Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Hver dagur kostar heimilin 1 milljarð í auknar skuldir
5.4.2009 | 21:15
Árið 2008 hækkuðu heildarskuldir heimilanna úr 1550 milljörðum í 2025 milljarða. Ef fer sem horfir, án inngripa munu heildarskuldir heimilanna hafa hækkað um ca 740 milljarða frá 1.jan 2008 til ársloka 2009. Verð- og gengistryggð veðlán eru langstærsti hluti skulda heimilanna og þar af eru skuldir vegna fasteignakaupa, náms- og bílalána stærstu flokkarnir. Nú hækka heildarskuldir heimilanna um 1 milljarð á hverjum degi og munu gera hvern dag þessi 2 ár, ef ekki verður gripið til almennra fyrirbyggjandi aðgerða strax. Hversu lengi höfum við efni á að bíða með að taka á lánavanda heimilanna? Hvernig eiga heimilin að ráða við slíka skuldsetningu, sem lánveitendur og stjórnvöld eiga stóran þátt í, bæði með beinum aðgerðum lánastofnana og aðgerðaleysi stjórnvalda?
Er það ekki sorgleg staðreynd að auknar gjaldeyristekjur vegna fjölgunar og aukinnar verslunar erlendra ferðamanna leggst beint til hækkunar á veðskuldum heimilanna sökum verðtryggingarinnar? Gjaldþrot og nauðasamningar einstaklinga gerir fólk vanhæft til að stofna eða stunda eigin atvinnurekstur í langan tíma og vegur þannig beint gegn sprota- og nýsköpunarstarfi. Þegar námslánum, bílalánum og lífeyrissjóðslánum hefur verið bætt við greindar skuldir heimilanna er tala heimila með neikvæða eða mjög tæpa eiginfjárstöðu komin vel yfir 50%, sem þýðir að um 55.000 heimili eru í mjög þröngri stöðu. Eðlilega er það aldurshópurinn 25-45 ára sem er stærstur þeirra sem eru í þröngri stöðu, en þetta er hópurinn sem er með börn á framfæri.Um 25% heimila eru með gengistryggð veðlán og 90% af þeim nýta sér frystingar eða önnur neyðarúrræði. Umsóknum um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika hjá Íbúðarlánasjóði hefur fjölgað um uþb 900% á milli ára. Þessi lán teljast þó öll í skilum. Núverandi aðgerðir eru allar til þess fallnar að fela stærð vandans, en munu að lokum lama hagkerfið verði ekki bætt við fyrirbyggjandi aðgerðum til að forða því að sá hópur stækki, sem þarf á sértækum nauðarsamninga úrræðum.
Það verður að stöðva siðlausar eignatilfærslur á sparnaði heimilanna í fasteignum, lífeyri og framtíðartekjum strax með fyrirbyggjandi aðgerðum. Nú þegar er skuldastaða heimilanna um 270% af ráðstöfunartekjum. Beita verður neyðaraðgerðum til að jafna ábyrgð lánveitenda og lántaka. Samningsforsendur eru löngu brostnar. Traust til fjármálastofnana er hverfandi og það sama á við um tiltrú almennings til stjórnvalda. Þessu verður að snúa við með sáttarleið um lausn lánamála heimilanna. Hvernig á að örva atvinnulífið þegar atvinnutryggingasjóður verður tæmdur næsta haust, um 60% heimila verða með neikvæða eða tæpa eiginfjárstöðu með hratt minnkandi ráðstöfunartekjur, enn verða um 15-18.000 manns án atvinnu og ríkissjóður þarf að skera niður opinber umsvif um 150 milljarða næstu 3-4 árin? Ef það er einhver meining í að ætlast til að fá ungt fólk til að fjárfesta í húsnæði í landinu í næstu framtíð og yfir höfuð sjá framtíð fyrir sér með búsetu á landinu verður að grípa til fyrirbyggjandi og leiðréttandi almennra aðgerða strax. Ef við ætlum ekki að missa stóran hluta fólks á aldrinum 25-45 ára úr landinu með börnin sín, verður að vekja von um að afleiðingum hrunsins verði ekki deilt niður af óvægnum þunga út frá skuldastöðu heimilanna fyrst og fremst. Það fólk sem er mest hætta á að fari verður líklega vel menntað skapandi og framtakssamt fólk úr mannvirkjageiranum, fólk úr viðskipta- og fjármálageira og fólk sem er að ljúka háskólanámi í öllum greinum.
Að ræna eiginfé í fasteignum, sparnaði og framtíðartekjum heimilanna til að bæta lánasöfn bankanna til endursölu og bæta þannig stöðu ríkissjóðs til skamms tíma er stórkostlegur glæpur og mikil þjóðhagsleg yfirsjón. Allar stoðir samfélagsins verða að komast í gegnum þessar hremmingar, þe. ríkissjóður, fjármálakerfi, atvinnulíf og heimilin. Með yfirskuldsett kaupmáttarlítil heimili verður lagður grunnur að gríðarlegum raunverulegum verðbólguþrýstingi í nánustu framtíð, um leið og formerki fara að snúast við. Á slíkum grunni verður vandséð hvernig enduruppbygging samfélagsins á að takast með skjótum hætti. Hagsmunir heimilanna og atvinnulífsins fara að miklu leiti saman. Verði ekkert að gert til að forða eignaupptöku, óhóflegri skuldsetningu og umfangsmiklum eignabruna heimilanna nú, mun gríðarlegur samdráttur bíða atvinnulífsins á komandi árum, með langvarandi háu atvinnuleysi og gríðarlegum útgjöldum á ríkissjóð. Setja verður þak á verðbætur strax svo auknar þjóðartekjur vegna erlendra ferðamanna í sumar og möguleg jákvæð aukin umsvif annarra atvinnugreina dýpki ekki enn skuldastöðu heimilanna. Heimilin þurfa almennar fyrirbyggjandi og leiðréttandi aðgerðir strax til að forða hér algeru hruni.
Ég hvet þig til að taka stöðu með heimilunum í landinu með því að skrá þig í Hagsmunasamtök heimilanna. Hversu lengi hefur þú efni á að bíða með að taka afstöðu?
Sjá einnig sláandi umfjallanir Michael Hudson um Alheimsstríð lánadrottna og Stríð gegn Íslandi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)