Erlendir ferðamenn hækka húsnæðisskuldir heimilanna
20.11.2008 | 19:21
Atvinnulausum fjölgar stöðugt og eru nú komnir í 6.148 manns. Velta á markaði hefur snardregist saman en samt "mælist" hér verðbólga upp á um 16% og verðtryggðar skuldir heimilanna þenjast út með ógnarhraða, eða þegar um rúma 200 milljarða á fyrri helmingi þessa árs. Neysla landsmanna hefur dregist svo skarpt saman að kaupmenn hafa aldrei upplifað annað eins. Samt mælist hér verðbólga vegna gengisfallsins.
Aðilar í ferðaþjónustu, veitingahúsarekstri, verslun og þjónustu reyna nú að snúa vörn í sókn og markaðsátak er hafið erlendis til að fá erlenda ferðamenn hingað. Það ætti að vera jákvætt, ætti að skila gjaldeyri inn í samfélagið og því að vera mjög jákvætt.
En vegna gengisfallsins og verðtryggingarinnar veldur þessi aukna velta mikilli "mældri" verðbólgu og mun því senda skuldugum heimilum landsins feitan bakreikning í formi hækkunar á neysluvísitölu og þannig enn hærri skulda. Ef ekkert verður að gert munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um tæpa 300 milljarða á næsta ári. Er einhver glóra í þessu??
"Björgunarpakki" ríkisstjórnarinnar fyrir heimilin er metinn á um 2,4 milljarða og þar er inni endurgreiðsla á innflutningsgjöldum bíla, sem nú er verið að flytja úr landi. Hversu lengi á maður að þola svona glórulausan áróður, hvaða björgunaraðgerðir eru þetta? Það á að reyna að fá fólk til að trúa því að þeir sem hafa klúðrað málum algerlega gagnvart þjóð sinni og komið atvinnulífinu og heimilunum í stórkostleg fjárhagsleg vandræði séu að koma fólki til bjargar. Þvílíkt rugl. Allar aðgerðir snúa nú að ríkissjóði og bankakerfinu! Engum orðum er eytt í atvinnulífið eða heimilin í landinu!!
Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki styggja sína dyggu og trúföstu stuðningsmenn innan verslunar og þjónustu, jafnvel þótt þeir stuðli að botnlausu gjaldeyrisútflæði. Það veldur hins vegar miklum vonbrigðum að Samfylkingarfólk standi ekki betur með fólkinu í landinu.
Heimilin í landinu eru nú um 125.000, fjöldi vinnandi fólks á atvinnumarkaði telst nú um 180.000 manns, en skattgreiðendur voru um 175.000 árið 2007. Um 75% heimilanna í landinu skulda alls um 1.750 milljarða og þar af eru um 75% verðtryggð lán. Hækkun skulda þessa hóps verður um 300 milljarðar vegna húsnæðisskulda 2009. Þessi hópur tekur einnig á sig verulega eignarýrnun og væntanlega skattahækkanir eins og aðrir. Sem stærðarviðmiðun þá hefur Seðlabankinn tilkynnt að búist sé við um 82 milljarða samdrætti á tekjum ríkissjóðs 2009! Kostnaði af afglöpum stjórnmála- og bankamanna verður að dreifa með jafnari hætti.
Það verður að grípa til aðgerða strax til að forða þessari ranglátu skuldsetningu heimilanna, því hún gengur ekki til baka heldur mun íþyngja heimilunum til lokagreiðslu. Heimilin eiga ekki að greiða refsigjald fyrir sjálfsbjargarviðleitni atvinnuvega sem geta aukið á tekjur sínar í gegnum erlenda ferðamenn. Það er út í hött.
Setjum þak á vexti verðtryggðra lána strax, áður enn krónan verður sett á flot. Óbilgjörn eignatilfærsla getur hæglega snúist í andstæðu sína ef skuldsett heimilin hreinlega neita að greiða þessa reikninga og hætta að greiða af lánunum. Sú hætta er raunveruleg!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.