Heimsmet í ferðalögum erlendis
19.11.2008 | 22:35
Í umræðum undanfarinna vikna hafa menn leitað að blórabögglum ófaranna. Bankarnir benda á almenning, sem bendir á bankana og stjórnvöld, sem benda á fjármálaeftirlitið og seðlabankann, sem benda á stjórnvöld, bankana og almenning.
Þó er ljóst að stjórnvöld einkavæddu bankana og settu rammann í kringum starfsemi þeirra, breyttu lögum, lögðu niður stofnanir, opnuðu þeim tekjulindir, beindu í gegnum þá fjárstreymi, studdu þá og greiddu götu þeirra bæði hérlendis og erlendis.
Bankarnir hömuðust við að skuldsetja almenning, sendu fermingarbörnum og unglingum debet- og kreditkort, hömuðust við að bjóða 100% lán til allra hluta ss fasteignakaupa, bílakaupa, tölvukaupa, sumarhúsakaupa, hlutabréfakaupa og svo mætti lengi telja. Þeir höfðu beinan hag af verðbólgunni þar sem verðbólgan var beinn vaxtaauki, álag ofan á nafnvexti lána og þannig margfölduðu þeir vaxtaágóðann miðað við þau kjör sem bankinn hafði fengið lánið á. Þegar þeir voru búnir að festa fólk kirfilega í verðtryggðum lánum hófust þeir handa við að skrúfa upp verðbólguna til að auka "afköst fjárfestinga sinna". Með beinni samkeppni við verktaka um kaup á landi margfölduðu þeir verð á lóðum, sem ýtti boltanum af stað á fasteignamarkaði. Með háum launum sýndu bankamenn að laun annarra stétta voru misskilningur. Með rausnarlegum starfsmannakjörum sýndu þeir launafólki að kjör annarra starfsgreina voru nánasarleg. Með aðbúnaði í formi sýnilegra hlunninda og "vinnutengdum" ferðum erlendis eða í ævintýralegu umhverfi veiðiáa, sýndu þeir bæði viðskiptavinum og starfsfólki við hverja það "borgaði sig" að skipta og í hvaða liði "borgaði sig" að vera.
Það var ekki að sökum að spyrja. Aðrar greinar tóku upp fordæmi bankanna til að standast samkeppni um starfsfólk og launaskriðið fór af stað. Áætlun bankanna var að ganga eftir, sem og ríkisins, því bæði bankar og ríkissjóður þrútnuðu hressilega, á meðan að skuldir heimilanna ruku upp.
Einn af þeim þáttum sem urðu næstum hversdagslegir á þessu tímabili voru erlend ferðalög. Í morgunútvarpi RÚV í morgun greindi Jón Karl Ólafsson forstjóri Jet Primera Air frá því að Íslendingar ættu heimsmet í ferðalögum erlendis og að árið 2007 hefði ferðatíðnin verið slík að hver landsmaður hefði farið í 4,8 ferðir til útlanda og er þá um allar ferðir að ræða. Íslendingar gistu yfir 100.000 gistinætur í Kaupmannahöfn einni árið 2007 og stóðu á bak við 20% af endurgreiðslu skatta á Kastrup flugvelli. Fólk var mikið að fara í helgarferðir, golfferðir, skreppa á fótboltaleiki, formúluna, viðskiptaferðir, matarferðir, vínsmökkunarferðir og svo mætti lengi telja. Jón Karl sagði að þegar fólk hefði verið að meta hvort það ætti frekar að fara út að borða í miðborginni eða td í Köben, þá hefði Köben ansi oft orðið ofan á. Á seinni hluta 2007 var svo ferðum til fjarlægari staða farið að fjölga mjög, líka skreppitúrum til USA og jafnvel Kína.
Af þessum tölum að dæma má ætla að flestir kannst við sjálfan sig í þessu samhengi, þó svo ferðirnar séu mismargar. Margir töldu sig eiga þessa tilbreytingu fyllilega skilið og sendu innlendum kaupmönnum oft fingurinn með því að versla duglega, auðvitað að mestu leiti á VISA eða EURO.
Nú er gjaldeyrisskortur mikill í landinu og mikill samdráttur í innlendri verslun og þjónustu. Ef við gefum okkur að verslun á bak við hverja ferð hafi verið 100.000 kr. er ígildi neysluhluta erlendra ferðalaga 144 milljarðar, gjaldeyrir úr landi. Ef ferðir og gisting eru 50.000 pr. ferð er heildarkostnaðurinn um 216 milljarðar kr. Til samanburðar voru tekjur af 374.000 erlendum ferðamönnum hérlendis 2005 um 40 milljarðar.
Aðilar í ferðaþjónustu telja þennan samdrátt bara tímabundinn og innan skamms muni hann vera kominn í fyrra horf.
Ég vona þó innilega að okkur takist að læra eitthvað af mistökunum og temja okkur meiri varkárni áður enn kortið er straujað. Hlutur almennings í þenslunni er vissulega stór, því ef ekki væri gapandi markaður fyrir útlánsfé hefðu bankarnir ekki tútnað svona út. Því ættum við almenningur að vera meðvituðri um hvernig við verjum "okkar" fé.
Af vef Ferðamálastofu má sjá að hlutfall erlendra ferðamanna í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku er á bilinu 20-40% og þá hæst í Danmörku. Hér á landi er hlutfall erlendra ferðamanna hins vegar tæplega 70%. Það er athyglisvert að öll þessi lönd hafa gengið í gegnum miklar þrengingar og stór hluti endurbata í þeirra uppbyggingu var að hlúa að innlendri atvinnustarfsemi og nýta innlenda ferðamöguleika.
Í því ljósi að í hvert sinn sem við kaupum vörur og þjónustu erum við að taka pólitíska afstöðu, byggja eitthvað upp á einhverjum stað. Nýtum þann styrk og tækifæri vel til að byggja upp innlenda atvinnustarfsemi og beinum sjónum okkar að eigin landi, það hefur vissulega upp á margt að bjóða. Við hljótum að endurmeta þessa hluti í ljósi þeirrar áróðursfyrringar sem hefur kollsteypt efnahagskerfi þjóðarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.