Lykill að leiðréttingu gengisins

Það er ljóst að í uppkominni stöðu er alger forsenda nokkurra bóta að koma skikki á gjaldmiðil landsins.  Þeim fjölgar hins vegar stöðugt sem hafa algjörlega misst trúna á krónuna og hæfileika stjórnvalda til að halda henni stöðugri.   Stjórnvöld eru í pattstöðu vegna ágreinings við erlenda lánadrottna og innistæðueigendur, sem veldur því að ekki fást nauðsynleg erlend lán til styrkingar efnahagskerfisins.
Á meðan líða heimilin í landinu, fyrirtækin og sveitarfélögin, hjól atvinnulífsins eru öll að stöðvast, sem munu leiða til algers hruns á húsnæðismarkaði, gríðarlegs samdráttar í verslun og þjónustu og þar af leiðandi gjaldþrotahrinu heimila og fyrirtækja, sem þrengir enn að sveitarfélögum og ríkissjóði. 

Við höfum hingað til fengið fregnir af miklum þrýstingi frá Bretum og Hollendingum um að gengið verði frá "viðunandi" samkomulagi vegna Icesave reikninga þar í löndum.  Nú bætast fleiri ríki við sem eru að lenda í vanda vegna lána til innlendra banka.  Ein hlið þrýstingsins á krónuna er einnig það fjármagn sem vill út úr landinu sama hvað sem seðlabankinn reynir að sparsla í sárin.

Sóknarfærið í þessu eru þeir hagsmunir erlendra aðila, flestra innan Evrópusambandsins, sem eru í húfi fyrir þá.  Þeir hafa hingað til sett okkur stólinn fyrir dyrnar og sagt forsendu þess að við fáum aðstoð vera að við förum að þeirra kröfum.  Þessu eigum við að snúa við og segja að forsendur þess að við getum samið um þessi mál séu að hér sé viðunandi gjaldmiðill.  Vaxandi þrýstingur í þessum löndum mun auka á samningsstöðu okkar. 

Þetta á ríkisstjórnin tafarlaust að nýta sér.  Hér þarf að vinna mjög hratt og fyrir opnum tjöldum.  Hvort sem samningur yrði gerður um fastbindingu krónu tímabundið við evru á ásættanlegu gengi við seðlabanka ESB, og / eða gefin út yfirlýsing um að ríkisstjórnin hefji strax aðildarviðræður við ESB, þá eru hér klár sóknarfæri til skjótrar leiðréttingar á skráningu gengisins.  Þetta verður því að nýta vel og strax.  Það ætti einnig að minnka á þrýsting gjaldeyrisútflæðis.

Hin leiðin er einhliða upptaka evru, sem virðist vel færi leið, þrátt fyrir áróður um annað.

Á meðan aðgerðir til leiðréttingar gengisskráningarinnar standa yfir verður ríkisstjórnin að verja hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, með því að hindra óhóflega skuldasöfnun vegna verðtryggingarinnar með öllum ráðum.  Þetta skrípatól er heimatilbúinn  fjandi sem var ætlað að verja hagsmuni sumra.  Undanfarið hafa það verið bankarnir, en nú er það ríkissjóður ohf.  Ef þyrnirósarsvefni hagsmunagæsluaðila fólksins í landinu fer ekki að ljúka, þá verður annað fólk að komast að stjórnborðinu.  Þessi ríkisstjórn er með verðtryggingunni að byrja skulddreifingu útrásargosanna með því að hlaða hundruðum milljarða á herðar heimilanna í landinu, áður enn gripið verður til skattahækkana og niðurskurðar á þjónustu. 

Það má engan tíma missa, Finnska leiðin einkenndist af ráða- og aðgerðarleysi í upphafi, því getum við ekki reynt að læra af þeim og sleppt þeim kafla, sem leiddi til svo gríðarlegs samdráttar.

Við þurfum aðgerðir strax. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband