Skattur á lífeyri og fjármagn

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá að samanlagður viðbótarlífeyrir landsmanna sé um 300 Ma.kr.   Algengt er að hver fjölskylda eigi um 2-3 milljónir í þessum sparnaði að meðaltali.  Nefnd á vegum félagsmálaráðherra hefur verið að skoða hvort heimila eigi úttekt þessara sjóða, svo heimilin geti mætt þrúgandi skuldastöðu.  Þessir sjóðir geti skilið milli feigs og ófeigs í þeim málum.

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks segir ákvæði í lögum sjóðanna heimila slíkar úttektir vegna verulegra áfalla og breytinga á högum.  Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, er ekki hrifinn af hugmyndinni og telur að leita eigi allra annarra leiða.  Hann bendir á að komi til útgreiðslu séreignarlífeyris verði tekinn fullur skattur af upphæðinni.

Þarna vil ég staldra við.  Grunnhugmyndin finnst mér mjög góð, að veita almenningi þann kost, ef hann kýs það sjálfur, að nýta sér þessa leið til að greiða niður síhækkandi húsnæðisskuldir með þessum sjóði.  Þessi hluti lífeyrissjóðakerfisins er skýrt afmarkaður frá almenna skylduhlutanum og því styð ég þessa hugmynd.

Þá kemur að skattahlutanum.  Nú er það þannig að launþegar og vinnuveitendur þeirra greiða mánaðarlega inn í lífeyrissjóð launþegans, skv. ákvæðum laga eða kjarasamninga.  Þessi hluti er höfuðstólsinngreiðsla og er skattlagningu hans frestað til úttektar, þe 35,72% tekjuskatti.  Inngreiðslan safnar svo á sig vöxtum og verðbótum í tímans rás sem verða verulegur hluti heildarinneignar þegar kemur að útgreiðslu lífeyrisréttinda.  Almennt eru slíkar fjármagnstekjur skattlagðar með 10% fjármagnstekjuskatti.   Hvers vegna eru þá reiknaður flatur 35,72% skattur á lífeyri?

Bankarnir fengu breytt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna, gerðu þá að kjölfestufjárfestum í bönkunum og lánuðu svo 100% til hlutabréfakaupa, sem hefur nú komið í bakið á lífeyrssjóðunum í gríðarlegum afskriftum, sem rýra nú sjóði almennings.  Ríkið hefur eflt hlutdeild lífeyrissjóðanna jafnt og þétt allt einkavæðingartímabilið, með innleiðingu viðbótarlífeyris og með hækkun lífeyrishlutfalls launa.  Á sama tíma hefur skattaumhverfinu verið breytt til hvatningar á fjárfestingum í verð- og hlutabréfum.  Í þessu umhverfi hefur sífellt stærri hluti "fjárfesta" nýtt sér þessa tekjuleið og greiða einungis 10% fjármagnstekjuskatt.  Mikið kapp hefur verið lagt á að létta skattbyrði fjárfesta og stóreignamanna á meðan skattar á lífeyri og örorku eru landinu til háborinnar skammar.   Það er algerlega glórulaust að ríkið gangi þannig á persónubundinn sparnað almennings.  Endurskoða þarf skattlagningu lífeyris strax, áður enn að útgreiðslu séreignarlífeyris kemur!

Í því samhengi að allir þurfi að taka á sig ábyrgð og tel ég forgangsmál að endurskoða skattaumhverfið í heild, þannig að byrðinni verði deilt af meiri sanngirni á almenning og heimilin í landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband