Björgunarpakki heimilanna?
15.11.2008 | 13:24
Í gær kynnti ríkisstjórnin björgunarpakka heimilanna. Lækkun á greiðslubyrði þýðir í raun frestun á 10% afborgana lánanna, á meðan að höfuðstóll lánanna hækkar. Þannig eru heimilin ekki varin fyrir verðbólguskoti, heldur látin borga brúsann, bara síðar. Önnur úrræði miðast að því að heimilin haldi áfram að greiða veisluna sama hvað. Ekki verður séð á þessum pakka hvernig ríkisstjórnin ætlar að forða heimilunum frá því að þurfa að nýta sér kynnt neyðarúrræði.
Það er þó ljóst að kynnt úrræði munu nýtast mörgum heimilum, sem eru þegar komin í vanda og ekki síður þeim sem eru eða munu lenda í vanda vegna ástandsins. Með því að setja ekki þak á verðbólguáhrifin, td með því að frysta verðbólgu við efri þolmörk Seðlabanka, þe við 4%, er ríkið að setja alla ábyrgð og kostnað yfir á heimilin. Það er óþolandi ranglátt!
Það verður að setja mörk á ábyrgð heimilanna í þessu óveðri. Bankarnir blésu út fasteignaverð með öllum tiltækum ráðum og það með fullu samþykki ríksistjórnarinnar. Heimilin í landinu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu eru nú skuldum hlaðin vegna þessa, á meðan að ríkisstjórn kættist yfir að ríkssjóður væri orðinn svo til skuldlaus. Með stærri veðstól í skuldum heimilanna voru svo keypt verðbréf sem hafa svo að miklu leiti reynst innistæðulausir pappírar. Þessir pappírar eru nú afskrifaðir í stórum stíl, en skuldir heimilanna standa eftir.
Með því að setja ekki þak á verðtryggð lán heimilanna og með því að halda stýrivöxtum í þessum hæðum er ríkið enn að fyrra sig ábyrgð og velta henni alfarið yfir á heimilin. Með þessum ákvörðunum er ríkið að verja sjálft sig og lífeyrissjóðina. Hvenær og hvernig ætlar ríkisstjórnin að axla ábyrgð á því ástandi sem hún er búin að koma heimilum landsins í?
Þessu ber að mótmæla hart og verður að breyta strax!
Sú verðbólga sem mælist í dag er gerfiverðbólga, ekki knúinn áfram af víxlhækkunarkapphlaupi verðlags og launa, heldur vegna þess að gjaldmiðillinn er verðlaus. Það er bullandi samdráttur í öllu samfélaginu og sjaldan hafa jafn margir fengið uppsagnarbréf. Með þessu stýrivaxtarstigi eru fyrirtækjunum sett afar erfið skilyrði til að bjarga sér sjálf og þar með sínu starfsfólki. Öll átök til að auka tekjur koma hart niður á heimilunum vegna hækkunar á neysluvísitölu. Ef td ferðaþjónustan og veitingabransinn nýttu sér lágt gengi og næðu í 5000 erlenda ferðamenn inn í vertíð jólahlaðborða, sem væri ákaflega jákvætt og gjaldeyrismyndandi, þá fá heimilin í landinu sendann aukareikning, vegna hækkunar neysluvísitölu. Þetta er náttúrulega algerlega galið og óverjandi af yfirvöldum.
Ég bið því ráðamenn að axla raunverulega ábyrgð gagnvart heimilunum og setja þak á skuldaaukningu heimilanna. Þessar skuldir þarf að greiða til baka og ef þessar skuldir fá að vaxa stjórnlaust, þó veittur sé frestur afborgana, og mun draga allan móð og þrótt úr hagkerfinu mörg komandi ár. Óhóflega hækkaður höfuðstóll mun draga verulega úr þeirri innspýtingu sem hagkerfið þarf á að halda frá heimilunum í enduruppbyggingunni. Í versta falli munu heimilin flytja sig í réttlátara umhverfi, td til hinna norðurlandanna, sem mun draga enn úr krafti uppbyggingarinnar, sem mun hefjast um leið og botni þessa hruns er náð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.