Hvað segja talsmenn neytenda um verðtryggðu lánin?

Á vefsíðu talsmanns neytenda er að finna leiðarkerfi neytenda.  Þar má finna þennan texta:

Óréttmætir skilmálar og ógilding samnings

Ógilding samnings

Í vissum tilvikum er hægt að ógilda samninga eða víkja þeim til hliðar þeim að hluta eða öllu leyti, til dæmis ef:

  • samningsskilmálar eru óréttmætir, s.s. þegar samningurinn er bersýnilega óhagkvæmur, ósanngjarn gagnvart neytenda eða raskar til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag,
  • neytandi er bundinn við samninginn óeðlilega lengi eða uppsögn ótímabundins samnings er gerð óeðlilega erfið,
  • samningi er komið á með því að annar aðilinn er neyddur til þess,
  • svik hafa verið viðhöfð, eða bágindi, einfeldni eða fákunnátta annars manns hefur verið notuð til að koma á samningi eða
  • það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig.

Ekki er hægt að víkja samningi til hliðar einhliða, heldur verður að semja um það eða leita aðstoðar úrskurðarnefndar eða dómstóla til að fá samningnum hnekkt.

Óréttmætir samningsskilmálar  

Gefin hefur verið út leiðbeinandi skrá um óréttmæta samningsskilmála sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Skráin er aðeins leiðbeinandi en ekki tæmandi talning á þeim atriðum sem geta valdið því að samningsskilmálar séu óréttmætir.

Ef samningsskilmálar eru óréttmætir er í vissum tilvikum hægt að ógilda samninga eða víkja þeim til hliðar. Ekki er hægt að víkja samningi til hliðar einhliða, heldur verður að semja um það, eða leita aðstoðar úrskurðarnefndar eða dómstóla til að fá samningnum breytt eða hnekkt.

Það er ljóst að sl. 15 mánuði höfðu  bankarnir beinan hag af því að kynda undir verðbólgu með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal að fella gengið til að auka á bókfærðar eigur sínar í ársfjórðungsuppgjörum.  Í hruni verðbréfamarkaða hafa mörg fyrirtæki sogast í kjölfarið og eftir standa uppskrúfaðar skuldir heimilanna, bundnar verðtryggðum lánum.  Verðbólga er í raun engin en í kjölfar gríðarlegs gengisfalls skrúfast húsnæðislánin upp úr öllu samhengi, í stærðargráðunni um 500 milljarðar á árunum 2008 og 2009 ef fer sem horfir.  Er forsvaranlegt að beyta verðtryggingu í óbreyttri mynd í slíku ástandi???

Hvað segir talsmaður neytenda og neytendasamtökin??


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll Friðrik, minn gamli sveitungi, og takk fyrir góða og réttmæta fyrirspurn. Þegar ég tók við nýju embætti talsmanns neytenda - sem hefur að vísu engin bein völd en vonandi einhver og vaxandi áhrif - ákvað ég strax að móta nokkur áhersluatriði. Fyrir réttum 3 árum kynnti ég þau opinberlega (hafði þá ekki komið upp vefsíðu fyrir embættið, en það kom síðar: www.talsmadur.is þar sem lesa má um starfsemina). Eitt helsta áhersluefnið var verðtrygging - sem ég kalla oft lengra og formlegra heiti: núverandi fyrirkomulag á víðtækri sjálfkrafa tenging neytendalána (ekki síst íbúðarlána) við vísitölu neysluverðs. Skemmst er frá því að segja að ég hef ekki markað þessu máli formlegan farveg en hef frá upphafi og opinberlega og oft og víða sagt þá skoðun mína að ég efast um réttmæti og jafnvel lögmæti "verðtryggingar." Í upphafi var takmarkaður áhugi á þessu sjónarmiði en eftir að ég fór að blogga í mars sl. og einkum eftir að samdráttur fór að segja til sín í vor og hvað þá kreppan nú þá hefur þessu sjónarmiði aukist fylgi. Þó er það aðeins nýlega að hagfræðingar hafa komið fram og tekið undir efasemdir mínar en málsmetandi hagfræðingar - og allir raunar sem ég hafði til skamms tíma heyrt í - stóðu með verðtryggingunni og gagnrýndu efasemdir mínar og rök eins og lesa má eitthvað af á bloggi mínu: http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/

Sumir þátttakendur í stjórnmálum hafa jafnvel gengið svo langt að lýsa efasemdum mínum (eða almennt) sem lýðskrumi.

Er þessi málaflokkur sá eini sem ég helga sérstakan flokk: http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/category/1609/. Þar má lesa um nokkur viðhorf mín sem annars hafa komið víða í fjölmiðlum.

Ég þigg gjarnan sjónarmið og tillögur um farveg en meðal þess sem ég hef velt upp - m.a. í fjölmiðlum er að leita formlegs álits Eftirlitsstofnunar EFTA (jafnvel EFTA-dómstólsins) ef einhver kvartar formlega við embætti talsmanns neytenda - en það hefur enginn ennþá gert (svo ég var farinn að halda að ég væri einn um þessar efasemdir). Önnur leið væri að halda e.k. opinbert "hearing" um málið.

Gísli Tryggvason, 21.11.2008 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband