Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Athyglisverðar hagtölur
13.11.2008 | 23:06
Það tala allir um milljarða eins og þeir viti hvað sú tala í raun þýðir. Þó flestir eigi erfitt að átta sig á stærðinni er samanburður mismunandi hluta kannski bestur til þess fallinn að varpa ljósi á stærðir.
Fyrir skömmu voru skuldir heimilanna metnar um 1750 milljarðar og þar af voru um 75% verðtryggð lán. Þjóðarframleiðslan var árið 2007 um 1280 milljarðar, en mikið af hagstærðum í umræðunni eru miðaðar við þjóðarframleiðsluna, þá sem hlutfall eða margfeldi hennar.
Á fundi sl mánudag kom fram á fundi FSSA og AÍ að sveitarfélögin eru í miklum vanda vegna ástandsins og til að geta haldið uppi óbreyttri velferðarþjónustu, þó með verulegum samdrætti á ýmsum sviðum þyrftu öll sveitarfélögin í landinu 30 milljarða viðbótartekjur, eun útgjöld þeirra námu í heild 177,2 milljörðum árið 2007.
Seðlabankinn gaf nýlega út að vegna efnahagsþrenginga mætti búast við 82 milljarða minni tekjum 2009 en 2008 og að á árinu 2009 mætti búast við um 140-150 milljarða halla á ríkissjóði.
Ingibjörg Sólrún telur sig góða, tók upp sparnaðarhnífinn og skar utanríkisþjónustuna niður um 2,3milljarða, en öll utanríkisþjónustan 2009 mun kosta ríkissjóð um 9 milljarða.
Ef ekkert er gert til að stemma stigum við óheftri útþenslu skulda heimilanna í landinu vegna verðtryggðra lána og að vextir með verðbólgu verði að jafnaði 20% mun skuldastaða heimilanna í landinu þyngjast um 262 milljarða á einu ári!! Þetta er um 1,5* rekstrarkostnaður allra sveitarfélaga á landinu, nærri 3* stærð samdráttar þjóðartekna og nærri 30* allur áætlaður kostnaður utanríkisþjónustunnar 2009.
Húsnæðiseigendur (þe. skuldarar) í landinu eiga EKKI að taka á sig öll hagstjórnar mistök sem gerð hafa verið síðustu ár bæði hérlendis og erlendis.
Ráðamenn verða að taka á þessum þætti strax, áður enn í óefni er komið. Það ætti að gera allt til að verja það að heimilin í landinu fari í þrot, annars styttist mjög hratt í algert hrun í samfélaginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.11.2008 kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aftökuskipun Seðlabanka og ríkisstjórnar
13.11.2008 | 14:31
Með einstrengingslegum og svívirðilega háum stýrivöxtum Seðlabanka er fjármögnun fyrirtækja mjög þröngur stakkur sniðinn. Nú bætast við tilmæli ríkisins um að dregið verði úr öllum opinberum framkvæmdum og hætt við allar framkvæmdir sem ekki hefur verið byrjað á, samtímis sem ekkert er gert til að hindra botnlausa eignatilfærslu (skuldatilfærslu), þar sem gerfiverðbólga er látin blása út verðtryggð lán heimilanna í landinu. Með þessu eru yfirvöld að gefa út aftökuskipun á heimilin og fyrirtækin í landinu.
Við þessi stýrivaxtakjör, lánsfjárþurrð og óbeislaða verðtryggingu eru fyrirtækjum og heimilum allar bjargir bannaðar. Skilaboðin eru skýr, allir eiga að draga saman. Helfrost hefur gagntekið mannvirkjageirann á öllum stigum. Fólk þorir ekki einu sinni að skipta um bréfalúgu eða að endurnýja baðið hjá sér, hvað þá að fara í stærri endurnýjunar- og viðhaldsverkefni. Enginn húsbyggjandi getur byggt við þetta gengi eða vaxtakjör, ekki heldur hið opinbera og því stefnir í að 6-8.000 manns tengt þessum greinum muni snúa kröftum sínum í aðrar áttir innan mjög skamms. Það hefur áhrif á alla aðra veltu og þar sem tíminn er svo skammur munu áhrifin verða umtalsverð um allt samfélag, sem leiðir til mikilla þrenginga hjá sveitarfélögunum.
Frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál á vegum félagsmálaráðuneytis gerir ekkert til að hindra það að fólk lendi í erfiðleikum. Bráðamóttaka Jóhönnu Sigurðardóttir beinist að því að skýra verklagsreglur og úrræði til að lengja aðeins í snörunni. Skuldirnar eru að verða óbærilegar en með þessum aðgerðum á að veita húsnæðiseigendum næringu í æð, svo þeir tóri, rétt til að standa undir skráðu eignarsafni lífeyrissjóðanna og annarra lánveitenda. Rýrni eignarsafn banka og lífeyrissjóða, eða taki skuldir heimilanna að falla, rýrnar lánshæfismat ríkissjóðs til muna, þannig að bæði kjör og lánsupphæðir minnka. Það er að verða óþolandi hvað hagsmunir heimilanna í landinu eru í raun lítils metnir í þessu samhengi. Frysting lána í þessum tillögum þýðir ekkert annað en að stinga hausnum í sandinn, því á meðan að ekkert er greitt vex skuldasafnið hröðum skrefum, þó í frosti sé. Hugmyndir hagfræðinga um skuldbreytingu lánadrottna í eignarhluta eru bara útfærsla á yfirtöku heimilanna. Ég tel þessar aðgerðir ekki til björgunar heimilanna, heldur ríkisins og lánadrottna.
Björgunarhugmyndir hafa þó verið af mismunandi toga:
- Draga úr vexti skulda verðtryggðra húsnæðislána með því að setja vaxtaþak á verðbólgu, td við 4% efri mörk verðbólgumarkmiða Seðlabanka, frá ákveðnum tímapunkti, sbr. ma hugmyndir Ingólfs H. Ingólfssonar og Sigrúnar Elsu Smáradóttur.
- Frysta lán og afborganir í ákveðinn tíma, án þess að höfuðstóll lána hækki.
- Fella niður skuldir heimilanna að hluta út frá gegnsæmum jafnræðisreglum, einnig nefnt "greiðsluaðlögun", með svipuðum hætti og skuldir margra fyrirtækja eru nú afskrifaðar að hluta, þannig að lántaki geti greitt af lánum, sbr. ma. grein Páls Magnússonar.
Þrátt fyrir þessi tilmæli ríkisins eru margir í sóknarhug og neita að láta færa sig á bráðamóttöku Jóhönnu. Fyrirtæki td í verslun og þjónustu hafa bent á að afar hagstætt sé fyrir erlenda aðila að koma hingað til að versla og "njóta lífsins". Flott hjá þeim, þetta ætti að krækja í gjaldeyri sem við þurfum svo sárlega á að halda núna. En hvaða glóra er í því að þessi jákvæðu áhrif á verslun og þjónustu stuðli að enn frekari hækkun húsnæðisskuldanna hjá heimilunum í landinu??
Á meðan ríkisstjórnin hefur boðað aftökur heimila og fyrirtækja vex sá hópur sem neitar að láta teyma sig í bráðamóttöku Jóhönnu, þó hún hafi gert allt sem í sínu valdi stendur til að taka vel á móti fólki. Það er nokkuð ljóst að á meðan afstaða stjórnvalda er með þessum hætti mun spenna í þjóðlífinu fara hratt vaxandi. Allt kapp á að leggja í að heimilin í landinu og fyrirtækin verði ekki gjaldþrota. Ef svo fer munu allir tapa og samfélagið bíða gríðarlegt og jafnvel óbætanlegt tjón.
Það er ljóst að lykill að öllum lausnum er skýr afstaða í gengismálum, en ég vara stórlega við því að hlúa ekki að heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Ríkisstjórnin þarf að koma fram með heildstæð úrræði strax og gera fyrirtækjum og heimilum kleift að spyrna við fótum, sér til varnar og þar með sveitarfélögum og ríkinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2008 kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lykill að leiðréttingu gengisins
8.11.2008 | 11:44
Það er ljóst að í uppkominni stöðu er alger forsenda nokkurra bóta að koma skikki á gjaldmiðil landsins. Þeim fjölgar hins vegar stöðugt sem hafa algjörlega misst trúna á krónuna og hæfileika stjórnvalda til að halda henni stöðugri. Stjórnvöld eru í pattstöðu vegna ágreinings við erlenda lánadrottna og innistæðueigendur, sem veldur því að ekki fást nauðsynleg erlend lán til styrkingar efnahagskerfisins.
Á meðan líða heimilin í landinu, fyrirtækin og sveitarfélögin, hjól atvinnulífsins eru öll að stöðvast, sem munu leiða til algers hruns á húsnæðismarkaði, gríðarlegs samdráttar í verslun og þjónustu og þar af leiðandi gjaldþrotahrinu heimila og fyrirtækja, sem þrengir enn að sveitarfélögum og ríkissjóði.
Við höfum hingað til fengið fregnir af miklum þrýstingi frá Bretum og Hollendingum um að gengið verði frá "viðunandi" samkomulagi vegna Icesave reikninga þar í löndum. Nú bætast fleiri ríki við sem eru að lenda í vanda vegna lána til innlendra banka. Ein hlið þrýstingsins á krónuna er einnig það fjármagn sem vill út úr landinu sama hvað sem seðlabankinn reynir að sparsla í sárin.
Sóknarfærið í þessu eru þeir hagsmunir erlendra aðila, flestra innan Evrópusambandsins, sem eru í húfi fyrir þá. Þeir hafa hingað til sett okkur stólinn fyrir dyrnar og sagt forsendu þess að við fáum aðstoð vera að við förum að þeirra kröfum. Þessu eigum við að snúa við og segja að forsendur þess að við getum samið um þessi mál séu að hér sé viðunandi gjaldmiðill. Vaxandi þrýstingur í þessum löndum mun auka á samningsstöðu okkar.
Þetta á ríkisstjórnin tafarlaust að nýta sér. Hér þarf að vinna mjög hratt og fyrir opnum tjöldum. Hvort sem samningur yrði gerður um fastbindingu krónu tímabundið við evru á ásættanlegu gengi við seðlabanka ESB, og / eða gefin út yfirlýsing um að ríkisstjórnin hefji strax aðildarviðræður við ESB, þá eru hér klár sóknarfæri til skjótrar leiðréttingar á skráningu gengisins. Þetta verður því að nýta vel og strax. Það ætti einnig að minnka á þrýsting gjaldeyrisútflæðis.
Hin leiðin er einhliða upptaka evru, sem virðist vel færi leið, þrátt fyrir áróður um annað.
Á meðan aðgerðir til leiðréttingar gengisskráningarinnar standa yfir verður ríkisstjórnin að verja hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, með því að hindra óhóflega skuldasöfnun vegna verðtryggingarinnar með öllum ráðum. Þetta skrípatól er heimatilbúinn fjandi sem var ætlað að verja hagsmuni sumra. Undanfarið hafa það verið bankarnir, en nú er það ríkissjóður ohf. Ef þyrnirósarsvefni hagsmunagæsluaðila fólksins í landinu fer ekki að ljúka, þá verður annað fólk að komast að stjórnborðinu. Þessi ríkisstjórn er með verðtryggingunni að byrja skulddreifingu útrásargosanna með því að hlaða hundruðum milljarða á herðar heimilanna í landinu, áður enn gripið verður til skattahækkana og niðurskurðar á þjónustu.
Það má engan tíma missa, Finnska leiðin einkenndist af ráða- og aðgerðarleysi í upphafi, því getum við ekki reynt að læra af þeim og sleppt þeim kafla, sem leiddi til svo gríðarlegs samdráttar.
Við þurfum aðgerðir strax.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2008 kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimilin og skuldirnar
6.11.2008 | 01:29
Í dag var fundur BSRB um heimilanna og skuldirnar. Þar komu fram ýmis atriði í vinnslu Félagsmálaráðuneytis, Íbúðalánasjóðs, LSR og Ráðgjafastofu heimilanna. Horfa má á fundinn hér og skoða glærur framsögumanna. Það er sorglegt að sjá að enn eru engin úrræði í sýn, heldur er hér verið að lýsa hvernig verður tekið á móti fólki þegar í þrot er komið. Fyrirspurnir leiddu þó margar til athyglisverðra svara, td hvort eðlilegra væri að miða við launavísitölu en neysluvísitölu í verðtryggðum lánum frekar enn að afnema verðtryggingu. Einnig eru í skoðun heimildir til að nota viðbótarlífeyrissparnað til að greiða niður höfuðstól lána, svo dæmi séu tekin.
Ég spurði Hauk Hafsteinsson framkvæmdastjóra LSR um tengsl lífeyrissjóðanna við lánshæfismat ríkissjóðs. Svarið var að aðalsparnaður landsmanna væri í lífeyrissjóðunum og góð staða þeirra hefðu jákvæð áhrif á lánshæfismat ríkisins. Að þessu gefnu undra ég ekki ábendingar IMF að eitt af úrræðum ríkisins gæti verið að yfirtaka lífeyrissjóðina til að mæta miklum útgjöldum ríkisins.
Ég spurði HH einnig um tengsl verðtryggingar við lífeyrissjóðina og þaðan við lánshæfismat ríkissjóðs, hvort lánshæfismat ríkissjóðs lækki ef verðtryggingin verði afnumin. Svarið var að stór hluti lífeyrissparnaðar er bundinn verðtryggðri ávöxtun, en hluti áhættumeiri ávöxtunarleiðum. Rýrni staða sjóðanna, þá lækki lánshæfismat ríkisins. Afnám verðtryggngar ætti almennt ekki að hafa áhrif á lánshæfismat ríkisins, nema ef staða lífeyrissjóðanna tekur að rýrna vegna afnámsins.
Af þessu gefnu hefur ríkið mikla hagsmuni af miklum langtímabundnum sparnaði og langtímabundnum húsnæðisskuldum, því bæði eru veðstólar sem virðast hafa bein áhrif á lánshæfismat ríkisins. Því eru það hagsmunir ríkisins eða bankanna að fólk sitji sem lengst við að greiða niður sínar húsnæðisskuldir. Í mikilli þenslu undanfarinna ára hefur veðstóllinn bólgnað hraustlega út og heimilin eru skuldum hlaðin.
Það getur ekki verið neins hagur að heimilin verði keyrð í þrot, því á því tapa allir, bæði heimilin, fyrirtækin, lífeyrissjóðirnir og ríkið, því allir tekjustofnar hrynja á meðan að félagslegar skyldur hins opinbera vaxa upp úr öllu valdi. Veðstólar hrynja og því verður mun erfiðara að ná í erlent fé inn í hagkerfið.
Því verður að grípa til aðgerða strax með öllum tiltækum ráðum. Lækka verður fjármagnskostnað fyrirtækjanna svo þau geti farið að snúa vörn í sókn, ekkert fyrirtæki er rekanlegt við núverandi vexti. Einnig verður að stöðva skuldasöfnun heimilanna svo þau geti metið stöðu sína betur til sóknar, með jákvæðum áhrifum á fyrirtækin. Ekkert heimili stenst þessa verðbólgu til lengdar. Sveitarfélög og ríki verða að leggjast á eitt með að keyra í gang framkvæmdir til að forða hruni í mannvirkjagerð, því ef sá geiri hrynur mun margt fylgja í kjölfarið.
Forsenda fyrir því að eitthvað breytist er að stýrivextir verði lækkaðir hraustlega strax. Verði það ekki gert strax, er ekki hægt að skilja annað en seðlabankinn ætli að keyra atvinnulífið í þrot. Hverra hagsmuna er þá verið að gæta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2008 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver er tilgangur stýrivaxtahækkunarinnar?
2.11.2008 | 17:48
Síðastliðinn þriðjudag, 28.10. hækkaði seðlabankinn stýrivexti sína úr 12 í 18%. Hvernig getur þessi aðgerð dregið úr verðbólgunni sem fer síhækkandi hérlendis og hvernig getur þessi aðgerð aukið stöðugleika í skráningu krónunnar?
Áhrif hækkunarinnar eru mun hærri fjármagnskostnaður fyrirtækjanna og skuldir heimilanna vaxa enn hraðar. Getur það komið fram í öðru en hærra verði á vörum og þjónustu fyrirtækjanna og hærri greiðslubyrði heimilanna, sem verður mætt með hærri launakröfum, sem aftur hækkar verð á vörum og þjónustu, möo. aukinni verðbólgu ofan á verðbólguþrýsting gengisfallsins? Áhrifin hljóta að koma fram í frekari samdrætti, með þeim afleiðingum að rekstrargrundvöllur innlendra fyrirtækja veikist enn frekar. Við erum háð miklum innflutningi, þar sem innlend framleiðsla framleiðir ekki nema brot af því sem við þurfum til daglegrar neyslu. Mikill samdráttur og síversnandi rekstrarhorfur eru nú að koma fram í fjöldauppsögnum í flestum atvinnugreinum, þar sem rekstrarforsendur fjölda fyrirtækja eru brostnar, eða eru að bresta.
Hvernig á það ástand að auka eða bæta stöðugleika á skráningu krónunnar? Hversu lengi getur atvinnulífið búið við þessi kjör? Hvort ætlar ríkið að drepa niður eða skapa viðunandi skilyrði til uppbyggingar atvinnulífsins í landinu?
Nú fer kælingin að breytast í alkul í byggingargeiranum. Þetta á ekki eingöngu við um verktakageirann, heldur alla þá sem koma að mannvirkjagerð í landinu, en sú grein hefur verið kjölfestugrein í verðmætasköpun landsins. Fjöldauppsagnir eru nú borðleggjandi úr öllum stigum mannvirkjageirans og búist er við að um 60-80% mannvirkjahönnuða verði á uppsagnarfresti um áramótin auk þúsunda iðnaðarmanna innan verktakageirans. Þarna erum við að tala um arkitekta, verkfræðinga, byggingarfræðinga, tæknifræðinga, innanhússhönnuði, landslagsarkitekta, auk allra greina iðnaðarmanna. Ef kælingin verður of mikil er stórhætta á að þessar stéttir streymi úr landi, háskólamenntaður mannauður með gríðarlega verk- og tækniþekkingu. Fyrirtækin sem hafa byggst upp í kringum mannvirkjahönnun undanfarin ár búa nú yfir gríðarlegri þekkingu, sem er við að glatast, þar sem ekkert annað en upplausn býður flestra fyrirtækja í þessum geira, sérstaklega hönnunarsviðunum. Gríðarlegt tjón er í uppsiglingu, ef ekki verður brugðist við strax er stórhætta á að þúsundir sérfræðinga og háskólamenntaðra úr þessum greinum fari úr landi, fyrirtækin liðist í sundur með óbætanlegum mannauðsskaða fyrir greinarnar og samfélagið allt. Ef það er látið gerast mun taka langan tíma að byggja upp það sem tapast, amk. 4-8 ár.
Tíminn er naumur, ef forsendur hafa ekki skýrst fyrir áramót mun stjórnlaust hrun blasa við, þar sem stór hluti verslunar og þjónustu er mjög háður þessum greinum. Landflótti mun leiða af sér mikið verðfall fasteigna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. ASÍ segir ma. að staðan hafi ekki verið alvarlegri síðan í móðuharðindunum. Ef verðmætin sem fólgin eru í mannvirkjum eru látin falla í virði, rýrnar einnig sá veðstóll sem veitir aðgang að erlendu lánsfé, sem er nauðsynlegt til innspýtingar og enduruppbyggingar hagkerfisins.
Því er mjög brýnt að yfirvöld ákveði sig strax hvort þau ætli að kæla hagkerfið enn frekar eða fara að sýna viðleitni til björgunar, með því að skapa skilyrði sem gerir fyrirtækjunum kleift að snúa vörn í sókn. Þetta hangir allt saman og samdráttur eins þýðir samdráttur annars. Ef fyrirtækin komast í þrot missir fólk vinnuna og ef fólk missir vinnuna komast fyrirtækin í þrot, þar sem öll velta snar minnkar. Ef það gerist býða sveitarstjórnirnar mikið tjón og veltutekjur ríkisins minnka verulega. Bætir það stöðu ríkisins eða skráningu gjaldeyrisins á einhvern hátt?
Ríkisstjórnin og seðlabankinn njóta ekki mikils lánstrausts erlendra aðila um þessar mundir og hafa því aftur og aftur fengið synjun á lánabeiðnum sínum, með þeim afleiðingum að verðgildi krónunnar er í sögulegri lægð. Atvinnulífið hefur einnig gefið sína einkunn á innlendu fjármálakerfi og efnahagsstjórn með því að færa viðskipti sín og fjármögnun í æ meiri mæli yfir í erlendar myntir. Erlendir aðilar, bæði forstöðumenn banka, háskóla og fjölmiðlar fella nú hver á eftir öðrum falleinkunnardóm á seðlabankann. Það er vægast sagt óvenjulegt að erlendir aðilar felli svo bera og óvægna dóma um hagstjórn annarra landa. Er einhver von á að við öðlumst lánstraust í alþjóðasamfélaginu með núverandi stjórn í seðlabankanum? Er einhver von að við öðlumst traust alþjóðasamfélagsins með þessa efnahagsstjórn og gjaldmiðil? Á meðan að seðlabankinn vill draga úr allri veltu með hækkun stýrivaxta lækka flestir aðrir seðlabankar sína stýrivexti til að örva atvinnulífið í sínum löndum. Það er ekki annað að sjá á þessum aðgerðum að menn viti ekki hvað þeir vilji og skilaboðin til þjóðarinnar eru vægast sagt óskýr. Á meðan að aðilar vinnumarkaðarins eru á aðra höndina hvattir til að leita leiða til aðhalds en samtímis sóknar til eflingar atvinnulífsins vill seðlabankinn meiri kælingu. Er þetta trúverðugt? Getur einhver skilið tilgang þessarar stýrivaxtahækkunnar?
Tíminn er stór þáttur í þessu ástandi og á meðan skilaboð um skýra stefnu og aðgerðir til varnar atvinnulífinu í landinu skortir, brenna verðmæti á öllum vígstöðvum í ljósum logum. Það er alveg ljóst hverjir komu þjóðinni í þessi vandræði og nú er spurning hve lengi þeir ætla að halda því áfram? Hve lengi hefur þjóðin efni á því?
Ef atvinnulífið á ekki að lenda í stórkostlegum vandræðum innan mjög skamms tíma þarf að lækka stýrivexti strax, afnema verðtrygginuna og hefja markvissa innspýtingu í atvinnulífið, sérstaklega gjaldeyrismyndandi atvinnugreinar, mannvirkjagerð, menntakerfið, menningargeirann og sprotafyrirtæki.
Verðtryggingin og lífeyrissjóðirnir
1.11.2008 | 00:48
Nú virðist veturinn vera að skella á í efnahagslífinu. Á meðan að tekjuhlið heimilanna í landinu fer almennt rýrnandi, sér verðtryggingin til að skuldahliðin þenst stanslaust út. Nýlega kom fram að heimilin í landinu skulda 1750 milljarða í húsnæðislán og 75% þeirra eru verðtryggð. Fá ráð virðast í boði meðan stjórnvöld boða ekkert annað en að taka vel á móti þeim sem lenda í hremmingum. Miðað við árferðið stefnir þó því miður í að þeim sem þangað rata, muni fjölga mjög á næstunni, þökk sé verðtryggingunni. Verðtryggðar skuldir heimilanna munu því aukast um ca 265 milljarða vegna vaxta og verðbóta á árinu.
Verðtryggingin er eitt af því sem mér er mikið í mun að fá aflétt. Ráðamenn taka þeim hugmyndum fálega og bera fyrir sig að á henni hangi ávöxtunartrygging lífeyrissjóðanna. Því sé það glapræði að afnema hana. Engu að síður höfum við upplifað í þó nokkur skipti á undanförnum árum að lífeyrissjóðirnir hafa boðað niðurskurð á lífeyrisgreiðslum, nú síðast þegar bankarnir fóru í þrot. Hvar er þá verðtryggingin fyrir lífeyrisþeganna?
Það er engin ný sannindi að bankarnir hafa notað verðtryggðar húsnæðisskuldir sem veðstól til útrásarinnar, því eigið fé áttu þeir svo til ekkert. Í því sjónarmiði var þeim mikill akkur í að gera sem mest úr þeim veðstól og þegar þeir á annað borð voru búnir að taka sér stöðu á húsnæðismarkaði var næsta skref að blása út veðstólinn og það gerðu þeir með öllum tiltækum ráðum. Bankarnir sóttu sér líka veðstóla í lífeyrissjóðna með því að fara inn á lífeyrismarkaðinn sem vörsluaðilar viðbótarlífeyrissparnaðar og þegar þeir fengu breytt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna þannig að þeim var heimilað að fjárfesta í meiri mæli í innlendri fjármálastarfsemi. Við hlutafjárútboð komu lífeyrissjóðirnir inn sem kjölfestufjárfestar og þann veðstól nýttu bankarnir svo sannarlega í útrásinni. Þegar í lausafjárkrísuna var komið fyrir um 14 mánuðum hættu þeir að lána út á innanlandsmarkað og sátu á sínu lausafé sjálfir. Þegar að stöðutökum kom felldu þeir svo gengið til að fá hærri eignastöðu erlendis, sem einnig kynnti hraustlega undir verðbólgunni og þannig innlendum veðstól bankanna. Við hækkandi stýrivexti hvöttu þeir svo til sparnaðar og fjárfestinga í sjóðum, sem frægt er orðið. Tilgangurinn var að auka framvísanlegt lausafé í formi innlána. Í þessu ástandi kom skýrt fram að bankarnir höfðu beinan hag af því að kynda undir verðbólguna og stærð þeirra gerði sífelldar stýrivaxtahækkanir seðlabankans bitlausar. Bankarnir notuðu verðtrygginguna beint sér til framdráttar í stöðutökum erlendra matsfyrirtækja. Því miður er ekki annað að sjá en hagsmunir bankanna og ríkissjóðs hafi farið að mestu mjög vel saman, því á þessum tíma þandist ríkissjóður út á meðan að heimilin, fyrirtækin og sveitarfélögin urðu sífellt skuldugri.
Það er þó alveg ljóst að stjórnvöld sköpuðu þetta umhverfi fyrir bankana, studdu þá til vaxtar og greiddu götu þeirra bæði hérlendis og erlendis.
Nú þegar ríkið er að reyna að sjá til lands í rústabjörguninni eftir fall bankanna hefur hlutverk lífeyrissjóðanna tekið á sig aðra mynd en flestir þekkja, sem varaskeifa ríkissjóðs. Það vakti furðu mína að heyra tillögur IMF að einn af kostum ríkissjóðs væri að yfirtaka lífeyrissjóðina og undir það sjónarmið hafa sumir hagfræðingar einnig tekið. Getur verið að verðtryggingin hangi á lánshæfismati ríkissjóðs og lánum seðlabankans? Getur verið að lífeyrissjóðirnir séu virkilega varasjóður ríkisins?
Ég spyr hvers vegna getum við ekki afnumið þetta skelfilega fyrirbæri, verðtrygginguna, sem er að gera út af við heimilin í landinu? Sjá menn virkilega ekki að nærri öll sveitarfélögin, flest stærri fyrirtækin og sífellt fleiri heimili hafna innlenda bankakerfinu, hafa hreinlega ekki efni á því og leita því í erlend lán, vegna verðtryggingarinnar?
Með sama hætti og bankarnir áður notar nú ríkið heimilin í landinu sem veðstól og ljóst er að þörfin fyrir veð er mikil í þessu ástandi. Því er ljóst að því stærri sem veðstóllinn er því hærri lán getur ríkið tekið. Mér þykir þó alls ólíðandi að heimilunum í landinu skuli endalaust sendur reikningurinn í gegnum verðtryggð húsnæðislán og fyrir neðan allar hellur að lífeyrissjóðirnir séu skilgreindir sem varaskeifa ríkissjóðs. Lífeyrissjóðirnir hafa rýrnað þó nokkuð við fall bankanna og af umræðunni að dæma um raunhlutverk sjóðanna má velta fyrir sér hvort þeir verði virkilega til staðar fyrir okkur þegar við hyggjumst nota þá til lífeyristöku.
Margt hefur boðið skipbrot í þessum efnahagsumhleypingum. Trú almennings á stjórnmálamenn fer mjög ört dvínandi og trúin á hæfileika þeirra til að stýra efnahagsmálunum er svo til horfin. Sí háværari krafa um upptöku evru er ekkert annað en rauða spjaldið á efnahagstjórnina, verðtrygginguna og endalaust hringl á skráningu gjaldmiðilsins. Þó það sé dýrt, virðist þjóðinni það mikið misboðið að krafan á upptöku evru hækkar stöðugt.
Ef verðtryggingin verður ekki afnumin strax bíður okkar ekkert annað en gengisfelling beint í þau sár sem nú skapast, því í verðtryggingunni er gríðarlegur verðbólguhvati. Ef verðtryggingin verður ekki afnumin strax munu skuldir heimila og fyrirtækja hlaðast upp og hamla þeirri innspýtingu sem hagkerfið þarf á að halda til uppbyggingar. Ef beðið er of lengi verða afleiðngarnar sennilega stjórnlaust hrun efnahagslífsins næstu árin. Fordæmi Norðmanna, Svía og Finna hljóða upp á 5 ára hruntíma.
Hvað getum við almennir borgarar þá gert? Ég kýs að láta skoðun mína í ljós og hef fylgt henni eftir með því að hætta að greiða í viðbótarlífeyrissjóð. Féð ætla ég að nota frekar til að greiða inn á höfiðstólinn á verðtryggðu húsnæðislánunum mínum. Með þeim hætti get ég greitt höfuðstólinn niður 6 sinnum hraðar enn ella.
Ég tel þó afar brýnt að við tökum upp alvarlegar umræður um afnám verðtryggingarinnar sem allra fyrst, áður en hún helfrystir heimilin og fyrirtækin í landinu.