Hver er tilgangur stýrivaxtahækkunarinnar?

Síðastliðinn þriðjudag, 28.10. hækkaði seðlabankinn stýrivexti sína úr 12 í 18%.  Hvernig getur þessi aðgerð dregið úr verðbólgunni sem fer síhækkandi hérlendis og hvernig getur þessi aðgerð aukið stöðugleika í skráningu krónunnar?

Áhrif hækkunarinnar eru mun hærri fjármagnskostnaður fyrirtækjanna og skuldir heimilanna vaxa enn hraðar.  Getur það komið fram í öðru en hærra verði á vörum og þjónustu fyrirtækjanna og hærri greiðslubyrði heimilanna, sem verður mætt með hærri launakröfum, sem aftur hækkar verð á vörum og þjónustu, möo. aukinni verðbólgu ofan á verðbólguþrýsting gengisfallsins?  Áhrifin hljóta að koma fram í frekari samdrætti, með þeim afleiðingum að rekstrargrundvöllur innlendra fyrirtækja veikist enn frekar.  Við erum háð miklum innflutningi, þar sem innlend framleiðsla framleiðir ekki nema brot af því sem við þurfum til daglegrar neyslu.    Mikill samdráttur og síversnandi rekstrarhorfur eru nú að koma fram í fjöldauppsögnum í flestum atvinnugreinum, þar sem rekstrarforsendur fjölda fyrirtækja eru brostnar, eða eru að bresta.

Hvernig á það ástand að auka eða bæta stöðugleika á skráningu krónunnar?  Hversu lengi getur atvinnulífið búið við þessi kjör?  Hvort ætlar ríkið að drepa niður eða skapa viðunandi skilyrði til uppbyggingar atvinnulífsins í landinu?

Nú fer kælingin að breytast í alkul í byggingargeiranum.  Þetta á ekki eingöngu við um verktakageirann, heldur alla þá sem koma að mannvirkjagerð í landinu, en sú grein hefur verið kjölfestugrein í verðmætasköpun landsins.  Fjöldauppsagnir eru nú borðleggjandi úr öllum stigum mannvirkjageirans og búist er við að um 60-80% mannvirkjahönnuða verði á uppsagnarfresti um áramótin auk þúsunda iðnaðarmanna innan verktakageirans.  Þarna erum við að tala um arkitekta, verkfræðinga, byggingarfræðinga, tæknifræðinga, innanhússhönnuði, landslagsarkitekta, auk allra greina iðnaðarmanna.  Ef kælingin verður of mikil er stórhætta á að þessar stéttir streymi úr landi, háskólamenntaður mannauður með gríðarlega verk- og tækniþekkingu.  Fyrirtækin sem hafa byggst upp í kringum mannvirkjahönnun undanfarin ár búa nú yfir gríðarlegri þekkingu, sem er við að glatast, þar sem ekkert annað en upplausn býður flestra fyrirtækja í þessum geira, sérstaklega hönnunarsviðunum.  Gríðarlegt tjón er í uppsiglingu, ef ekki verður brugðist við strax er stórhætta á að þúsundir sérfræðinga og háskólamenntaðra úr þessum greinum fari úr landi, fyrirtækin liðist í sundur með óbætanlegum mannauðsskaða fyrir greinarnar og samfélagið allt.  Ef það er látið gerast mun taka langan tíma að byggja upp það sem tapast, amk. 4-8 ár.

Tíminn er naumur, ef forsendur hafa ekki skýrst fyrir áramót mun stjórnlaust hrun blasa við, þar sem stór hluti verslunar og þjónustu er mjög háður þessum greinum.  Landflótti mun leiða af sér mikið verðfall fasteigna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  ASÍ segir ma. að staðan hafi ekki verið alvarlegri síðan í móðuharðindunum.  Ef verðmætin sem fólgin eru í mannvirkjum eru látin falla í virði, rýrnar einnig sá veðstóll sem veitir aðgang að erlendu lánsfé, sem er nauðsynlegt til innspýtingar og enduruppbyggingar hagkerfisins.

Því er mjög brýnt að yfirvöld ákveði sig strax hvort þau ætli að kæla hagkerfið enn frekar eða fara að sýna viðleitni til björgunar, með því að skapa skilyrði sem gerir fyrirtækjunum kleift að snúa vörn í sókn.  Þetta hangir allt saman og samdráttur eins þýðir samdráttur annars.  Ef fyrirtækin komast í þrot missir fólk vinnuna og ef fólk missir vinnuna komast fyrirtækin í þrot, þar sem öll velta snar minnkar.  Ef það gerist býða sveitarstjórnirnar mikið tjón og veltutekjur ríkisins minnka verulega.  Bætir það stöðu ríkisins eða skráningu gjaldeyrisins á einhvern hátt?

Ríkisstjórnin og seðlabankinn njóta ekki mikils lánstrausts erlendra aðila um þessar mundir og hafa því aftur og aftur fengið synjun á lánabeiðnum sínum, með þeim afleiðingum að verðgildi krónunnar er í sögulegri lægð.  Atvinnulífið hefur einnig gefið sína einkunn á innlendu fjármálakerfi og efnahagsstjórn með því að færa viðskipti sín og fjármögnun í æ meiri mæli yfir í erlendar myntir.  Erlendir aðilar, bæði forstöðumenn banka, háskóla og fjölmiðlar fella nú hver á eftir öðrum falleinkunnardóm á seðlabankann.  Það er vægast sagt óvenjulegt að erlendir aðilar felli svo bera og óvægna dóma um hagstjórn annarra landa.  Er einhver von á að við öðlumst lánstraust í alþjóðasamfélaginu með núverandi stjórn í seðlabankanum?  Er einhver von að við öðlumst traust alþjóðasamfélagsins með þessa efnahagsstjórn og gjaldmiðil?  Á meðan að seðlabankinn vill draga úr allri veltu með hækkun stýrivaxta lækka flestir aðrir seðlabankar sína stýrivexti til að örva atvinnulífið í sínum löndum.  Það er ekki annað að sjá á þessum aðgerðum að menn viti ekki hvað þeir vilji og skilaboðin til þjóðarinnar eru vægast sagt óskýr.  Á meðan að aðilar vinnumarkaðarins eru á aðra höndina hvattir til að leita leiða til aðhalds en samtímis sóknar til eflingar atvinnulífsins vill seðlabankinn meiri kælingu.  Er þetta trúverðugt?  Getur einhver skilið tilgang þessarar stýrivaxtahækkunnar?  

Tíminn er stór þáttur í þessu ástandi og á meðan skilaboð um skýra stefnu og aðgerðir til varnar atvinnulífinu í landinu skortir, brenna verðmæti á öllum vígstöðvum í ljósum logum.  Það er alveg ljóst hverjir komu þjóðinni í þessi vandræði og nú er spurning hve lengi þeir ætla að halda því áfram?  Hve lengi hefur þjóðin efni á því?

Ef atvinnulífið á ekki að lenda í stórkostlegum vandræðum innan mjög skamms tíma þarf að lækka stýrivexti strax, afnema verðtrygginuna og hefja markvissa innspýtingu í atvinnulífið, sérstaklega gjaldeyrismyndandi atvinnugreinar, mannvirkjagerð, menntakerfið, menningargeirann og sprotafyrirtæki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband