðgerðir til leiðréttingar gengisskráningarinnar standa yfir verður ríkisstjórnin að verja hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, með því að hindra óhóflega skuldasöfnun vegna verðtryggingarinnar með öllum ráðum.  Þetta skrípatól er heimatilbúinn  fjandi sem var ætlað að verja hagsmuni sumra.  Undanfarið hafa það verið bankarnir, en nú er það ríkissjóður ohf.  Ef þyrnirósarsvefni hagsmunagæsluaðila fólksins í landinu fer ekki að ljúka, þá verður annað fólk að komast að stjórnborðinu.  Þessi ríkisstjórn er með verðtryggingunni að byrja skulddreifingu útrásargosanna með því að hlaða hundruðum milljarða á herðar heimilanna í landinu, áður enn gripið verður til skattahækkana og niðurskurðar á þjónustu. 

Það má engan tíma missa, Finnska leiðin einkenndist af ráða- og aðgerðarleysi í upphafi, því getum við ekki reynt að læra af þeim og sleppt þeim kafla, sem leiddi til svo gríðarlegs samdráttar.

Við þurfum aðgerðir strax. 


Heimilin og skuldirnar

Í dag var fundur BSRB um heimilanna og skuldirnar. Þar komu fram ýmis atriði í vinnslu Félagsmálaráðuneytis, Íbúðalánasjóðs, LSR og Ráðgjafastofu heimilanna. Horfa má á fundinn hér og skoða glærur framsögumanna. Það er sorglegt að sjá að enn eru engin...

Hver er tilgangur stýrivaxtahækkunarinnar?

Síðastliðinn þriðjudag, 28.10. hækkaði seðlabankinn stýrivexti sína úr 12 í 18%. Hvernig getur þessi aðgerð dregið úr verðbólgunni sem fer síhækkandi hérlendis og hvernig getur þessi aðgerð aukið stöðugleika í skráningu krónunnar? Áhrif hækkunarinnar eru...

Verðtryggingin og lífeyrissjóðirnir

Nú virðist veturinn vera að skella á í efnahagslífinu. Á meðan að tekjuhlið heimilanna í landinu fer almennt rýrnandi, sér verðtryggingin til að skuldahliðin þenst stanslaust út. Nýlega kom fram að heimilin í landinu skulda 1750 milljarða í húsnæðislán...

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband