Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hið besta mál

Það er vissulega þörf á að fjölga stoðum atvinnulífsins á landinu, sérstaklega ef þær flokkast gjaldeyrisskapandi.  Þegar í ofanálag um er að ræða eldsneytisframleiðslu á bíla og skipaflotan með nýtingu á (CO2) útblæstri sem verður til við framleiðslu málma, ss áls og kísiljárns, sem þegar eru í framleiðslu hér er virknin þreföld.  Gjaldeyrismyndandi stoðum atvinnulífsins fjölgar, minni CO2 útblástur og eldsneyti verður innlend framleiðsla, sem gæti dregið verulega úr innflutningi eldsneytis, ef vel tækist til.

Er þetta þá ekki hið besta mál?

 


Hvað segja talsmenn neytenda um verðtryggðu lánin?

Á vefsíðu talsmanns neytenda er að finna leiðarkerfi neytenda.  Þar má finna þennan texta:

Óréttmætir skilmálar og ógilding samnings

Ógilding samnings

Í vissum tilvikum er hægt að ógilda samninga eða víkja þeim til hliðar þeim að hluta eða öllu leyti, til dæmis ef:

  • samningsskilmálar eru óréttmætir, s.s. þegar samningurinn er bersýnilega óhagkvæmur, ósanngjarn gagnvart neytenda eða raskar til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag,
  • neytandi er bundinn við samninginn óeðlilega lengi eða uppsögn ótímabundins samnings er gerð óeðlilega erfið,
  • samningi er komið á með því að annar aðilinn er neyddur til þess,
  • svik hafa verið viðhöfð, eða bágindi, einfeldni eða fákunnátta annars manns hefur verið notuð til að koma á samningi eða
  • það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig.

Ekki er hægt að víkja samningi til hliðar einhliða, heldur verður að semja um það eða leita aðstoðar úrskurðarnefndar eða dómstóla til að fá samningnum hnekkt.

Óréttmætir samningsskilmálar  

Gefin hefur verið út leiðbeinandi skrá um óréttmæta samningsskilmála sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Skráin er aðeins leiðbeinandi en ekki tæmandi talning á þeim atriðum sem geta valdið því að samningsskilmálar séu óréttmætir.

Ef samningsskilmálar eru óréttmætir er í vissum tilvikum hægt að ógilda samninga eða víkja þeim til hliðar. Ekki er hægt að víkja samningi til hliðar einhliða, heldur verður að semja um það, eða leita aðstoðar úrskurðarnefndar eða dómstóla til að fá samningnum breytt eða hnekkt.

Það er ljóst að sl. 15 mánuði höfðu  bankarnir beinan hag af því að kynda undir verðbólgu með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal að fella gengið til að auka á bókfærðar eigur sínar í ársfjórðungsuppgjörum.  Í hruni verðbréfamarkaða hafa mörg fyrirtæki sogast í kjölfarið og eftir standa uppskrúfaðar skuldir heimilanna, bundnar verðtryggðum lánum.  Verðbólga er í raun engin en í kjölfar gríðarlegs gengisfalls skrúfast húsnæðislánin upp úr öllu samhengi, í stærðargráðunni um 500 milljarðar á árunum 2008 og 2009 ef fer sem horfir.  Er forsvaranlegt að beyta verðtryggingu í óbreyttri mynd í slíku ástandi???

Hvað segir talsmaður neytenda og neytendasamtökin??


Erlendir bankar til starfa hérlendis, lykilatriði í að endurskapa traust

Þeir eru sennilega fáir sem bera eitthvert traust til innlendra banka í dag og ef landsmenn hefðu þess kost væru þeir sennilega búnir að færa viðskipti sín annað.  Slæmt gengi er sennilega einna helsta bremsa stórkostlegs flutnings fjármagns til "traustari" viðskiptabanka.  Þegar erlendir bankar taka að starfa hér og bjóða húsnæðislán, á sambærilegum kjörum og tíðskast í þeirra heimalöndum munu íbúðarlán hverfa úr íslensku bönkunum, nema þeir taki að bjóða sanngjarnari kjör.

Þetta eru góðar fréttir og huggun harmi gegn að nú virðast ráðamenn að vera að taka upp þráðinn frá fyrri tilraun einkavæðingar bankanna.  Vonandi að þeir sendi ekki ráðgjafana aftur heim eftir fyrsta fund.  Það er lykilatriði að skapa heimilunum og fyrirtækjunum í landinu sanngjarnan bakhjarl (ekki samkeppnisaðila), sem meðhöndlar viðskiptavini sína sem viðskiptavini, en ekki búpening.  Við þessa breytingu ætti að styttast í að verðtrygging húsnæðislána verði lögð niður og þar með grundvallar verðbólguhvati hagkerfisins.  


mbl.is Rétt að skoða aðkomu útlendinga að bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í 40 ár var þjóðinni kennt kerfisbundið að eyða og sólunda

Þetta sagði Pétur Blöndal á fundi um kosti og galla verðtryggingarinnar í kvöld.  Þarna er Pétur að vísa til áranna 1940-1980, þegar innlánsvextir, ákveðnir af Seðlabanka voru ætíð lægri en verðbólga.  "Sparifjáreigendur voru rændir en skuldurum var hyglað.  Þeir græddu mest sem fengu mestu lánin.  Eftirspurn eftir lánum var takmarkalaus og biðstofur bankastjóra troðfullar.  Lífið varð "lán" = hamingja."  "Þjóðin hefur enn ekki gleymt þessari kennslu", sagði Pétur.  Þannig var ástandið þar til verðtryggingin var tekin upp.  Hér má sjá fundinn í heild sinni og glærur framsögumanna. 

Er furða að sitthvað hafi farið úrskeiðis undanfarin ár? 

Verðbólgumælingar byggja á meðal neyslukörfu síðustu 3 ára og eru því algjörlega úr takti við núverandi ástand, enda hefur neyslumynstur gerbreyst á örfáum árum.  Neysluvísitala er því ónýtt tæki til að taka á núverandi ástandi og eingöngu til þess fallið að fela eignatilfærslu frá heimilum til lánastofnana.

Vísitölubundin lán eru mun dýrari en óbundin lán þegar heildarkostnaður er skoðaður.   Eignamyndun er mun hægari á vísitölubundnum lánum.  Vísitölubundin lá bera þó léttari afborganir.  Ef íbúðarlán hefðu almennt verið óbundin hefði alls ekki verið hægt fyrir bankakerfið að þenja hagkerfið út með þeim hætti sem þeir gerðu og líklega hefði vandinn sem þeir sköpuðu með þennslunni verið mun minni í sniðum.

Flestir eru farnir að sjá þetta.  Þó telja menn ekki rétt að afnema verðtrygginguna við núverandi aðstæður, því þá rýrni eignarhlutur lánveitenda.  Því ætla ráðamenn að halda í verðtrygginguna svo lengi sem kostur er og varpa þannig gríðarlegri skuldabyrði á heimilin í landinu.  Þetta verður að stöðva strax.


Erlendir ferðamenn hækka húsnæðisskuldir heimilanna

Atvinnulausum fjölgar stöðugt og eru nú komnir í 6.148 manns.  Velta á markaði hefur snardregist saman en samt "mælist" hér verðbólga upp á um 16% og verðtryggðar skuldir heimilanna þenjast út með ógnarhraða, eða þegar um rúma 200 milljarða á fyrri helmingi þessa árs.  Neysla landsmanna hefur dregist svo skarpt saman að kaupmenn hafa aldrei upplifað annað eins.  Samt mælist hér verðbólga vegna gengisfallsins.

Aðilar í ferðaþjónustu, veitingahúsarekstri, verslun og þjónustu reyna nú að snúa vörn í sókn og markaðsátak er hafið erlendis til að fá erlenda ferðamenn hingað.  Það ætti að vera jákvætt, ætti að skila gjaldeyri inn í samfélagið og því að vera mjög jákvætt.

En vegna gengisfallsins og verðtryggingarinnar veldur þessi aukna velta mikilli "mældri" verðbólgu og mun því senda skuldugum heimilum landsins feitan bakreikning í formi hækkunar á neysluvísitölu og þannig enn hærri skulda.  Ef ekkert verður að gert munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um tæpa 300 milljarða á næsta ári.  Er einhver glóra í þessu??

"Björgunarpakki" ríkisstjórnarinnar fyrir heimilin er metinn á um 2,4 milljarða og þar er inni endurgreiðsla á innflutningsgjöldum bíla, sem nú er verið að flytja úr landi.  Hversu lengi á maður að þola svona glórulausan áróður, hvaða björgunaraðgerðir eru þetta?  Það á að reyna að fá fólk til að trúa því að þeir sem hafa klúðrað málum algerlega gagnvart þjóð sinni og komið atvinnulífinu og heimilunum í stórkostleg fjárhagsleg vandræði séu að koma fólki til bjargar.  Þvílíkt rugl.  Allar aðgerðir snúa nú að ríkissjóði og bankakerfinu!  Engum orðum er eytt í atvinnulífið eða heimilin í landinu!! 

Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki styggja sína dyggu og trúföstu stuðningsmenn innan verslunar og þjónustu, jafnvel þótt þeir stuðli að botnlausu gjaldeyrisútflæði.  Það veldur hins vegar miklum vonbrigðum að Samfylkingarfólk standi ekki betur með fólkinu í landinu.

Heimilin í landinu eru nú um 125.000, fjöldi vinnandi fólks á atvinnumarkaði telst nú um 180.000 manns, en skattgreiðendur voru um 175.000 árið 2007.  Um 75% heimilanna í landinu skulda alls um 1.750 milljarða og þar af eru um 75% verðtryggð lán.  Hækkun skulda þessa hóps verður um 300 milljarðar vegna húsnæðisskulda 2009.  Þessi hópur tekur einnig á sig verulega eignarýrnun og væntanlega skattahækkanir eins og aðrir.  Sem stærðarviðmiðun þá hefur Seðlabankinn tilkynnt að búist sé við um 82 milljarða samdrætti á tekjum ríkissjóðs 2009!  Kostnaði af afglöpum stjórnmála- og bankamanna verður að dreifa með jafnari hætti.

Það verður að grípa til aðgerða strax til að forða þessari ranglátu skuldsetningu heimilanna, því hún gengur ekki til baka heldur mun íþyngja heimilunum til lokagreiðslu.  Heimilin eiga ekki að greiða refsigjald fyrir sjálfsbjargarviðleitni atvinnuvega sem geta aukið á tekjur sínar í gegnum erlenda ferðamenn.  Það er út í hött.

Setjum þak á vexti verðtryggðra lána strax, áður enn krónan verður sett á flot.  Óbilgjörn eignatilfærsla getur hæglega snúist í andstæðu sína ef skuldsett heimilin hreinlega neita að greiða þessa reikninga og hætta að greiða af lánunum.  Sú hætta er raunveruleg!


Heimsmet í ferðalögum erlendis

Í umræðum undanfarinna vikna hafa menn leitað að blórabögglum ófaranna.  Bankarnir benda á almenning, sem bendir á bankana og stjórnvöld, sem benda á fjármálaeftirlitið og seðlabankann, sem benda á stjórnvöld, bankana og almenning.

Þó er ljóst að stjórnvöld einkavæddu bankana og settu rammann í kringum starfsemi þeirra, breyttu lögum, lögðu niður stofnanir, opnuðu þeim tekjulindir, beindu í gegnum þá fjárstreymi, studdu þá og greiddu götu þeirra bæði hérlendis og erlendis.  

Bankarnir hömuðust við að skuldsetja almenning, sendu fermingarbörnum og unglingum debet- og kreditkort, hömuðust við að bjóða 100% lán til allra hluta ss fasteignakaupa, bílakaupa, tölvukaupa, sumarhúsakaupa, hlutabréfakaupa og svo mætti lengi telja.  Þeir höfðu beinan hag af verðbólgunni þar sem verðbólgan var beinn vaxtaauki, álag ofan á nafnvexti lána og þannig margfölduðu þeir vaxtaágóðann miðað við þau kjör sem bankinn hafði fengið lánið á.  Þegar þeir voru búnir að festa fólk kirfilega í verðtryggðum lánum hófust þeir handa við að skrúfa upp verðbólguna til að auka "afköst fjárfestinga sinna".  Með beinni samkeppni við verktaka um kaup á landi margfölduðu þeir verð á lóðum, sem ýtti boltanum af stað á fasteignamarkaði.  Með háum launum sýndu bankamenn að laun annarra stétta voru misskilningur.  Með rausnarlegum starfsmannakjörum sýndu þeir launafólki að kjör annarra starfsgreina voru nánasarleg.  Með aðbúnaði í formi sýnilegra hlunninda og "vinnutengdum" ferðum erlendis eða í ævintýralegu umhverfi veiðiáa, sýndu þeir bæði viðskiptavinum og starfsfólki við hverja það "borgaði sig" að skipta og í hvaða liði "borgaði sig" að vera.

Það var ekki að sökum að spyrja.  Aðrar greinar tóku upp fordæmi bankanna til að standast samkeppni um starfsfólk og launaskriðið fór af stað.  Áætlun bankanna var að ganga eftir, sem og ríkisins, því bæði bankar og ríkissjóður þrútnuðu hressilega, á meðan að skuldir heimilanna ruku upp.

Einn af þeim þáttum sem urðu næstum hversdagslegir á þessu tímabili voru erlend ferðalög.  Í morgunútvarpi RÚV í morgun greindi Jón Karl Ólafsson forstjóri Jet Primera Air frá því að Íslendingar ættu heimsmet í ferðalögum erlendis og að árið 2007 hefði ferðatíðnin verið slík að hver landsmaður hefði farið í 4,8 ferðir til útlanda og er þá um allar ferðir að ræða.  Íslendingar gistu yfir 100.000 gistinætur í Kaupmannahöfn einni árið 2007 og stóðu á bak við 20% af endurgreiðslu skatta á Kastrup flugvelli.  Fólk var mikið að fara í helgarferðir, golfferðir, skreppa á fótboltaleiki, formúluna, viðskiptaferðir, matarferðir, vínsmökkunarferðir og svo mætti lengi telja.  Jón Karl sagði að þegar fólk hefði verið að meta hvort það ætti frekar að fara út að borða í miðborginni eða td í Köben, þá hefði Köben ansi oft orðið ofan á.  Á seinni hluta 2007 var svo ferðum til fjarlægari staða farið að fjölga mjög, líka skreppitúrum til USA og jafnvel Kína.

Af þessum tölum að dæma má ætla að flestir kannst við sjálfan sig í þessu samhengi, þó svo ferðirnar séu mismargar.  Margir töldu sig eiga þessa tilbreytingu fyllilega skilið og sendu innlendum kaupmönnum oft fingurinn með því að versla duglega, auðvitað að mestu leiti á VISA eða EURO.

Nú er gjaldeyrisskortur mikill í landinu og mikill samdráttur í innlendri verslun og þjónustu.  Ef við gefum okkur að verslun á bak við hverja ferð hafi verið 100.000 kr. er ígildi neysluhluta erlendra ferðalaga 144 milljarðar, gjaldeyrir úr landi.  Ef ferðir og gisting eru 50.000 pr. ferð er heildarkostnaðurinn um 216 milljarðar kr.  Til samanburðar voru tekjur af 374.000 erlendum ferðamönnum hérlendis 2005 um 40 milljarðar.

Aðilar í ferðaþjónustu telja þennan samdrátt bara tímabundinn og innan skamms muni hann vera kominn í fyrra horf.

Ég vona þó innilega að okkur takist að læra eitthvað af mistökunum og temja okkur meiri varkárni áður enn kortið er straujað.   Hlutur almennings í þenslunni er vissulega stór, því ef ekki væri gapandi markaður fyrir útlánsfé hefðu bankarnir ekki tútnað svona út.  Því ættum við almenningur að vera meðvituðri um hvernig við verjum "okkar" fé.

Af vef Ferðamálastofu má sjá að hlutfall erlendra ferðamanna í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku er á bilinu 20-40% og þá hæst í Danmörku.  Hér á landi er hlutfall erlendra ferðamanna hins vegar tæplega 70%.  Það er athyglisvert að öll þessi lönd hafa gengið í gegnum miklar þrengingar og stór hluti endurbata í þeirra uppbyggingu var að hlúa að innlendri atvinnustarfsemi og nýta innlenda ferðamöguleika.

Í því ljósi að í hvert sinn sem við kaupum vörur og þjónustu erum við að taka pólitíska afstöðu, byggja eitthvað upp á einhverjum stað.  Nýtum þann styrk og tækifæri vel til að byggja upp innlenda atvinnustarfsemi og beinum sjónum okkar að eigin landi, það hefur vissulega upp á margt að bjóða. Við hljótum að endurmeta þessa hluti í ljósi þeirrar áróðursfyrringar sem hefur kollsteypt efnahagskerfi þjóðarinnar.


Borgarafundur á NASA

Sneisafullur salur - lesið fundargerð hér af vefmiðlinum Nei. um gagnrýni á fjölmiðla.

Hluti róta vandans liggur í málhöftum, ritstýringu og pólitísku háði á gagnrýnar skoðanir aðila sem ekki hafa fallið að sýn og áherslum ráðamanna, sem ruddu ljónum úr vegi bankamanna.


Mannvirkjagerð í þjóðarbúskapnum

Árið 2004 störfuðu 11.500 manns mannvirkjagerð, eða 7,4% vinnuaflsins.  Framleiðnin 2004 var um 30% af fjármunamyndun ársins, um 38,6 Ma.kr.  Árið 2007 unnu um 15.700 manns í sama geira, eða 8,8% vinnuaflsins, með framleiðnihlutdeild fjármunamyndunar upp á 21% af fjármunamyndun allra atvinnuvega í landinu, um 45,7 Ma.kr.  Velta geirans hefur verið um 120-140 Ma.kr./ ári en 2006-7 hefur veltan aukist upp í um 200 Ma.kr / ári.

Um 10% starfa eru nú í mannvirkjahönnun eða um 1500 manns, sem skiptist til helminga á arkitekta- og verkfræðistofur.   Þessir starfsmenn eru allir háskólamenntaðir, flestir menntaðir erlendis og hafa margir einnig starfsreynslu erlendis frá, talandi á mörgum málum og með mikið alþjóðlegt tengslanet.   Í framleiðsluhluta geirans starfa bæði háskólamenntaðir, iðnmenntaðir, iðnmeistarar og verkamenn.  Erlendir starfsmenn í mannvirkjagerð hafa aðallega starfað í framleiðsluhlutanum.

Í mannvirkjahönnun starfa nú um 700 manns inni á arkitektastofum og annað eins á verkfræðistofum.  Áætluð velta á mann er um 1 milljón á starfsmann á mánuði, alls um 16,8 milljarðar á ári.  Vegna þrenginga í hagkerfinu er nú búist við um  50-70% uppsögnum í hönnunarsviði mannvirkjagerðar.  Verst mun samdrátturinn koma við arkitektastofurnar, þar sem búist er við 70-90% atvinnuleysi um næstu áramót ef ekkert verður að gert.  Við það munu svo til allar arkitektastofurnar liðast sundur og mikið uppbyggingar- og gæðastarf undanfarinna ára glatast.  Bæði arkitekta- og verkfræðistofur hafa verið að innleiða alþjóðleg gæðavottunarkerfi í langan tíma, til að geta tekist á við stór og alþjóðleg verkefni.  Á því sviði hefur mannauðsuppbyggingin verið lykilatriði.  Þetta mun allt glatast ef ekki verður brugðist við strax og mikil hætta er á stórkostlegum landflótta.  Langan tíma mun taka að byggja upp stofurnar á nýjan leik, ef þær liðast í sundur. 

Vegna "hreðjataks" Seðlabankans á almennum markaði í formi hárra stýrivaxta og ríkisstjórnarinnar með því að vera ekki búin að setja þak á áhrif verðbólgu á stórkostlega skuldayfirfærslu á heimilin í landinu, er almennur markaður gegnfrosinn.  Í því ljósi má búast við að innan mjög skamms muni um 6-10.000 manns innan þessa geira missa vinnuna, eða um 40-60%.

Fyrir utan beinar afleiðingar á þetta starfsfólk og þeirra fjölskyldur munu afleiðingarnar verða gríðarlegur samdráttur annarra greina í samfélaginu, með tilheyrandi hruni og enn neikvæðari áhrifum á fasteignaverð og þar með fjármálakerfið og afkomu hins opinbera.  Ónefnt er það menningarlega og samfélagslega tjón ef þessi hópur flosnar upp og yfirgefur landið.

Því verður að leggja allt kapp á að mannvirkjagerð í landinu stöðvist ekki og að þeir sem missa vinnu sína við mannvirkjahönnun verði strax fengin krefjandi verkefni til undirbúnings eflingar annarra atvinnuvega sem tengjast mannvirkjahönnun ss. ferðaþjónustunnar, til undirbúnings nýs uppbyggingartímabils með endurskoðun lagaumhverfis, aðgerðir til lækkunar byggingarkostnaðar, nýsköpunar og eflingar innlends iðnaðar á sviði mannvirkjagerðar. 


Skattur á lífeyri og fjármagn

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá að samanlagður viðbótarlífeyrir landsmanna sé um 300 Ma.kr.   Algengt er að hver fjölskylda eigi um 2-3 milljónir í þessum sparnaði að meðaltali.  Nefnd á vegum félagsmálaráðherra hefur verið að skoða hvort heimila eigi úttekt þessara sjóða, svo heimilin geti mætt þrúgandi skuldastöðu.  Þessir sjóðir geti skilið milli feigs og ófeigs í þeim málum.

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks segir ákvæði í lögum sjóðanna heimila slíkar úttektir vegna verulegra áfalla og breytinga á högum.  Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, er ekki hrifinn af hugmyndinni og telur að leita eigi allra annarra leiða.  Hann bendir á að komi til útgreiðslu séreignarlífeyris verði tekinn fullur skattur af upphæðinni.

Þarna vil ég staldra við.  Grunnhugmyndin finnst mér mjög góð, að veita almenningi þann kost, ef hann kýs það sjálfur, að nýta sér þessa leið til að greiða niður síhækkandi húsnæðisskuldir með þessum sjóði.  Þessi hluti lífeyrissjóðakerfisins er skýrt afmarkaður frá almenna skylduhlutanum og því styð ég þessa hugmynd.

Þá kemur að skattahlutanum.  Nú er það þannig að launþegar og vinnuveitendur þeirra greiða mánaðarlega inn í lífeyrissjóð launþegans, skv. ákvæðum laga eða kjarasamninga.  Þessi hluti er höfuðstólsinngreiðsla og er skattlagningu hans frestað til úttektar, þe 35,72% tekjuskatti.  Inngreiðslan safnar svo á sig vöxtum og verðbótum í tímans rás sem verða verulegur hluti heildarinneignar þegar kemur að útgreiðslu lífeyrisréttinda.  Almennt eru slíkar fjármagnstekjur skattlagðar með 10% fjármagnstekjuskatti.   Hvers vegna eru þá reiknaður flatur 35,72% skattur á lífeyri?

Bankarnir fengu breytt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna, gerðu þá að kjölfestufjárfestum í bönkunum og lánuðu svo 100% til hlutabréfakaupa, sem hefur nú komið í bakið á lífeyrssjóðunum í gríðarlegum afskriftum, sem rýra nú sjóði almennings.  Ríkið hefur eflt hlutdeild lífeyrissjóðanna jafnt og þétt allt einkavæðingartímabilið, með innleiðingu viðbótarlífeyris og með hækkun lífeyrishlutfalls launa.  Á sama tíma hefur skattaumhverfinu verið breytt til hvatningar á fjárfestingum í verð- og hlutabréfum.  Í þessu umhverfi hefur sífellt stærri hluti "fjárfesta" nýtt sér þessa tekjuleið og greiða einungis 10% fjármagnstekjuskatt.  Mikið kapp hefur verið lagt á að létta skattbyrði fjárfesta og stóreignamanna á meðan skattar á lífeyri og örorku eru landinu til háborinnar skammar.   Það er algerlega glórulaust að ríkið gangi þannig á persónubundinn sparnað almennings.  Endurskoða þarf skattlagningu lífeyris strax, áður enn að útgreiðslu séreignarlífeyris kemur!

Í því samhengi að allir þurfi að taka á sig ábyrgð og tel ég forgangsmál að endurskoða skattaumhverfið í heild, þannig að byrðinni verði deilt af meiri sanngirni á almenning og heimilin í landinu.


Björgunarpakki heimilanna?

Í gær kynnti ríkisstjórnin björgunarpakka heimilanna.  Lækkun á greiðslubyrði þýðir í raun frestun á 10% afborgana lánanna, á meðan að höfuðstóll lánanna hækkar.  Þannig eru heimilin ekki varin fyrir verðbólguskoti, heldur látin borga brúsann, bara síðar.  Önnur úrræði miðast að því að heimilin haldi áfram að greiða veisluna sama hvað.  Ekki verður séð á þessum pakka hvernig ríkisstjórnin ætlar að forða heimilunum frá því að þurfa að nýta sér kynnt neyðarúrræði. 

Það er þó ljóst að kynnt úrræði munu nýtast mörgum heimilum, sem eru þegar komin í vanda og ekki síður þeim sem eru eða munu lenda í vanda vegna ástandsins.  Með því að setja ekki þak á verðbólguáhrifin, td með því að frysta verðbólgu við efri þolmörk Seðlabanka, þe við 4%, er ríkið að setja alla ábyrgð og kostnað yfir á heimilin.  Það er óþolandi ranglátt! 

Það verður að setja mörk á ábyrgð heimilanna í þessu óveðri.  Bankarnir blésu út fasteignaverð með öllum tiltækum ráðum og það með fullu samþykki ríksistjórnarinnar.  Heimilin í landinu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu eru nú skuldum hlaðin vegna þessa, á meðan að ríkisstjórn kættist yfir að ríkssjóður væri orðinn svo til skuldlaus.  Með stærri veðstól í skuldum heimilanna voru svo keypt verðbréf sem hafa svo að miklu leiti reynst innistæðulausir pappírar.  Þessir pappírar eru nú afskrifaðir í stórum stíl, en skuldir heimilanna standa eftir.

Með því að setja ekki þak á verðtryggð lán heimilanna og með því að halda stýrivöxtum í þessum hæðum er ríkið enn að fyrra sig ábyrgð og velta henni alfarið yfir á heimilin.  Með þessum ákvörðunum er ríkið að verja sjálft sig og lífeyrissjóðina.  Hvenær og hvernig ætlar ríkisstjórnin að axla ábyrgð á því ástandi sem hún er búin að koma heimilum landsins í?

Þessu ber að mótmæla hart og verður að breyta strax! 

Sú verðbólga sem mælist í dag er gerfiverðbólga, ekki knúinn áfram af víxlhækkunarkapphlaupi verðlags og launa, heldur vegna þess að gjaldmiðillinn er verðlaus.  Það er bullandi samdráttur í öllu samfélaginu og sjaldan hafa jafn margir fengið uppsagnarbréf.  Með þessu stýrivaxtarstigi eru fyrirtækjunum sett afar erfið skilyrði til að bjarga sér sjálf og þar með sínu starfsfólki.  Öll átök til að auka tekjur koma hart niður á heimilunum vegna hækkunar á neysluvísitölu.  Ef td ferðaþjónustan og veitingabransinn nýttu sér lágt gengi og næðu í 5000 erlenda ferðamenn inn í vertíð jólahlaðborða, sem væri ákaflega jákvætt og gjaldeyrismyndandi, þá fá heimilin í landinu sendann aukareikning, vegna hækkunar neysluvísitölu.  Þetta er náttúrulega algerlega galið og óverjandi af yfirvöldum.

Ég bið því ráðamenn að axla raunverulega ábyrgð gagnvart heimilunum og setja þak á skuldaaukningu heimilanna.  Þessar skuldir þarf að greiða til baka og ef þessar skuldir fá að vaxa stjórnlaust, þó veittur sé frestur afborgana, og mun draga allan móð og þrótt úr hagkerfinu mörg komandi ár.  Óhóflega hækkaður höfuðstóll mun draga verulega úr þeirri innspýtingu sem hagkerfið þarf á að halda frá heimilunum í enduruppbyggingunni.  Í versta falli munu heimilin flytja sig í réttlátara umhverfi, td til hinna norðurlandanna, sem mun draga enn úr krafti uppbyggingarinnar, sem mun hefjast um leið og botni þessa hruns er náð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband