ESB aðild - lykilatriði fyrir atvinnulíf landsins

Það vekur eftirtekt að um 75% fyrirtækja í landinu hafi ekki um árabil haft efni á að fjármagna sig hjá innlendum fjármálastofnunum og hafi því leitað í erlendar lántökur.  Viðskipti milli landa eru gríðarstór grundvallarþáttur í allri atvinnustarfsemi hérhlendis meira og minna í öllum greinum og þegar gengisáhættan er svo stór, kallar gengið á miklar álögur og verðhækkanir til að mæta þeirri áhættu.  Það leiðir til að framleiðslugreinar innanlands eiga erfiðara með að keppa við erlenda framleiðslu, bæði á innanlands og erlendum mörkuðum.  Það leiðir einnig af sér gríðarlegt gjaldeyristap vegna samkeppni í smásölu, sem kemur ma fram í heimsmeti í ferðalögum landsmanna til útlanda, en bæði ferðirnar og sú verslun sem þar á sér stað er beinn gjaldeyrisútflutningur og vegur beint gegn innlendri framleiðslu og atvinnustarfsemi.  Þessu þarf að breyta með öllum ráðum og það sem allra fyrst.  Því miður hafa skammtímaveltusjónarmið ráðið allt of miklu í ákvarðanatöku gagnvart uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs hérlendis.

Lykilatriði til skemmri tíma er að vinna upp sem allra fyrst traust á gjaldmiðlinum til að opna á "eðlilegri" viðskipti milli landa.  Úr þessu verður það erfitt nema með skýrri framtíðarsýn stjórnvalda í gjaldeyrismálum, sem því miður bólar lítið á.  Sífellt færri telja mögulegt eða öllu heldur forsvaranlegt að byggja á eigin gjaldmiðli til lengri tíma og hafa þar helstu kostir verið nefndir upptaka evru eða dollars.

Fylgismenn dollars telja það til helstu kosta að það kalli á mun minni afleiðingar fyrir "sjálfstæði landsins" en við fengjum sterkan gjaldmiðil til milliríkjaviðskipta og upptaka hans geti gengið hraðar fyrir sig.  Þeim fer þó sífellt fjölgandi sem telja bæði hagsmunalega réttara, mikilvægara og framsýnna að horfa til samvinnu við aðildarríki ESB og þar með upptöku evru.

Það er athyglisvert að helstu fyrirmyndir sjálfstæðismanna í hagstjórn koma frá USA og einnig það kerfi sem er á bak við húsnæðisuppbyggingu landsins og er kallað "sjálfseignarhaldskerfi" á meðan að það velferðarkerfi sem við erum að byggja upp er að norrænni fyrirmynd, en þó aðlagað að bandarískum fyrirmyndum.  Fyrri 2 kerfin er nú bæði komin í þrot og kallað er eftir að velferðarkerfið verði nú styrkt enn frekar að norrænni fyrirmynd. 

Sjálfseignarhaldsstefnan er nú orðin svo rótgróin að almennt gerir fólk sér ekki grein fyrir áhrifum hennar.  Grunnstefið er að fólk eigi að eiga allt sjálft og deila sem minnstu með öðrum, sem rímar við pólitískan undirtón stefnunnar, að fólk ræði sem minnst saman um sameiginlega hagsmuni en einbeiti sér að eiginhagsmunum.  Þessi sjónarmið hafa á undanförnum árum framleitt mjög óborgaralegt, ógagnrýnt og skammsýnt neyslusamfélag, þar sem gjaldeyrir flæðir úr landinu í stað þess að byggja upp öflugt skapandi iðnaðar- og framleiðslusamfélag með fjölbreyttu atvinnulífi byggðu á góðum tengslum við menningar og menntastofnanir landsins.  Þá leið hafa öll norrænu löndin farið eftir nýlegar efnahagskreppur og meira og minna öll aðildarlönd ESB eftir bæði stríð og efnahagskerppur.  Hér er þörf á stefnubreytingu og nýjum áherslum.

Ég er sannfærður um að það sé mun umfangsmeiri hagsmunir í því fólgnir að auka samvinnu og samstarf við löndin í Evrópu og því ekki í nokkrum vafa um, að til lengri tíma sé hagsmunir íslensks atvinnulífsins og heimila betur varðir með aðild að ESB og upptöku evru, en með einhliða upptöku dollars.

Til að styrkja krónuna til skemmri tíma tel ég því gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld gefi út yfirlýsingu um jákvæða afstöðu til aðildarviðræðna sem allra fyrst.  Í næsta skrefi gætu stjórnvöld annað hvort samið við seðlabanka ESB um fastbindingu krónu við evru á ákveðnu gengi, sem myndi tryggja gjaldeyrisviðskipti við aðildarríki ESB á því gengi og þannig róa þá fjármagnseigendur sem vilja nú flytja sitt fé úr landi.  Hin leiðin væri samningur við seðlabanka ESB um upptöku evru áður en að formleg innganga á sér stað, sem byggðist á yfirlýsingu stjórnvalda um aðildarviðræður.

Verðtryggingin og hávaxtastefna vinna gegn uppbyggingu atvinnulífsins og hlaða nú skuldum bæði á atvinnulíf og heimilin.  Við upptöku evru yrðu bæði þessi atriði úr sögunni.  Þó er algert lykilatriði að verja hag bæði fyrirtækja og heimila með því að hemja skuldsetningu heimilanna með því að setja þak á verðtrygginguna, því annars mun það draga allan mátt úr atvinnulífinu til mjög langs tíma.

Við höfum engan tíma, þar sem að stórkostlegur landflótti er í loftinu og því þurfa kjarnyrtar umræður að eiga sér stað strax, sem leiða til skýrrar framtíðarstefnu varðandi gjaldmiðilinn, áherslur í uppbyggingu atvinnulífsins, velferðarkerfisins og samvinnu við löndin í kring um okkur.  Ef þessi stefna liggur ekki fyrir í janúar er gríðarleg hætta á að ungt og vel menntað fjölskyldufólk taki að streyma frá landinu í þúsunda tali. 


mbl.is Hætta á klofningi innan SA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Þú talar um uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs.  Þá datt mér í hug að spyrja þig út í Arkítekta.  Nú horfir til verkefnaskorts á næstu misserum þar sem og hjá felstum sem tengjast byggingargeiranum.  Er möguleiki á því að Íslenskar arkítektastofur nái í verkefni erlendis?   Við erum væntanlega ódýrir þar sem annarstaðar um þessar mundir.  Því ættum við að vera samkeppnishæfir á því sviði.  Veist þú til þess hvort reynt hafi verið að ná í verkefni og hvort stjórnvöld séu að aðstoða við það?

Þorfinnur P. Eggertsson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 16:50

2 Smámynd: Friðrik Óttar Friðriksson

Sæll Þorfinnur og takk fyrir að spyrja um þetta. 

Undanfarin ár hafa stjórnvöld reynar hamast við að setja reglur á opinber útboðsverk sem gera ísl. arkitektum næstum ókleyft að bjóða í verkin, en þannig var það td í tilfelli tónlistarhússins á miðbakka (THR) og fyrra þrep samkeppni um nýtt sjúkrahús (LHS).  Hins vegar hafa innlendar stofur margar verið í miklu samstarfi við erlendar stofur í sambandi við verk hér.  Örfáar hafa hins vegar verið með verk í öðrum löndum, ss Arkís, VA arkitektar og THG og hafa jafnvel stofnað stofur þar.  Okkar stofur gætu hæglega keppt sjálfstætt í tillögugerð um allan heim, en almennt er krafist samstarfs við innlenda arkitekta, ef hugmynd fer í framkvæmd, rétt eins og hér.

Við gætum líka farið í samstarf við erlendar stofur, vegna verka þar, en þannig hafa margar stofur hér unnið um árabil í völdum verkum.  Eins eru mörg svið sem við getum farið inn á hér og hefur ekki gefist tími til í hamagangi undanfarinna ára.  Mörg sóknarfæri eru í samstarfi við iðnaðinn og ferðaþjónustuna.  Við þurfum líka að laga margt í okkar löggjöf og gæðamálum til að koma sterk inn þegar fer að rofa til. 

Það eru mörg sóknarfæri í stöðunni á nýjum sviðum.  Ég tel þó afleitt ef heimilin verða svo skuldum hlaðin að kaupmáttur hverfi og þar með grunnur almenns atvinnulífs.  Einkageirinn er mikilvægasti markaður mannvirkjageirans, bæði heimili og fyrirtæki.  Það er því lykilatriði að verja hag heimilanna, þannig að hefðbundin þjónusta og störf tapist ekki, því mun meiri kostnaður er við að skapa ný störf en að aðlaga núverandi fyrirtæki að breyttum viðfangsefnum.  Nú er unnið á öllum vígstöðvum hjá mannvirkjahönnuðum til að skapa verkefni á öllum mögulegum sviðum, bæði nýjum og gömlum, bæði hérlendis og erlendis.

Ef þú lumar á ábendingu, er hún vel þegin.

Friðrik Óttar Friðriksson, 1.12.2008 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband