Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

ESB aðild - lykilatriði fyrir atvinnulíf landsins

Það vekur eftirtekt að um 75% fyrirtækja í landinu hafi ekki um árabil haft efni á að fjármagna sig hjá innlendum fjármálastofnunum og hafi því leitað í erlendar lántökur.  Viðskipti milli landa eru gríðarstór grundvallarþáttur í allri atvinnustarfsemi hérhlendis meira og minna í öllum greinum og þegar gengisáhættan er svo stór, kallar gengið á miklar álögur og verðhækkanir til að mæta þeirri áhættu.  Það leiðir til að framleiðslugreinar innanlands eiga erfiðara með að keppa við erlenda framleiðslu, bæði á innanlands og erlendum mörkuðum.  Það leiðir einnig af sér gríðarlegt gjaldeyristap vegna samkeppni í smásölu, sem kemur ma fram í heimsmeti í ferðalögum landsmanna til útlanda, en bæði ferðirnar og sú verslun sem þar á sér stað er beinn gjaldeyrisútflutningur og vegur beint gegn innlendri framleiðslu og atvinnustarfsemi.  Þessu þarf að breyta með öllum ráðum og það sem allra fyrst.  Því miður hafa skammtímaveltusjónarmið ráðið allt of miklu í ákvarðanatöku gagnvart uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs hérlendis.

Lykilatriði til skemmri tíma er að vinna upp sem allra fyrst traust á gjaldmiðlinum til að opna á "eðlilegri" viðskipti milli landa.  Úr þessu verður það erfitt nema með skýrri framtíðarsýn stjórnvalda í gjaldeyrismálum, sem því miður bólar lítið á.  Sífellt færri telja mögulegt eða öllu heldur forsvaranlegt að byggja á eigin gjaldmiðli til lengri tíma og hafa þar helstu kostir verið nefndir upptaka evru eða dollars.

Fylgismenn dollars telja það til helstu kosta að það kalli á mun minni afleiðingar fyrir "sjálfstæði landsins" en við fengjum sterkan gjaldmiðil til milliríkjaviðskipta og upptaka hans geti gengið hraðar fyrir sig.  Þeim fer þó sífellt fjölgandi sem telja bæði hagsmunalega réttara, mikilvægara og framsýnna að horfa til samvinnu við aðildarríki ESB og þar með upptöku evru.

Það er athyglisvert að helstu fyrirmyndir sjálfstæðismanna í hagstjórn koma frá USA og einnig það kerfi sem er á bak við húsnæðisuppbyggingu landsins og er kallað "sjálfseignarhaldskerfi" á meðan að það velferðarkerfi sem við erum að byggja upp er að norrænni fyrirmynd, en þó aðlagað að bandarískum fyrirmyndum.  Fyrri 2 kerfin er nú bæði komin í þrot og kallað er eftir að velferðarkerfið verði nú styrkt enn frekar að norrænni fyrirmynd. 

Sjálfseignarhaldsstefnan er nú orðin svo rótgróin að almennt gerir fólk sér ekki grein fyrir áhrifum hennar.  Grunnstefið er að fólk eigi að eiga allt sjálft og deila sem minnstu með öðrum, sem rímar við pólitískan undirtón stefnunnar, að fólk ræði sem minnst saman um sameiginlega hagsmuni en einbeiti sér að eiginhagsmunum.  Þessi sjónarmið hafa á undanförnum árum framleitt mjög óborgaralegt, ógagnrýnt og skammsýnt neyslusamfélag, þar sem gjaldeyrir flæðir úr landinu í stað þess að byggja upp öflugt skapandi iðnaðar- og framleiðslusamfélag með fjölbreyttu atvinnulífi byggðu á góðum tengslum við menningar og menntastofnanir landsins.  Þá leið hafa öll norrænu löndin farið eftir nýlegar efnahagskreppur og meira og minna öll aðildarlönd ESB eftir bæði stríð og efnahagskerppur.  Hér er þörf á stefnubreytingu og nýjum áherslum.

Ég er sannfærður um að það sé mun umfangsmeiri hagsmunir í því fólgnir að auka samvinnu og samstarf við löndin í Evrópu og því ekki í nokkrum vafa um, að til lengri tíma sé hagsmunir íslensks atvinnulífsins og heimila betur varðir með aðild að ESB og upptöku evru, en með einhliða upptöku dollars.

Til að styrkja krónuna til skemmri tíma tel ég því gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld gefi út yfirlýsingu um jákvæða afstöðu til aðildarviðræðna sem allra fyrst.  Í næsta skrefi gætu stjórnvöld annað hvort samið við seðlabanka ESB um fastbindingu krónu við evru á ákveðnu gengi, sem myndi tryggja gjaldeyrisviðskipti við aðildarríki ESB á því gengi og þannig róa þá fjármagnseigendur sem vilja nú flytja sitt fé úr landi.  Hin leiðin væri samningur við seðlabanka ESB um upptöku evru áður en að formleg innganga á sér stað, sem byggðist á yfirlýsingu stjórnvalda um aðildarviðræður.

Verðtryggingin og hávaxtastefna vinna gegn uppbyggingu atvinnulífsins og hlaða nú skuldum bæði á atvinnulíf og heimilin.  Við upptöku evru yrðu bæði þessi atriði úr sögunni.  Þó er algert lykilatriði að verja hag bæði fyrirtækja og heimila með því að hemja skuldsetningu heimilanna með því að setja þak á verðtrygginguna, því annars mun það draga allan mátt úr atvinnulífinu til mjög langs tíma.

Við höfum engan tíma, þar sem að stórkostlegur landflótti er í loftinu og því þurfa kjarnyrtar umræður að eiga sér stað strax, sem leiða til skýrrar framtíðarstefnu varðandi gjaldmiðilinn, áherslur í uppbyggingu atvinnulífsins, velferðarkerfisins og samvinnu við löndin í kring um okkur.  Ef þessi stefna liggur ekki fyrir í janúar er gríðarleg hætta á að ungt og vel menntað fjölskyldufólk taki að streyma frá landinu í þúsunda tali. 


mbl.is Hætta á klofningi innan SA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítaverð óbilgirni

Benedikt flutti góða ræðu eins og allir framsögumenn fundarins.  Heildar skuldir heimilanna eru nú um 1750 milljarðar og hafa hækkað undanfarið ár um 200 milljarða.  Ef ekkert verður annað gert en að fresta afborgunum munu um 300 milljarðar væntanlega bætast við þessar skuldir 2009, sem er hrikaleg tala.  Nýlega kynnti ríkisstjórnin björgunarpakka heimilanna, sem var verðmetinn upp á 2,4 milljarða, en inni í honum er endurgreiðsla upp á 1,5-2 milljarða á innflutningstollum vegna útflutnings á bílum sem bílaumboðin, bankarnir og bílfjármögnunarfyrirtækin eru að selja úr landi.  Síðan eru ýmis úrræði til að fela gjaldþrot einstaklinga í ca ár, þannig að enginn taki nú eftir því þegar fjölskyldurnar eru teknar ein og ein og gerðar gjaldþrota.  Ef þetta kallast ekki óbilgirni og svívirða veit ég ekki hvað!!!

Fjármálaráðherra segir "ekki hægt" að afnema verðtrygginguna, því þá fáist ekki eins mikil lán erlendis.  Önnur rök eru að þá rýrni lífeyrissjóðirnir.  En gáið að því að þeir eru ekki að hugsa um lífeyrisþegana, sem þeir láta borga allt of mikinn skatt af lífeyrinum.  Við skulum hafa á hreinu að lánshæfismat ríkissjóðs er byggt á veðum í lífeyrissjóðunum og skuldum heimilanna og því betur sem lífeyrissjóðirnir standa og því meira sem heimilin skulda því meira getur ríkið fengið að láni og á betri kjörum.  Þessi ríksistjórn er einungis að hugsa um ríkissjóð og í því samhengi þjóna lífeyrissjóðirnir og skuldir heimilanna sem veðstólar!!

Í vikunni benti Vilhjálmur Bjarnason á að útlán bankanna til eignarhaldsfélaga sl 2 ár hafi numið um 1800 milljörðum, þar sem veð hafi verið að mestu í bréfunum sjálfum, ef einhver voru!  Þessir peningar voru "óþolinmótt fjármagn" sem var notað til að knýja fram verðhækkanir fyrirtækja og þar með ýta undir verðbólgu.  Varnarbarátta bankanna byrjaði líka 2006 þegar þeir stóðu á bak við gríðarlega uppbyggingu húsnæðis, mun meira en þörf var fyrir, til að koma upp stærri veðstól og halda uppi virði á markaði.  Nú þegar pappírarnir eru fuðraðir upp eru útlánatöp afskrifuð í stórum stíl á meðan að þessar aðgerðir hafa allar hækkað húsnæðisskuldir heimilanna, bæði beint í kaupverði og eins með hækkandi verðbólgu vegna þessara aðgerða.

Nú standa fjallháar húsnæðisskuldir landsmanna eftir, vegna skvikastarfsemi bankanna og fjárglæframanna sem fengu milljarða lánaða til hlutabréfakaupa.  Þeirra aðgerðir leiddu til bankahrunsins, sem leiddi til falls krónunnar.  Á þetta horfði ríkisstjórnin kampakát, enda skiluðu stimpilgjöld og veltuskattar ríkissjóði skuldlausum. 

Nú eftir fall krónunnar er neysla hverfandi og mæld verðbólga er gerfiverðbólga, sem eingöngu er til komin vegna falls krónunnar.  Enn eiga heimilin í landinu að taka við ábyrgðinni og taka á sig ómælda hækkun verðlags vegna gengishrunsins með glórulausum hækkunum á verðtryggðum skuldum heimilanna.  

Þetta er gersamlega óverjandi siðleysi og skammsýni.  Þessari óbilgirni verður ekki tekið þegjandi og fólk mun rísa upp.  Þetta varðar um 90.000 fjölskyldur!  Mesta hættan er á að fólk hreinlega hætti að greiða af lánunum og fari af landi brott.  Ef við miðum við reynslu Færeyinga sem misstu 15% af þjóðinni þá gætu þetta verið um 45.000 manns, um 16.000 fjölskyldur!!  Skammsýnin felst í því að þegar þessar byrðar verða komnar á fjölskyldurnar, mun uppbygging hagkerfisins taka mun lengri tíma eða leiða af sér gríðarlegar kauphækkunarkröfur vegna kjaraskerðingar og þungra skulda, sem vegna verðtryggingarinnar munu bara hækka allan afborgunartímann!!  Ef laun hækka til að mæta sligandi afborgunum eykst hættan á gengisfalli verulega, til að leiðrétta framleiðslukostnað útflutningsgreinanna í samkeppni á erlendum mörkuðum.   Verðtryggingin gengur hreinlega ekki upp og því verður að forða því tjóni strax sem hún mun annars valda.

Engin áform hafa verið gefin út um að láta forsvarsmenn bankanna, fjárglæfrafjárfesta eða útrásarvíkinga bera fjárhagslega ábyrgð.  Engin yfirlýsing hefur verið gefin um að deila þurfi byrðinni milli atvinnulífs og launþega.  Engin yfirlýsing hefur verið gefin um að breyta þurfi áherslum í skattkerfinu til að jafna byrðarnar.  En það er búið að ákveða að senda heimilunum í landinu reikninginn og svo verður skoðað hvort þurfi að breyta skattkerfinu.  Fjármálaráðherra efaðist á fundinum í kvöld að hátekjuskattur, eða frekari skattar á hátekjufólk myndi skila nokkru!! 

Það verður að setja þak á verðtrygginguna strax, td við 4% efri mörk Seðlabankans, þar til verðbólga er komin niður fyrir þau mörk og þá á að afnema þetta skrapatól.  Ef við hefðum ekki haft verðtrygginguna hefðum við líklega aldrei lent í þessum hremmingum því sá doðaslaki sem í henni felst felur "svo þægilega" brestina í hagstjórninni.

Ég hvet fólk til að láta í sér heyra, þetta þarf ekki að vera svona og þarf ekki að fara svona.  Það er ekki nóg að horfa á sjónvarpið senda frá fundum og mótmælum.  Við verðum að mæta og láta í okkur heyra.


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúin trausti, með ónýt mælitæki á meingölluð kerfi

Það ástand sem upp er komið á sér margar forsendur og langan aðdraganda.  Því er erfitt að benda á einn sökudólg, eina stofnun, þingflokk osfrv. sem ber ábyrgð á því sem þjóðin stendur frammi fyrir nú.  Þó er ljóst að á vakt núverandi ríkisstjórnar fór allt til fjandans.  

Fjölmargir bentu á hætturnar, en svo var um hlutina búið að mælitækin ýmist greindu ekki hætturnar, eða vaktpóstar höfðu hreinlega verið lagðir niður svo að yfirsýn tapaðist.  Lögum var breytt til að styðja enn frekar við vöxt bankanna og fjárglæfrabrask.  Svarið við ýtrekuðum varnaðarorðum stjórnarandstöðu og málsmetandi aðila var yfirleitt að hér væri hagvöxtur mikill, tekjur ríkissjóðs góðar og vaxandi, atvinnuleysi vart mælanlegt, skuldir ríkissjóðs hverfandi og kaupmáttur almennings hefur aldrei verði meiri.  Þá var málið dautt, engar áhyggjur og ábendingar lærðra manna gerðar að léttvægu hjali.  Þessir aðilar voru keyrðir í kaf með samhentum áróðri stjórnarflokka og hagsmunaaðila í atvinnulífi og vegið að starfsheiðri þeirra.   Á meðan að staða ríkissjóðs batnaði stöðugt versnaði hins vegar hagur fyrirtækja, sveitarfélaga og heimila stöðugt, en engir mælar voru til að mæla það, amk fór ekki mikið fyrir áhyggjum ríkisstjórnarinnar af því.  Í stað þess að nýta mannauð landsins til að forðast mistök kaus ríkisstjórnin að valta yfir allar ábendingar sem samræmdust ekki pólitískum markmiðum.  Nú þegar í óefni er komið halda sömu aðilar áfram sömu aðferðafræði, þrátt fyrir að mannauði landsins sé hampað í orði, er upplýsingum um ástand og möguleg úrræði haldið frá fólkinu í landinu, þar til ákvarðanir hafa verið teknar.  Svo þétt er haldið um upplýsingar að þingmenn ríkisstjórnarflokka upplifa sig sem afgreiðslufólk í kjörbúð, ekki til umræðna um málin, heldur eru þau einungis notuð til samþykkta tillagna örfárra aðila innan ríkisstjórnarinnar.  Stjórnarandstaðan býr við sama kost.  Mótmæli og reglulegir málefnafundir almennings um stöðu mála telur þessi ríkisstjórn ekki heldur hafa neitt að segja, telja hvorki þörf á að hlusta á fólkið í landinu, mæta á fundina, né upplýsa þjóð sýna um þá sýn, sem þjóðin getur fylkt sér á bak við til að ná tökum á ástandinu og komast í gegnum hremmingarnar.  Það má ekki segja aðilum í verslun og þjónustu að hætta að selja gallabuxur, örbylgjuofna, bíla oþh. því það styggir stuðningsmenn Sjálfstæðismanna þó þessar greinar séu hreinn gjaldeyrisútflutningur, heldur á að senda heimilunum reikninginn í formi verðbólguskots á íbúðarlán!

Það vakti athygli mína að Ingibjörg Sólrún tók það sérstaklega fram á fundi flokksins um helgina að þyrfti að setja hagsmuni almennings fram fyrir hagsmuni flokksins.  Það var mikið að hún áttaði sig á þessu og sorglegt að Sjálfstæðismenn virðast enn langt frá því að hafa áttað sig á þessu.  Enn sorglegra er þó að stjórnmálaflokkar þurfi að taka slíkt sérstaklega fram, því ef þeir eru ekki að sinna hagsmunagæslu fólksins og atvinnulífsins í landinu eru þeir hreinlega á kolröngum stað. 

Fjármálakerfi landsins er hrunið og fólk ber hverfandi traust til bankanna, peningamálastefnan er ónýt, þenslupólitík ríkisstjórnarinnar er komin í strand, alþjóðasamfélagið gerir grín af stjórn Seðlabankans, stjórnmálamenn koma fram með misvísandi skilaboð og ljúga jafnvel að almenningi í gegnum fjölmiðla.  Á meðan að sífleiri upplýsingar koma fram um sviksamlega uppbyggingu í bankakerfinu, sem var nýtt til að kynda undir verðbólgu og þar með kostnað fyrirtækja og fasteignaverð, sem heimilin í landinu eru hvað mest uggandi yfir núna, neitar ríkisstjórnin að taka raunverulega á þeim vanda, sem þeir komu heimilunum í.  Yfirlýsingar eru um að standa eigi fast vörð um stofnanir og kerfi, meðan að heimilin í landinu eiga að taka á sig fjárhagslegar byrðar, langt umfram það sem eðlilegt er, í gegnum verðtryggð lán. 

Rök með verðtryggingunni eru aðallega að annars "tapi" lífeyrissjóðir, bankarnir og íbúðalánasjóður, sem er þvættingur og áróður.  Einnig er sagt að það sé "dempari" í verðtryggingunni sem dreifi hækkun vegna verðbólguskota á allan afborgunartímann og þannig verði hækkandi afborganir "þægilegri" viðureignar en ella.  Það er því ekki síst verðtryggingunni að kenna við erum í þessari stöðu, annars hefði þetta útlánasukk aldrei gengið upp og afleiðingarnar komið fram miklu fyrr.  Sú gerfiverðbólga sem hér mælist nú er eingöngu til komin vegna falls gengisins.  Samdráttur í neyslu er að drepa verslun og þjónustu í landinu og mun brátt valda enn meira atvinnuhruni.  Verðbólgan er eingöngu hér innanlands og hefur ekkert með lánakjör við erlenda aðila að gera og er þannig meira spurning um "minni tekjur" frekar en beint tap til þessara stofnana.  Fall gengisins getur ekki verið sent beint á verðtryggð lán heimilanna.  Sífellt fleiri eru á þeirri skoðun að hætta hreinlega að greiða af lánunum og hvernig standa lánadrottnar þá?

Pétur Blöndal hefur haldið fram að í 40 ár hafi þjóðinni verið kennt að eyða og sólunda, (sjá fyrri skrif) og þeim boðskap búi þjóðin að ennþá.   Hagstjórnaræfingar síðustu 20 ára dæma sig sjálfar og því er ljóst að þörf er á grundvallar breytingu allra kerfa og því er það fólk sem nú situr alls óhæft til að leiða þjóðina lengur, sérstaklega Sjálfstæðismenn, sem hafa lengur en nokkur annar flokkur setið í ríkisstjórn, komið að flestum þeim breytingum sem nú hafa boðið skipbrot og nýtt sér flokkastarf sitt ómælt til að hygla sínum stuðningsmönnum.   Því er ekki von að menn komi ekki auga á meinin, enda rétttrúnaður þeirra gagnrýnilítill.  Það dæmir þá hins vegar algerlega óhæfa til björgunar og endurreisnar.  Bara það, að það tók ríkisstjórnina rúm 2 ár að girða fyrir að innflutningur á 10 strokka 5 tonna bensínhákum væri hagkvæmari en venjulegur fjölskyldubíll segir sína sögu og er óskiljanlegt í sjálfu sér.  Þá eru ótal dæmi um tilslakanir á fjárhagslegu eftirlitskerfi, sem allar voru til að hygla fáum á kostnað margra.  Lagalega eru því án efa "rétt" formerki á mörgum ákvörðunum, þó án efa leynist margt sem flokka má lögbrot.  Maður getur hins vegar sett stór spurningarmerki um siðferðið í mjög mörgum ákvörðunum einkavæðingartímans og ekki síður því siðferði sem endurspeglast í því hvernig sitjandi ríkisstjórn tekur á og ætlar að deila ábyrgðinni af því skipbroti sem hún hefur komið þjóð sinni í. 

Mitt álit og greinilega margra annarra er að ríkisstjórnin verði að endurnýja umboð sitt og boða eigi til kosninga í vor.  Ég hvet alla sem eru sama sinnis að fara inn á www.kjosa.is og láta skoðun sína í ljós.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging er tifandi tímasprengja

Komið hefur fram að gríðarmörg heimili eru með mjög spenntan fjárhagsboga, sem miðast við að geta greitt afborganir verðtryggðra lána núna.  Margir tóku 90-100% lán til 40 ára, en slík lán hækka stanslaust í rúm 25 ár áður enn þau taka að lækka.  Eignamyndun er afar hæg.  Í því árferði sem við göngum í gegnum núna hækkar höfuðstóll verðtryggðra lána með gríðarlegum hraða sem þrengir mjög það svigrúm sem lántakendur töldu sig hafa til hagræðingar og afborganir verða yfirþyrmandi mun fyrr en ella.

Þegar í þokkabót bætist við að atvinnuástand fer hríðversnandi og fasteignaverð er hratt fallandi breytast allar forsendur þannig að útlit til eignamyndunar verður vonlaust og við slík skilyrði er veruleg hætta á að fólk bregðist við með því að hætta að greiða af lánunum sínum og láti gera sig upp.

Því verður að setja þak á óbilgjarna skuldsetningu heimilanna með inngripi í verðtryggð lán og festa verðbótaþáttinn, td í efri mörkum seðlabankans, við 4% og þar til verðbólga fer undir þau mörk.

Ef ekki verður brugðist við nú, munu þúsundir heimila falla fyrir verðtryggingunni innan mjög skamms.  Verðtryggingin er því eins og tifandi tímasprengja inni á heimilum landsmanna.  Þá er spurningin sú hvort ráðamenn ætla að leyfa henni að sprengja upp fjölskyldur landsins í þúsunda tali, eða aftengja hana í tíma?  Því miður hafa ráðamenn ekki mikinn tíma til umhugsunar.  Þegar krónunni verður fleytt getur það þegar verið of seint!


mbl.is Hætti að greiða af lánum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í bílaútrás !

Fyrir stuttu voru kynnt úrræði til að bjarga heimilunum í landinu og síðar kom í ljós að breytingar á lögum til að heimila endurgreiðslu innflutningsgjalda bifreiða var metið inni í þeim úrræðum.  Stærðargráðan á endurgreiðslunni er 1,5-2 milljarðar en björgunarpakki heimilanna var metinn á 2,5 milljarða!!   Á meðan raunverulegar aðgerðir til varnar heimilunum vantar, hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað 2008 um  rúma 200 milljarða og munu hækka um 300 milljarða árið 2009, ef sama ríkisstjórn beitir sömu snilldar "björgunaraðgerðum" áfram.  Er þetta ekki bara að verða gott hjá þessu fólki?   Ég er amk orðinn hundþreyttur á pólitískum fyrirslætti. 

Hins vegar eru sölutekjur útrásarbílanna metnar um 10 milljarðar, gjaldeyrir inn í landið, sem er hið besta mál.  Ef við ætlum hins vegar að núlla auknar skuldir heimilanna með bílasölu úr landi þá þurfum við að selja um 250.000 bíla úr landinu!!  Er það ekki nokkuð ýkt?


mbl.is 5000 bílar úr landi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið besta mál

Það er vissulega þörf á að fjölga stoðum atvinnulífsins á landinu, sérstaklega ef þær flokkast gjaldeyrisskapandi.  Þegar í ofanálag um er að ræða eldsneytisframleiðslu á bíla og skipaflotan með nýtingu á (CO2) útblæstri sem verður til við framleiðslu málma, ss áls og kísiljárns, sem þegar eru í framleiðslu hér er virknin þreföld.  Gjaldeyrismyndandi stoðum atvinnulífsins fjölgar, minni CO2 útblástur og eldsneyti verður innlend framleiðsla, sem gæti dregið verulega úr innflutningi eldsneytis, ef vel tækist til.

Er þetta þá ekki hið besta mál?

 


Hvað segja talsmenn neytenda um verðtryggðu lánin?

Á vefsíðu talsmanns neytenda er að finna leiðarkerfi neytenda.  Þar má finna þennan texta:

Óréttmætir skilmálar og ógilding samnings

Ógilding samnings

Í vissum tilvikum er hægt að ógilda samninga eða víkja þeim til hliðar þeim að hluta eða öllu leyti, til dæmis ef:

  • samningsskilmálar eru óréttmætir, s.s. þegar samningurinn er bersýnilega óhagkvæmur, ósanngjarn gagnvart neytenda eða raskar til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag,
  • neytandi er bundinn við samninginn óeðlilega lengi eða uppsögn ótímabundins samnings er gerð óeðlilega erfið,
  • samningi er komið á með því að annar aðilinn er neyddur til þess,
  • svik hafa verið viðhöfð, eða bágindi, einfeldni eða fákunnátta annars manns hefur verið notuð til að koma á samningi eða
  • það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig.

Ekki er hægt að víkja samningi til hliðar einhliða, heldur verður að semja um það eða leita aðstoðar úrskurðarnefndar eða dómstóla til að fá samningnum hnekkt.

Óréttmætir samningsskilmálar  

Gefin hefur verið út leiðbeinandi skrá um óréttmæta samningsskilmála sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Skráin er aðeins leiðbeinandi en ekki tæmandi talning á þeim atriðum sem geta valdið því að samningsskilmálar séu óréttmætir.

Ef samningsskilmálar eru óréttmætir er í vissum tilvikum hægt að ógilda samninga eða víkja þeim til hliðar. Ekki er hægt að víkja samningi til hliðar einhliða, heldur verður að semja um það, eða leita aðstoðar úrskurðarnefndar eða dómstóla til að fá samningnum breytt eða hnekkt.

Það er ljóst að sl. 15 mánuði höfðu  bankarnir beinan hag af því að kynda undir verðbólgu með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal að fella gengið til að auka á bókfærðar eigur sínar í ársfjórðungsuppgjörum.  Í hruni verðbréfamarkaða hafa mörg fyrirtæki sogast í kjölfarið og eftir standa uppskrúfaðar skuldir heimilanna, bundnar verðtryggðum lánum.  Verðbólga er í raun engin en í kjölfar gríðarlegs gengisfalls skrúfast húsnæðislánin upp úr öllu samhengi, í stærðargráðunni um 500 milljarðar á árunum 2008 og 2009 ef fer sem horfir.  Er forsvaranlegt að beyta verðtryggingu í óbreyttri mynd í slíku ástandi???

Hvað segir talsmaður neytenda og neytendasamtökin??


Erlendir bankar til starfa hérlendis, lykilatriði í að endurskapa traust

Þeir eru sennilega fáir sem bera eitthvert traust til innlendra banka í dag og ef landsmenn hefðu þess kost væru þeir sennilega búnir að færa viðskipti sín annað.  Slæmt gengi er sennilega einna helsta bremsa stórkostlegs flutnings fjármagns til "traustari" viðskiptabanka.  Þegar erlendir bankar taka að starfa hér og bjóða húsnæðislán, á sambærilegum kjörum og tíðskast í þeirra heimalöndum munu íbúðarlán hverfa úr íslensku bönkunum, nema þeir taki að bjóða sanngjarnari kjör.

Þetta eru góðar fréttir og huggun harmi gegn að nú virðast ráðamenn að vera að taka upp þráðinn frá fyrri tilraun einkavæðingar bankanna.  Vonandi að þeir sendi ekki ráðgjafana aftur heim eftir fyrsta fund.  Það er lykilatriði að skapa heimilunum og fyrirtækjunum í landinu sanngjarnan bakhjarl (ekki samkeppnisaðila), sem meðhöndlar viðskiptavini sína sem viðskiptavini, en ekki búpening.  Við þessa breytingu ætti að styttast í að verðtrygging húsnæðislána verði lögð niður og þar með grundvallar verðbólguhvati hagkerfisins.  


mbl.is Rétt að skoða aðkomu útlendinga að bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í 40 ár var þjóðinni kennt kerfisbundið að eyða og sólunda

Þetta sagði Pétur Blöndal á fundi um kosti og galla verðtryggingarinnar í kvöld.  Þarna er Pétur að vísa til áranna 1940-1980, þegar innlánsvextir, ákveðnir af Seðlabanka voru ætíð lægri en verðbólga.  "Sparifjáreigendur voru rændir en skuldurum var hyglað.  Þeir græddu mest sem fengu mestu lánin.  Eftirspurn eftir lánum var takmarkalaus og biðstofur bankastjóra troðfullar.  Lífið varð "lán" = hamingja."  "Þjóðin hefur enn ekki gleymt þessari kennslu", sagði Pétur.  Þannig var ástandið þar til verðtryggingin var tekin upp.  Hér má sjá fundinn í heild sinni og glærur framsögumanna. 

Er furða að sitthvað hafi farið úrskeiðis undanfarin ár? 

Verðbólgumælingar byggja á meðal neyslukörfu síðustu 3 ára og eru því algjörlega úr takti við núverandi ástand, enda hefur neyslumynstur gerbreyst á örfáum árum.  Neysluvísitala er því ónýtt tæki til að taka á núverandi ástandi og eingöngu til þess fallið að fela eignatilfærslu frá heimilum til lánastofnana.

Vísitölubundin lán eru mun dýrari en óbundin lán þegar heildarkostnaður er skoðaður.   Eignamyndun er mun hægari á vísitölubundnum lánum.  Vísitölubundin lá bera þó léttari afborganir.  Ef íbúðarlán hefðu almennt verið óbundin hefði alls ekki verið hægt fyrir bankakerfið að þenja hagkerfið út með þeim hætti sem þeir gerðu og líklega hefði vandinn sem þeir sköpuðu með þennslunni verið mun minni í sniðum.

Flestir eru farnir að sjá þetta.  Þó telja menn ekki rétt að afnema verðtrygginguna við núverandi aðstæður, því þá rýrni eignarhlutur lánveitenda.  Því ætla ráðamenn að halda í verðtrygginguna svo lengi sem kostur er og varpa þannig gríðarlegri skuldabyrði á heimilin í landinu.  Þetta verður að stöðva strax.


Erlendir ferðamenn hækka húsnæðisskuldir heimilanna

Atvinnulausum fjölgar stöðugt og eru nú komnir í 6.148 manns.  Velta á markaði hefur snardregist saman en samt "mælist" hér verðbólga upp á um 16% og verðtryggðar skuldir heimilanna þenjast út með ógnarhraða, eða þegar um rúma 200 milljarða á fyrri helmingi þessa árs.  Neysla landsmanna hefur dregist svo skarpt saman að kaupmenn hafa aldrei upplifað annað eins.  Samt mælist hér verðbólga vegna gengisfallsins.

Aðilar í ferðaþjónustu, veitingahúsarekstri, verslun og þjónustu reyna nú að snúa vörn í sókn og markaðsátak er hafið erlendis til að fá erlenda ferðamenn hingað.  Það ætti að vera jákvætt, ætti að skila gjaldeyri inn í samfélagið og því að vera mjög jákvætt.

En vegna gengisfallsins og verðtryggingarinnar veldur þessi aukna velta mikilli "mældri" verðbólgu og mun því senda skuldugum heimilum landsins feitan bakreikning í formi hækkunar á neysluvísitölu og þannig enn hærri skulda.  Ef ekkert verður að gert munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um tæpa 300 milljarða á næsta ári.  Er einhver glóra í þessu??

"Björgunarpakki" ríkisstjórnarinnar fyrir heimilin er metinn á um 2,4 milljarða og þar er inni endurgreiðsla á innflutningsgjöldum bíla, sem nú er verið að flytja úr landi.  Hversu lengi á maður að þola svona glórulausan áróður, hvaða björgunaraðgerðir eru þetta?  Það á að reyna að fá fólk til að trúa því að þeir sem hafa klúðrað málum algerlega gagnvart þjóð sinni og komið atvinnulífinu og heimilunum í stórkostleg fjárhagsleg vandræði séu að koma fólki til bjargar.  Þvílíkt rugl.  Allar aðgerðir snúa nú að ríkissjóði og bankakerfinu!  Engum orðum er eytt í atvinnulífið eða heimilin í landinu!! 

Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki styggja sína dyggu og trúföstu stuðningsmenn innan verslunar og þjónustu, jafnvel þótt þeir stuðli að botnlausu gjaldeyrisútflæði.  Það veldur hins vegar miklum vonbrigðum að Samfylkingarfólk standi ekki betur með fólkinu í landinu.

Heimilin í landinu eru nú um 125.000, fjöldi vinnandi fólks á atvinnumarkaði telst nú um 180.000 manns, en skattgreiðendur voru um 175.000 árið 2007.  Um 75% heimilanna í landinu skulda alls um 1.750 milljarða og þar af eru um 75% verðtryggð lán.  Hækkun skulda þessa hóps verður um 300 milljarðar vegna húsnæðisskulda 2009.  Þessi hópur tekur einnig á sig verulega eignarýrnun og væntanlega skattahækkanir eins og aðrir.  Sem stærðarviðmiðun þá hefur Seðlabankinn tilkynnt að búist sé við um 82 milljarða samdrætti á tekjum ríkissjóðs 2009!  Kostnaði af afglöpum stjórnmála- og bankamanna verður að dreifa með jafnari hætti.

Það verður að grípa til aðgerða strax til að forða þessari ranglátu skuldsetningu heimilanna, því hún gengur ekki til baka heldur mun íþyngja heimilunum til lokagreiðslu.  Heimilin eiga ekki að greiða refsigjald fyrir sjálfsbjargarviðleitni atvinnuvega sem geta aukið á tekjur sínar í gegnum erlenda ferðamenn.  Það er út í hött.

Setjum þak á vexti verðtryggðra lána strax, áður enn krónan verður sett á flot.  Óbilgjörn eignatilfærsla getur hæglega snúist í andstæðu sína ef skuldsett heimilin hreinlega neita að greiða þessa reikninga og hætta að greiða af lánunum.  Sú hætta er raunveruleg!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband